Húsnæðismál

Mánudaginn 09. mars 1998, kl. 17:51:42 (4491)

1998-03-09 17:51:42# 122. lþ. 82.16 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 122. lþ.

[17:51]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Við getum aldrei bjargað öllum. Því miður eru nokkrir, töluverður hópur, of stór hópur sem er sokkinn svo í skuldir að hann getur ekki a.m.k. í náinni framtíð vonast eftir því að festa fé í fasteignum. Hv. þm. spurði um forgang núv. starfsmanna Húsnæðisstofnunar til starfa hjá hinum nýja Íbúðalánasjóði. Ég mun beina því til stjórnar Íbúðalánasjóðsins að endurráða úr hópi starfsmanna það sem Íbúðalánasjóður kann að þurfa af vinnukrafti. Það er margt af afbragðsfólki starfandi hjá Húsnæðisstofnun og það væri mikill fengur fyrir hinn nýja Íbúðalánasjóð að njóta starfskrafta þess áfram.

Sveitarfélögin geta núna neitað að leggja fé til félagslegra íbúða. Það er engin breyting. Það er engin félagsleg íbúð byggð nema samkvæmt beiðni sveitarfélags og að hluta til með fjárframlagi frá sveitarfélaginu þannig að þarna er ekki um neina eðlisbreytingu að ræða.

Varðandi Búsetamálið, þá er það í sérstöku fylgifrv. sem við eigum eftir að ræða á næstunni og þá getum við komið inn á þær hugmyndir hv. þm. Leigumarkaðurinn er mikilvægari í nýju skipulagi en hann er nokkurn tíma núna og þess vegna þurfum við að styrkja hann og það er eitt af því brýnasta í húsnæðismálum. Ég vitna til yfirlýsingar hæstv. forsrh. sem starfandi fjmrh. fyrr í dag. Það er möguleiki og bættur möguleiki að njóta eigin vinnuframlags í hinu nýja kerfi og eignin verður ekki verðfelld með reikningskúnstum. Hún getur fyrnst af sliti og illri umgengni en hún verður ekki verðfelld með reikningskúnstum í nýja kerfinu.