Húsnæðismál

Mánudaginn 09. mars 1998, kl. 20:31:55 (4506)

1998-03-09 20:31:55# 122. lþ. 82.16 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 122. lþ.

[20:31]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Virðulegi forseti. Við höfum í tvo heila og langa daga fjallað um frv. til laga um húsnæðismál sem hæstv. félmrh. mælti fyrir í síðustu viku. Það er ekki hægt að segja annað en að hér hafi verið deilt og mörg þung orð hafi fallið um þetta mál. Það þarf kannski ekki að koma mönnum svo á óvart því hæstv. félmrh. leggur fram á Alþingi frv. til laga um húsnæðismál þar sem húsnæðiskerfinu er gjörbylt án þess að eðlilegt samráð hafi verið haft við samtök launþega í landinu. Við höfum vanist þeim vinnubrögðum hæstv. ríkisstjórnar og þannig hafa þau verið allt frá fyrstu dögum hennar.

Vegna orða sem hér hafa fallið í dag um samráð við launþegasamtökin, þá kemur það fram í fundargerðum ASÍ, sem eru opinberar, að ASÍ hafi komið mjög seint að vinnslu frv. þannig að það er ekki alls kostar rétt sem kom fram í máli hæstv. félmrh. að eðlilegt samráð hafi verið haft við þessi stærstu launþegasamtök í landinu.

Virðulegi forseti. Öryggi í húsnæðismálum og lágur húsnæðiskostnaður er grundvöllurinn að velferð launafólks. Allt frá því fyrstu verkamannabústaðirnir risu og fram á þennan dag hefur húsnæðislánakerfið verið að þróast og breytast í takt við breyttar forsendur í þjóðfélaginu. Það er ekki óeðlilegt að breyta því sem færa má til betri vegar og vissulega hafa verið nokkrir hnökrar á núverandi fyrirkomulagi og hafa t.d. samtök launþega bent á ákveðnar leiðir til endurbóta á kerfinu. En ég held að það sé einsdæmi að á málum sé haldið með þeim hætti sem hér hefur verið gert, að hunsa svo gjörsamlega þá sem málið varðar hvað mest, og á ég þá við eins og ég hef sagt áður, herra forseti, launþegasamtökin í landinu, samtök aldraðra, samtök fatlaðra, samtök námsmanna og leigjenda, svo þau helstu sem mestra hagsmuna hafa að gæta fyrir sína umbjóðendur séu upp talin og sem hafa átt þess kost fram að þessu að byggja húsnæði fyrir félagsmenn sína í gegnum félagslega húsnæðislánakerfið. Herra forseti, ég treysti því að hæstv. félmrh. sé ekki langt undan.

(Forseti (GÁS): Forseti gerir það líka.)

(Félmrh.: Hann er hér.) Vegna þeirrar neikvæðu umræðu og umfjöllunar og neikvæðu ummæla sem hafa fallið hér í dag um félagslega húsnæðislánakerfið, m.a. af hv. þm. Pétri H. Blöndal, fæ ég ekki orða bundist og vil endilega koma þeim skilaboðum til hv. þm. að fyrir fólk sem hefur búið í íbúðum sem það hefur eignast í gegnum félagslega íbúðalánakerfið, verkamannabústaðakerfið, hefur það ekki verið nein skömm. Þvert á móti vil ég taka undir orð hæstv. félmrh. þar sem hann segir að þetta hafi verið eins og happdrættisvinningur fyrir láglaunafólk í landinu. Ég er honum hjartanlega sammála. Ég tek undir þau orð heils hugar og vildi óska að þessu happdrætti yrði haldið eitthvað áfram, en nú virðist verða breyting þar á.

Hverjar eru svo meginlínurnar í frv. hæstv. félmrh.? Við getum byrjað á að staldra við þá staðreynd að Húsnæðisstofnun ríkisins verður lögð niður og við tekur Íbúðalánasjóður með sameiningu á Byggingarsjóði verkamanna og Byggingarsjóði ríkisins. Íbúðalánasjóðurinn er sennilega hugsaður sem ný bankastofnun, e.t.v. eitthvað í líkingu við norska Husbanken, eins og nafngiftin ber með sér, en þar með lýkur samlíkingunni að mínu mati, herra forseti. Þessi sjóður á að standa undir sér með eigin tekjum og vöxtum án ríkisframlaga af nokkru tagi. Hér verða markaðslögmálin greinilega látin ráða ferðinni. Og þá spyr ég, herra forseti: Hvar eru hugtök eins og jöfnuður og félagslegt réttlæti þegar þetta frv. er skoðað? Allri félagslegri aðstoð verður nú beint í gegnum vaxtabótakerfið í stað þess að greiða niður vexti til þeirra sem verst eru settir félagslega. Í fskj. III með frv. er að finna yfirlýsingu fjmrh. um samráð við félmrh. um ákvarðanir er snerta vaxtabætur og fjárhæð þeirra. Þar segir m.a. með leyfi forseta:

