Húsnæðismál

Mánudaginn 09. mars 1998, kl. 17:06:46 (4482)

1998-03-09 17:06:46# 122. lþ. 82.16 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 122. lþ.

[17:06]

Rannveig Guðmundsdóttir(andsvar):

Virðulegi forseti. Það ættu sem flestir að leggja hlustir við ræðu hv. þm. Péturs Blöndals. Við Pétur Blöndal erum saman í félmn. og Pétur Blöndal hv. þm. er ekki mjög hrifinn af neinu félagslegu. Hann vill að hver og einn sjái um sig sjálfur og telur að ef allir hafi jafna stöðu og engar sérstakar útbætur þá séu allir jafnir. Annars eru allir jafnfátækir. Og á föstudaginn þegar þetta frv. var tekið til umræðu þá var það svo gott að sólardagur var úti og inni. Ég veit ekki hvernig meðmæli mönnum finnst þetta með svokölluðu félagslegu frv. en þetta er alla vega athyglisvert sjónarmið.

Virðulegi forseti. Vegna þessarar stærstu lánastofnunar sem þingmaðurinn hlakkar svo til að verði aflögð af því að hún minnir hann á sovétskipulagið og af því að svo oft hefur verið talað um útlánatöp hjá henni þá ætla ég aðeins að renna yfir stöðuna í þeim málum.

Virðulegi forseti. Í fyrra var lagt fram svar við fyrirspurn þingmanns um útlánatöp ríkisbanka og opinberra sjóða. Og nú ættu þingmenn að leggja við hlustir. Landsbankinn varð fyrir yfir 7 milljarða kr. útlánatapi. Þrjár næstu útlánastofnanir urðu fyrir 2--3 milljarða kr. útlánatapi, atvinnusjóðir eins og Iðnlánasjóður, Fiskveiðasjóður o.fl. á annan milljarð, Iðnþróunarsjóður 900 milljónir, Hlutafjársjóður 733, Stofnlánadeild landbúnaðarins 722, Ferðamálasjóður 123 milljónir, Byggingarsjóður verkamanna 33 millj., Byggingarsjóður ríkisins 32. Aðeins einn var með lægri upphæð á útlánatöpum og það var Landflutningasjóður.