Húsnæðismál

Mánudaginn 09. mars 1998, kl. 16:54:10 (4481)

1998-03-09 16:54:10# 122. lþ. 82.16 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 122. lþ.

[16:54]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Á föstudaginn þegar við ræddum þetta mál skein sól í heiði og í mínum huga skín hún enn, því þetta er mjög gott mál. Þetta er sólarmál. Nú á að leggja niður stærstu lánastofnun landsins, þá alstærstu. Hún er miklu stærri en Landsbankinn. Og með henni á að leggja niður húsnæðiskerfi sem er hreinlega sovétskipulag, þannig að ég gleðst. Og það á að gera bara sisvona. Hæstv. félmrh. og ríkisstjórninni allri ber að þakka. Þetta hefur ekkert með stefnu Sjálfstfl. eða Framsfl. að gera. Þetta er bara heilbrigð skynsemi. Kerfið er svo gallað, það fær svo mikið af kvörtunum að þetta er ekkert annað en heilbrigð skynsemi og þar náum við vel saman, ég og hæstv. félmrh. Í heilbrigðri skynsemi.

Húsnæðiskerfið var nauðsynlegt og þarft á sínum tíma til þess að ráða við skyndilegan tilflutning fólks á mölina. Það gerðist mjög skyndilega og hratt og olli miklum vandræðum. Nú er það liðin tíð. Nú geta allir fengið lán sem geta borgað. Og vextir eru að lækka. Það urðu þau skemmtilegu tíðindi að nákvæmlega á þessum sólardegi, á föstudaginn, á þeim sama sólardegi, lækkuðu vextir þvílíkt að langtímahúsbréfin til 40 ára fóru niður fyrir vextina sem eru á bréfunum, sem eru 4,75%, þannig að þau eru seld með yfirgengi. Yfirgengi, ekki afföll. Það eru neikvæð afföll og það mun leiða til þess, ef vextir lækka áfram sem vonandi gerist, að íbúðaverð lækkar. Íbúðaverð almennt lækkar því það er mjög ákveðið samhengi milli vaxtanna og íbúðaverðsins þannig að þetta var mjög skemmtileg tilviljun. Á sama tíma og við ræddum þetta sólarfrv. lækkuðu vextirnir niður fyrir þetta mark á langtímabréfunum.

Af hverju lækka vextirnir svona? Það er vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur tekist að ná halla ríkissjóðs niður, og ber að þakka hæstv. fjmrh. fyrst og fremst fyrir þann mikla árangur sem á eftir að gagnast fjölskyldum í landinu, sérstaklega þeim tekjuminni, miklu meira en margt annað sem gert er.

Herra forseti. Skipulag félagslega íbúðakerfisins er með ólíkindum. Fólk sem nýtur þessara styrkja verður að kaupa ákveðna íbúð á ákveðnum stað. Það má ekki velja. Það getur ekki valið sér íbúð eins og við hin sem ekki þurfum á þessu að halda. Þessar eignir eru hlaðnar alls konar kvöðum. Fólk má ekki veðsetja þær eins og aðrar eignir sínar, það má ekki selja þær hverjum sem er. Ef það vill selja verður það að selja sveitarfélaginu á einhverju föstu verði, á ákveðnu verði. Það er einhver embættismaður sem segir þeim og einhver reikniregla sem segir hvert verðið er. Það hefur ekkert að gera með markað, ekki baun. Það er algjörlega úr takti við verð annarra íbúða í kringum það. Svo eru stærðarmörk á þessu kerfi. Íbúðirnar mega ekki vera nema af ákveðinni stærð, og alls konar kvaðir eru settar á fólk. Þetta er ekkert annað en sovétskipulag. Og fólkið sem í þessu kerfi býr hefur ekki þessa ágætu, góðu tilfinningu fyrir eign sem er nauðsynleg hverjum manni fyrir sjálfsvirðingu hans, að hann eigi eitthvað. Sérstaklega eyðileggur þessi kaupskylda sveitarfélaganna þá ágætu og góðu tilfinningu fyrir eign, vegna þess að ég skila ekki eign minni. Ég skila ekki bílnum mínum eða íbúðinni minni. Það er enginn til að taka við henni, af því ég á þetta einn. En fólkið sem býr í félagslega kerfinu má skila eigninni. Það þýðir að það á hana ekki fullkomlega. Það eyðileggur líka þessa ágætu tilfinningu fyrir eign.