,,Frumvarp til laga um húsnæðismál gerir ráð fyrir að horfið verði frá félagslegri fjárhagsaðstoð vegna íbúðarhúsnæðis í formi lána með niðurgreiddum vöxtum. Þess í stað verði farvegur fjárhagsaðstoðarinnar húsaleigubætur, sbr. ný lög frá því í desember sl., og vaxtabætur skattkerfisins, sbr. fyrirhugaðar breytingar á ákvæðum tekjuskattslaga.

Um leið og félagsleg fjárhagsaðstoð hins opinbera verður markvissari en áður er mikilvægt að tryggja að fyllsta samræmis verði gætt við allar ákvarðanir sem lúta að vaxtabótum og annarri húsnæðisaðstoð. Hlutaðeigandi ráðuneyti munu því verða að hafa náið samstarf um mögulegar breytingar á aðstoðinni í framtíðinni og fjármálaráðherra fullt samráð við félagsmálaráðherra um meðferð og ákvörðun vaxtabóta.``

Hér er þetta sagt mjög skýrt. Það er verið að hverfa frá félagslegri fjárhagsaðstoð vegna íbúðarhúsnæðis. Vaxtabótakerfið nær auðvitað ekki til allra þeirra hópa fólks sem þurfa á félagslegri aðstoð að halda vegna húsnæðismála. Ef eitthvað er að marka þessa yfirlýsingu fjmrh. um að fyllsta samræmis skuli gætt varðandi ákvarðanir sem lúta að vaxtabótum og annarri húsnæðisaðstoð væri ekki óeðlilegt að spyrja hæstv. félmrh. hvort hann hyggist beita sér fyrir því t.d. að hætt verði að skattleggja húsaleigubætur láglaunafólks. En til hvers að breyta kerfi og gjörbylta því sem flestir hafa verið sammála um að þyrfti aðeins smálagfæringa við?

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að vitna í ályktanir frá ársfundi landssamtaka húsnæðisnefnda frá árinu 1997 þar sem fundurinn ályktar um endurskoðun laga um félagslega íbúðalánakerfið. Þessi fundur var haldinn 31. október sl. og ályktar eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Við endurskoðun laga um félagslegar íbúðir verði haft að leiðarljósi sem meginmarkmið nýrra laga að útvega láglaunafólki gott og öruggt húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Ársfundurinn bendir á að allar sveiflur og kollsteypur í löggjöf um húsnæðismál eru óæskilegar og varhugaverðar og vanda þarf því vel til undirbúnings lagabreytinga og grandskoða afleiðingar þeirra.

Núverandi löggjöf um félagslegt eignaríbúðarhúsnæði hefur reynst allvel í stærstu þéttbýlisstöðum landsins, þó svo að á einstökum stöðum á landsbyggðinni hafi reynst erfitt að selja félagslegt íbúðarhúsnæði. Ársfundurinn vekur athygli á að á milli 85 og 90% af öllum félagslegum eignaríbúðum ganga eðlilega kaupum og sölum og hafa reynst aðgengilegur íbúðarkostur. Af um 10 þús. eignaríbúðum hefur sveitarfélögum aðeins reynst erfitt að ráðstafa 500 íbúðum, en orsakir þess má fyrst og fremst rekja til ófullnægjandi atvinnuframboðs á viðkomandi stöðum. Ársfundur húsnæðisnefnda leggur því ríka áherslu á það að við endurskoðun laga verði unnið að endurbótum á núverandi húsnæðiskerfi og það verði gert aðgengilegra og einfaldara og við þá endurskoðun verði haft náið samráð við landssamtök húsnæðisnefnda.``

Að þessari tilvísun sagðri vil ég spyrja hæstv. félmrh. hvað honum finnist um þessa ályktun landssamtaka húsnæðisnefnda og hvort eðlilegt samráð við þessar nefndir hafi verið viðhaft við gerð frv.

Herra forseti. Ég vil aðeins í nokkrum orðum staldra við helstu efnisatriði frv. Það hefur vissulega verið gert margsinnis í þessum þingsal í umfjöllun um frv. hæstv. félmrh. en það er ekki vanþörf á að endurtaka þau atriði oft svo þau skiljist.

