Húsnæðismál

Mánudaginn 09. mars 1998, kl. 18:39:50 (4496)

1998-03-09 18:39:50# 122. lþ. 82.16 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 122. lþ.

[18:39]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er nú aldeilis ekki vöndur fyrir fjmrh. að brúka á félmrh. Það væri þá frekar öfugt. Þetta er trygging félmrh. á því að ekki verði hróflað við vaxtabótakerfinu nema að hans undirlagi og hann sé ábyrgur fyrir því.

Hv. þm. spurði hvað væri félagslegt eftir í frv. Hið félagslega í þessu frv. eða í þessari lagasetningu eru samtímagreiddar vaxtabætur, réttur til viðbótarlána til 40 ára, 40 ára húsbréf og greiðslumat miðað við það. Félagslega kerfið hefur hjálpað ýmsum. Samt er óánægja fyrir hendi og ég vitna bara til samþykktar sambandsstjórnar ASÍ um félagslega húsnæðiskerfið sem ég hef ekki tíma til að lesa hér.

Hv. þm. spurði hvar rökin væru fyrir því að hraða afgreiðslu þessa máls. Rökin fyrir því eru þau að ef gildistaka á að vera um næstu áramót, þá þarf undirbúning að henni. Fyrir verður að liggja lagarammi áður en breytingin á sér stað og okkur veitir ekkert af þeim tíma. Það eru hagsmunir fólksins í landinu og sveitarfélaganna að draga þetta ekki í eitt ár til viðbótar.

Hv. þm. játaði það að hann þekkti ekki málið nógu vel. Ég vil því bjóða honum og þingflokki hans, ef þeir vilja, t.d. að fá til fundar ágæta sérfræðinga mína í þessum málum til þess að fara yfir frv. með þeim í góðu. Það stendur alveg hreint til boða.