Húsnæðismál

Mánudaginn 09. mars 1998, kl. 16:20:38 (4460)

1998-03-09 16:20:38# 122. lþ. 82.16 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 122. lþ.

[16:20]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. 13. þm. Reykv. ætti nú ekki að tala um rangfærslur og fleipur því hún á áreiðanlega Íslandsmet í því. Allt sem ég hélt hér fram í ræðustólnum stenst.

Ég las upp, lið fyrir lið, áherslupunkta sambandsstjórnarfundar ASÍ frá 20. nóv. 1996. Ég gerði grein fyrir því hvernig orðið er við þeim, hverjum einum og einasta. Eina frávikið er að þeir óskuðu eftir að félagslegu lánin yrðu til 43 ára en hér er gert ráð fyrir 40 árum.

Með 50 íbúðum er átt við innlausnaríbúðir sveitarfélaganna. Þetta er öryggisákvæði um innlausnaríbúðir sveitarfélaga. Og ef hv. þm. hefur fyrir því að lesa texta greinarinnar, þá ætti hún að sjá að í lagatextanum er skýrt kveðið á um hvernig standa eigi að þessu.