Eins og komið hefur fram verður Húsnæðisstofnun ríkisins lögð niður og við tekur Íbúðalánasjóður með sameiningu Byggingarsjóðs verkamanna og Byggingarsjóðs ríkisins. Athygli vekur að ýmis ákvæði hlutafélagalaga eru tekin upp varðandi starfrækslu sjóðsins. Þessi nýi sjóður ber öll einkenni nýrrar bankastofnunar enda er það tiltekið að hann eigi að standa undir sér með eigin tekjum og vöxtum án ríkisframlaga.

Herra forseti. Það virðist sem þetta frv. sé í einu og öllu sniðið að þörfum sveitarfélaga og nánast allar skyldur af þeim teknar, eins og kaupskyldan, forkaupsréttur, 3,5% óendurkræft framlag af heildarbyggingarkostnaði sem sveitarfélögin hafa hingað til greitt af heildarupphæð. Þá vekur líka athygli að ef sveitarfélag þarf að selja íbúð á lægra verði en innkaupsverði virðist það vera tryggt gegnum varasjóð, en eigandi félagslegrar íbúðar sem selur á almennum markaði ber sjálfur ábyrgð á hugsanlegu tapi. Félagslega eignaríbúðakerfinu verður lokað en við taka beinar lánveitingar til einstaklinga úr hinum nýja Íbúðalánasjóði. Um er að ræða 65--70% húsbréfalán og 20--25% viðbótarlán úr Íbúðalánasjóði sem á að vera með sveigjanlegum vöxtum. Allir útreikningar með frv. sýna þó að það lán verður einnig með markaðsvöxtum, enda á hinn nýi sjóður að standa undir sér með tekjum af eigin fé og vöxtum. Ég spyr því hæstv. félmrh.: Er í raun ekki verið að taka upp húsbréfalán sem eru í engu frábrugðin almenna lánakerfinu?

[20:45]

Ég hef áður komið inn á það og vikið máli mínu að því að nú á að setja alla félagslega aðstoð í gegnum vaxtabótakerfið án þess að málefni þeirra sem þar munu ekki njóta fyrirgreiðslu hafi á nokkurn hátt verið leyst.

Það sem líka vekur athygli, herra forseti, í þessu frv. er að framlag sveitarfélaganna verður sem nemur 5% af viðbótarláninu og þessi 5% fara í varasjóð til að mæta útlánatöpum. Ef sveitarfélag velur hins vegar að greiða ekki þessi 5% og það er svo sem ekkert sem skuldbindur sveitarfélögin til þess að gera það, fá íbúar þessa sveitarfélags engin félagsleg lán.

Það hefur líka vakið athygli að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar sem má segja að séu höfundar að okkar félagslega húsnæðislánakerfi, fara út úr húsnæðisnefndum. Þar verða aðeins pólitískt skipaðir fulltrúar. Húsnæðisnefndirnar hafa fram að þessu séð um greiðslumat fyrir einstaklinga en nú munu bankar sjá um það þannig að mat bankanna ræður því hvort einstaklingar eiga rétt á viðbótarláni. Við þetta bætist svo, herra forseti, að ýmis ný gjaldtaka lítur þarna dagsins ljós, m.a. söluþóknun til fasteignasala og gjaldtaka fyrir þjónustu húsnæðisnefnda og fleira og fleira í þeim dúr.

Ég dreg ekki í efa að einhver bragarbót hljóti að vera að þessu frv. þó að ég komi kannski ekki auga á hana svona í fljótu bragði en ég vil aftur víkja máli mínu að þeim hópum sem ég tel að komi til með að standa þarna utan dyra.

Herra forseti. Ég vil áður en ég held lengra fá að vitna, með leyfi forseta, í skýrslu norrænu ráðherranefndarinnar frá því 1995 um það hver séu markmið félagslega íbúðalánakerfisins og hvernig stjórnvöld geti notað það sem stjórntæki til jöfnuðar og félagslegs réttlætis. Í skýrslunni er sjónum beint að opinberum og félagslegum leiguíbúðum og því hlutverki sem slíkar íbúðir gegna sem stjórntæki í húsnæðismálum gagnvart þeim þjóðfélagshópum sem eiga undir högg að sækja í þjóðfélaginu. Við hvað er átt þegar talað er um hópa sem eiga undir högg að sækja? Hvað húsnæðistengda þætti varðar einkennast slíkir hópar af því að margir í hópnum hafa af efnahagslegum, félagslegum, líkamlegum eða andlegum ástæðum þörf fyrir opinberan stuðning við að koma undir sig fótunum á húsnæðismarkaðinum til þess að viðhalda ásættanlegri húsnæðisstöðu eða betrumbæta húsnæðisstöðu sem telja má alls óviðunandi. Þessir hópar þar sem margir eiga við húsnæðisvandamál að stríða geta átt í þeim tímabundið eða varanlega. Þegar við tölum um hópa sem eiga jafnvel við tímabundið húsnæðisvandamál að stríða má nefna ungt fólk sem er að koma undir sig fótunum í húsnæðismálum, ungt fólk sem er að mennta sig, einstæða foreldra, atvinnulausa til langs tíma svo og fjölskyldur sem eiga í greiðsluerfiðleikum. Kjarni vandamála af þessari gerð er auðvitað slök greiðslugeta, lágar tekjur, tekjumissir, lítið fé, litlir lánamöguleikar og/eða skulda- og greiðsluvandamál.