Svo er þetta alveg óskaplega dýrt kerfi. Reksturinn á Húsnæðisstofnun er með ólíkindum dýr, og svo geta sveitarfélögin tekið umsýslugjald sem er töluvert hærra en sölulaun hjá fasteignasölum, sem sumum þykir þó nóg um. Svo er einn stór galli við þetta. Það er ákaflega hæg eignamyndun. Fólk borgar og borgar af þessum eignum og á aldrei neitt, fyrstu árin a.m.k. Og vegna þess að fólk hefur ekki þessa ágætu tilfinningu fyrir eign er viðhaldið lélegt, enda ekki á valdi fólksins sjálfs. Þetta er sovétskipulag og það er ágætt að það eigi að fara að leggja það af. Alveg ágætt.

Þessar íbúðir hafa verið byggðar á ákveðnum stöðum og því miður, það er alveg sama hvað menn segja, það er talað um bæjarblokkir. Því miður. Það myndast ákveðin ,,gettó`` og það er ekki gott fyrir sjálfsvirðingu þeirra sem þar búa. Þetta leiðir af því að fólk hefur ekki mátt velja sér íbúð sjálft.

Svo er ákveðin fátæktargildra í þessu kerfi. Til að fá íbúð mega menn ekki hafa nema ákveðnar tekjur. Tekjurnar þurfa að vera undir ákveðnu lágmarki. Það þýðir að fólk reynir að fara niður fyrir þetta lágmark til að fá happdrættisvinninginn sem talað var um. Og fólk má ekki hækka í tekjum, því þá hækka vextirnir og þar eru hæstu jaðarskattarnir í öllu kerfinu. Þegar vextirnir voru hækkaðir eins og síðustu ræðumenn töluðu um þá hækkaði greiðslubyrði fólksins gífurlega.

[17:00]

Herra forseti. Hvaða áhrif hefur þetta kerfi haft? Hvaða áhrif hefur það haft á almenning, á sveitarfélög o.s.frv.? Þetta kerfi hefur lækkað almennt íbúðaverð um allt land. Það hefur verið byggt of mikið af félagslegum íbúðum til þess að halda uppi atvinnu á staðnum og það hefur orðið til þess að venjulegir borgarar í þessum sveitarfélögum hafa ekki getað selt íbúðir sínar. Það hefur valdið geysilegum vandkvæðum hjá fólki, lækkað eignir þess þannig að það hefur ekki getað selt. Það er eiginlega ánauðugt á stöðunum. Þetta er afleiðingin af því að byggja íbúðir þar sem ekki er þörf á þeim.

Það er þekkt að þegar vextir eru niðurgreiddir einhvers staðar á einum enda kerfisins þá hækka þeir á hinum. Það er þekkt. Meðalvextirnir eru alltaf þeir sömu. Þessi niðurgreiðsla á vöxtum ein sér hefur því hækkað vexti annars staðar. Hún hefur valdið umframeftirspurn eftir fjármagni á öðrum endanum og það þýðir að minna fjármagn er á hinum endanum til ráðstöfunar. Þetta er þekkt. Hún hefur líka hækkað verð á félagslegum íbúðum vegna þess að þegar vextirnir eru ekki nema 1% þá skiptir í rauninni engu máli hvað íbúðin kostar. Menn hafa verið mjög flottir og flottræfilslegir í byggingu félagslegra íbúða. Þær eru allt of dýrar og jafnvel svo dýrar að þrátt fyrir 1% vexti eða mjög lága vexti, getur fólkið ekki borgað af þessum lánum. Þetta hefur svo leitt til þess að íbúðir standa auðar í fjölda sveitarfélaga og þetta er orðið mikið vandamál fyrir sveitarfélögin. Það hlýtur að vera þjóðhagslega óhagkvæmt að láta íbúðir standa auðar. Þetta kerfi hefur sem sagt leitt til ábyrgðarleysis. Þetta er akkúrat dæmi um það sem ég hef nefnt, fé án hirðis, fjármagn sem enginn á og allir eru að leika sér með. Hugmyndafræðin er að gera alla jafna, alla jafnfátæka.

