Húsnæðismál

Mánudaginn 09. mars 1998, kl. 17:49:32 (4490)

1998-03-09 17:49:32# 122. lþ. 82.16 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 122. lþ.

[17:49]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir þau svör sem hann þegar hefur veitt. En ég hef miklar áhyggjur af þeim hópi sem ég nefndi áðan. Þeir aðilar eru nokkur hundruð sem hafa lent í gjaldþrotameðferðum. Og mér er kunnugt um að skuldir við Húsnæðisstofnun fyrnast á fimm árum en það gerist ekki í sambandi við aðra. Þess vegna bið ég hæstv. félmrh. að taka það til umfjöllunar og athugunar hvort ekki sé rétt að samræma lög um gjaldþrot hjá einstaklingum og fyrirtækjum þannig að það sama gangi yfir alla. Ég tel það er ekkert eðlilegt að bjarga fólki út úr því sem það hefur komið sér sjálft í en það hafa verið þær aðstæður í þjóðfélaginu að einstaklingar hafa offjárfest af ýmsum ástæðum og ég bið um að það verði skoðað sérstaklega.

Ég hef komist að niðurstöðu um að 70 þús. kr., sem eru lágmarkslaun, duga ekki til þess að komast í matið en það gera aftur á móti 80 þús. kr. og það er rétt að halda því á lofti að samkvæmt þeim útreikningum sem liggja fyrir á bls. 86, þá er þetta möguleiki. Það kannski þarf ekki að verða mikil viðbót til þess að hægt sé að bjarga sér upp um 10 þús. kr. tekjur á mánuði en sumum tekst það bara ekki. Einstaklingar ná þessu ekki á stundum og ærið oft eru þeir sem eru með þetta lágar tekjur með nokkuð miklar skuldir. Ég tala ekki um í því þjóðfélagi sem við búum við, þar sem bókstaflega er verið að elta einstaklingana með tilboðum um greiðslukjör.