Húsnæðismál

Mánudaginn 09. mars 1998, kl. 16:35:34 (4469)

1998-03-09 16:35:34# 122. lþ. 82.16 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., SJS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 122. lþ.

[16:35]

Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir þær óskir sem hér hafa komið fram um að annaðhvort mæti hæstv. fjmrh. til þessarar umræðu eða þá henni verði frestað þangað til hæstv. fjmrh. er viðstaddur. Ég minni reyndar á þá tillögu mína frá því á föstudag að þessi frv. verði rædd saman, frv. hæstv. fjmrh. um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt, þ.e. vaxtabæturnar, og þetta frv. því það er alveg ljóst að þetta frv. hangir alveg gersamlega á því hverjar efndir verða á þeim fyrirheitum sem gerð eru um vaxtabætur í frv. fjmrh. Þegar það bætist svo við að hæstv. ráðherrar eru ekki sammála eða a.m.k. virðist verulegs misræmis gæta í afstöðu annars vegar fjmrn. eins og hún birtist í fylgiskjölum með þessum málum og hins vegar því sem hæstv. félmrh. er að reyna að segja hér, er að reyna að telja mönnum trú um að það beri ... (Félmrh.: Lestu frv.) Það er víst nóg að hæstv. félmrh. misnoti eigin ræðutíma þó að hann misnoti ekki ræðutíma annarra hér. Ég hvet hæstv. ráðherra til þess að láta sér nægja að gera það í eigin ræðutíma.

Ég fer sem sagt fram á það, herra forseti, að þessari umræðu verði frestað þangað til hæstv. fjmrh. er kominn til starfa sinna á þingi og er það reyndar hans mál hversu lengi það stendur. Hæstv. ráðherrar geta ekki ætlast til þess að þingstörfin gangi ótrufluð og eðlilega fyrir sig ef þeir eru ekki til staðar til að taka þátt í þeim og svara fyrir um sína hluti sem hér eiga undir.

Reyndar tel ég, herra forseti, að það sé ástæða til þess fyrir forustu þingsins að taka stöðu mála til gagngerðrar skoðunar og ræða hana, ekki síst við hæstv. forsrh. sem hefur verið að tala um að þinginu ætti að ljúka óvenjusnemma. Það væri jafnvel ástæða til að flýta þinginu um viku og ljúka því strax 22. apríl og í því skyni hefur verið aukið við fundahald á föstudögum. En í framhaldi af því að hæstv. forsrh. ræðir slíkar hugmyndir koma inn frv. af þessu tagi, stórir bálkar um gagngerðar stefnubreytingar í mikilvægum málaflokkum og það er ,,ganske pent`` sagt að afgreiða eigi þau mál fyrir vorið --- svo ekki sé talað um það sem er að fréttast af núna, t.d. nýjustu hugmyndir hæstv. fjmrh. um að gefa vinum sínum gjafir ef hann skyldi fara að láta af embætti, þ.e. að lækka skattana á fyrirtækjunum í landinu. Þetta erum við þingmenn að frétta utan úr bæ að til standi að gera á þeim fáu dögum sem eftir lifa af þinghaldinu miðað við að það verði stytt eins og hæstv. forsrh. hefur verið með hugmyndir um. Það er í góðu lagi ef samkomulag tekst um það en þá verður hæstv. ríkisstjórn að leggja eitthvað af mörkum í því sambandi. Það gerir hún ekki, í fyrsta lagi ekki með málflutningi af því tagi sem hæstv. félmrh. hafði uppi hér, það gera ráðherrarnir ekki með því að þvælast í útlöndum og vera með fjarvistir dögum eða vikum saman og það gera menn ekki með því að dæla inn nýjum stórmálum á degi hverjum og ætlast samt til þess að þinginu ljúki innan fárra starfsdaga. Þetta er alveg ómöguleg staða, herra forseti, og ég legg til að forseti geri fundarhlé, við fáum okkur kaffi. Síðan fundi forseti með formönnum þingflokka og reyni að koma einhverju skikki á þessi mál.