Húsnæðismál

Mánudaginn 09. mars 1998, kl. 16:14:53 (4457)

1998-03-09 16:14:53# 122. lþ. 82.16 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 122. lþ.

[16:14]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var alls ekki að bera af mér að hafa borið frv. inn í þingið, aldeilis ekki. Nefnd sem skipuð var árið 1993 skilaði frv. sem innihélt mjög þýðingarmikil ákvæði, af sér fyrir jólin 1994 þegar ég var nýorðin ráðherra. Ég bar frv. inn í þingið og ber ábyrgð á því.

[16:15]

Ég sagði hins vegar að það hefði verið annar bragur á því máli sem við erum að ræða hér ef það hefði verið lagt fram með sömu formerkjum og frv. sem ég lagði fram. Þar var óskað eftir því að félmn. tæki þau mál sem hún treysti sér í. Það er rétt að ég sorteraði ekki það sem nefndin setti fram í frv. Ég tók það, lagði það fram og mælti fyrir því og bað nefndina að afgreiða það sem gott væri í því í febrúar.

Virðulegi forseti. Ráðherrann hefur hins vegar valið að vera með útúrsnúninga í stað þess að gera ítarlega grein fyrir afleiðingum þess frv. sem hann er með. Með skýrum víðtækum dæmum hefði hann t.d. getað skýrt hvað það þýðir fyrir hina ýmsu hópa í félagslega húsnæðiskerfinu. Hér varði hann heilli ræðu, og kallaði það að svara okkur sem höfum talað í umræðunni, m.a. í að velta því fyrir sér hvort þingmenn sem hafa áhyggjur af því máli sem ráðherrann hefur staðið fyrir, yrðu stofuprýði eða ekki ef umræðan í þinginu dregst fram á vor út af þessu frv.

Er það ekki dæmalaust og mikil málefnafátækt þegar ráðherra ætlar að svara fyrir frv. sitt og svara þingmönnum sem komið hafa með málefnalega gagnrýni á það, að tala svona til þingsins?