Húsnæðismál

Mánudaginn 09. mars 1998, kl. 16:41:33 (4471)

1998-03-09 16:41:33# 122. lþ. 82.16 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., VS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 122. lþ.

[16:41]

Valgerður Sverrisdóttir (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða mikið mál að vöxtum sem er frv. til laga um húsnæðismál. Það er alveg rétt að það er nokkuð róttæk breyting sem þarna er verið að tala um að gera á húsnæðiskerfinu þannig að eðlilegt er að mikil umræða sé um þetta mál, ég tel það mjög eðlilegt.

En ég vil hins vegar minna á að málið er algerlega á ábyrgð hæstv. félmrh. Mér finnst því ekki sanngjarnt að koma fram með kröfur um það nú í miðri 1. umr. að henni sé frestað vegna þess að hæstv. fjmrh. sé ekki í húsinu. Hæstv. fjmrh. ber ábyrgð á öðru máli sem ekki er á dagskrá og það verður rætt síðar.

Hv. 5. þm. Reykn. talaði um að ósanngjarnt væri að keyra þetta mál í félmn. án þess að hafa fengið ákveðin svör frá hæstv. fjmrh. Til hvers er nefndastarf á hv. Alþingi? Ef það ekki til þess að fá svör við spurningum eins og þessari? Það verður ekki öllum spurningum svarað í þessum sal við 1. umr. enda er 1. umr. samkvæmt þingsköpum ekki hugsuð þannig. Hún á bókstaflega ekki að vera þannig að öllum spurningum sé svarað. Við erum að tala um að ljúka 1. umr. um þetta mál og við munum að sjálfsögðu einhenda okkur í það vegna þess að sú ósk að kalla eftir hæstv. fjmrh. er ekki málefnaleg.