Húsnæðismál

Mánudaginn 09. mars 1998, kl. 16:18:33 (4459)

1998-03-09 16:18:33# 122. lþ. 82.16 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 122. lþ.

[16:18]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Heldur fannst mér málsvörn ráðherrans máttlaus, enda hefur hann vondan málstað að verja. Hann hrakti í engu þá gagnrýni sem fram hefur komið á frv. hans. Hann fór með rangfærslur og fleipur sem ég mun fara ítarlega yfir í síðari ræðu minni.

Það voru auðvitað örgustu öfugmæli þegar hæstv. ráðherra sagðist vera að framfylgja stefnu ASÍ. Þetta er rangt. ASÍ hefur mótmælt þessum tillögum. ASÍ vill breyta núverandi löggjöf og lagfæra á henni galla. ASÍ vill hins vegar byggja á núverandi löggjöf en ekki slá hana af, rústa félagslega kerfið eins og hæstv. ráðherra er að gera.

Aðalástæðan fyrir andsvari mínu nú er þó að í ræðu sinni hélt ráðherrann því fram að fráleitt væri að einungis ætti að byggja 50 leiguíbúðir næstu tvö árin eins og hér hefur komið fram. Það er grundvallaratriði, þegar fara á þá leið sem ráðherrann ætlar sér, hve margar leiguíbúðir á að byggja. Ég spyr: Er það rangt sem stendur hér í umsögn fjárlagaskrifstofunnar um þetta frv.? Þar segir: ,,Fjöldi og upphæð lána skulu taka mið af framlagi ríkissjóðs í fjárlögum og áætluðum kostnaði vegna niðurgreiðslu vaxta. Miðað er við að veitt verði lán til allt að 50 leiguíbúða á niðurgreiddum vöxtum árin 1999 og 2000.``

Ég beini því til hæstv. forseta að þessari umræðu verði ekki haldið áfram fyrr en hæstv. fjmrh. hefur tækifæri til að vera við umæðuna og segja þinginu hvort það sem stendur hér í umsögn fjárlagaskrifstofunnar sé rangt, að það eigi einungis að byggja 50 leiguíbúðir á næstu tveimur árum.