Herra forseti. Staða byggingarsjóðanna er sögð vera 26 milljarðar. Það er bókhaldsleg staða þeirra. Það sem við þeim blasir í framtíðinni er að vextirnir sem þeir hafa lánað út með, sem þeir fá, eru miklu lægri en vextirnir sem þeir hafa lofað að borga af lánum sem þeir hafa tekið. Staðan er því miklu verri ef þetta er tekið inn í myndina. Ég hef ekki fengið upplýsingar um þetta og ég beini spurningu til hæstv. félmrh.: Hver er raunverulega staða byggingarsjóðanna þegar tekið er tillit til þess að útlánsvextir hjá sjóðunum eru lægri og verulega lægri en innlánsvextirnir?

Herra forseti. Við erum hér að taka upp samræmt kerfi þar sem allir fá sömu meðhöndlun. Nú verður ekki sagt við fólk: ,,Þú ert annars flokks. Þú skalt sækja um íbúð í félagslega kerfinu.`` Nú eru allir jafnir. Menn geta valið sér íbúð (RG: En sumir jafnari en aðrir.) og menn fá fyrirgreiðslu og lánafyrirgreiðslu og ríkisábyrgð eins og aðrir með húsbréfakerfinu. Þetta er mikil breyting. Og allir fá vaxtabætur jafnt. Þetta er mikil breyting og á eftir að valda því að fólki finnst það vera með sjálfsvirðingu.

Það hefur verið talað um að 600 íbúðir muni skorta. Ég veit ekki hvað fók er að hugsa. Stendur til að rífa einhverjar íbúðir? Það stendur ekki til að rífa neinar íbúðir og það verður byggt ekki síður en hingað til. Ég er alveg sannfærður um að sú fyrirgreiðsla sem þetta kerfi veitir einstaklingum mun ekki minnka eftirspurn eftir íbúðum. Þær verða byggðar. En þær verða kannski eins dýrar og félagslegu íbúðirnar sem menn hafa getað byggt vegna þess að fjármagnið var svo ódýrt. (KÁ: Ekki í Reykjavík. Þær eru ekki dýrar í Reykjavík.)

Í þessu kerfi er svona smákul í sólardeginum og það eru vaxtabæturnar. Ég hef sagt að þær eru óalandi og óferjandi einar sér og nú á að víkka þær út. Þær eru mjög skuldahvetjandi. Þær eru ófélagslegar og ég hef bent á að hjón með 600 þúsund kr. tekjur geta fengið tæpar 20 þúsund kr. á mánuði í vaxtabætur ef þau passa sig á því að skulda nógu mikið. Þær eru mjög skuldahvetjandi og þjóðhagslega óhagkvæmar og ég er einmitt að vinna núna að frv. um að taka á því vandamáli og koma með almennar húsnæðisbætur sem ég held að sé miklu skynsamlegra.

Svo er í hinu nýja kerfi --- hvað á ég að segja --- barn Húsnæðisstofnunar, þ.e. Íbúðalánasjóður. Ég er ekkert ákaflega hrifinn af því. Ég hefði viljað sjá að þetta kerfi yrði einkavætt, bankarnir stofnuðu ,,Húsbréf hf.``, tækju þetta yfir og lánuðu miklu fjölbreyttara og betur eftir þörfum kúnnans, en svo er ekki. Nú skulu allir taka eina tegund af húsbréfum og með útdráttarfyrirkomulagi og ég veit ekki hvað og hvað. En það kemur kannski einhvern tíma.

Varðandi leiguíbúðir þá er spurningin hvort ekki mætti lána fyrstu 70% með húsbréfum og síðan yrði afgangurinn lánaður eins og ætlað er í þessu kerfi.

Svo eru á frv. svona smáörður eins og t.d. það að gert er ráð fyrir því að öll þessi lán verði veitt á fyrsta veðrétt. Það er algjör óþarfi og ég hef aldrei skilið af hverju í ósköpunum menn negla sig niður á það. Ég þekki dæmi um að 800 kr. hafi hvílt á íbúð og það kostaði 65 þúsund kr. að aflýsa því til þess að uppfylla svona fáránleg skilyrði.

Herra forseti. Mér finnst þetta vera mjög gott frv. Þetta er mjög góð breyting. Þetta er mikil breyting. Það er verið að hverfa frá sovétskipulagi yfir í eitthvað sem er mannlegt og manneskjulegt þannig að fólk heldur virðingu sinni, eignast sínar eignir, getur selt þær og gert við þær það sem það vill, getur valið sér íbúðir þar sem það vill og þarf ekki að búa í íbúðum sem eru byggðar á fyrir fram ákveðnum stöðum.