Aðrir hópar sem ég hef reyndar aðeins vikið að eiga við viðvarandi húsnæðisvandamál að stríða og geta ekki og verða ekki gjaldgengir í þessu nýja húsnæðislánakerfi hæstv. félmrh. ef ég hef lesið frv. rétt. Hér er um að ræða marga lífeyrisþega, fólk sem nýtur eingöngu greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins sér til lífsviðurværis. Þetta eru oft líkamlega eða andlega fatlaðir. Þetta geta verið nýbúar og flóttamenn og húsnæðisvandamál þessara hópa eru varanleg og varanlegri og auk þess fela þau í sér efnahagslega þætti sem erfitt verður að ráða við nema með stórfelldum og öflugum stuðningi frá hinu opinbera.

Virðulegi forseti. Það hefur verið aðalsmerki íslenska velferðarkerfisins fram að þessu að tryggja þeim hópum sem ég hef talið hér upp góð og mannsæmandi búsetuskilyrði. Við höfum fram að þessu verið í hópi þeirra nágrannaþjóða okkar sem hafa markað stefnuna með því að greiða niður lán og vexti eða greiða styrki til þeirra sem standa höllum fæti í samfélaginu. En núna erum við að skera okkur úr hvað þetta varðar.

Herra forseti. Ég tel að þetta frv. veki margar áleitnar spurningar um áform hæstv. félmrh. og vil ég aðeins varpa ljósi á þær helstar sem í huga mér koma. Það er sýnt að með þessu frv. er þrengt verulega að ýmsum félagasamtökum sem hafa byggt húsnæði á félagslegum grundvelli. Má þar nefna samtök á borð við Félagsstofnun stúdenta, Félag framhaldsskólanema, Félag eldri borgara og samtök öryrkja eins og Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands. Þau atriði sem helst munu þrengja hag þessara hópa sem hingað til hafa átt þess kost að leigja á þokkalegum kjörum hjá sínum félagasamtökum, þau atriði sem helst munu vega þungt og gera það erfitt fyrir þessa hópa að leigja mannsæmandi húsnæði eins og þeir hafa átt kost á hingað til, er í fyrsta lagi það sem snýr að því að húsaleigan mun ójákvæmilega hækka nú þegar ekki verður lögð sú kvöð á sveitarfélögin að standa við framlag um 3,5% af heildaríbúðaverði eins og hefur verið við lýði fram til þessa. Auk þess verður lagt á stimpilgjald sem líka mun hækka húsaleigu umræddra hópa þannig að í heildina mun húsaleiga bara af þessum sökum hækka um a.m.k. 5%. Og fyrir fólk sem lifir á tæpum 60 þús. kr. á mánuði og hefur fram til þessa greitt um helming af tekjum sínum í húsnæðiskostnað er þetta þungur baggi að bera.

Hingað til hafa félagasamtök átt kost á því að fá framkvæmdalán frá Húsnæðisstofnun ríkisins til þess að fjármagna framkvæmdir á byggingartíma. Þetta fellur niður núna og ekki verður annað séð en þessum félagasamtökum verði vísað inn í almenna bankakerfið á þeim kjörum sem þar eru í boði.

Vaxtamálin eru algerlega opin bók í þessu frv. Ég spyr hæstv. félmrh.: Hvernig getum við vænst þess að hægt verði að krefja hópa öryrkja sem hafa verið í þessu kerfi um húsaleigu? Hvernig hyggst hæstv. félmrh. ráðleggja félagasamtökum að standa að því? Ég vil spyrja hæstv. félmrh. að því hver hans stefna er í húsnæðismálum þessara hópa. Það urðu þáttaskil þegar félagasamtök fatlaðra gátu byggt á félagslegum grundvelli til þess að bjóða sínum umbjóðendum húsnæði á sama hátt og á svipuðum kjörum og aðrir hafa notið í þjóðfélaginu. Mér sýnist að í þessu frv. sé verið að hverfa frá þessari stefnu. Hverjar verða afleiðingar þess? Ég þori varla, herra forseti, að spá í það. En það vekur óneitanlega athygli að í öllum útreikningum sem fylgja með frv. er hvergi miðað við tekjumörk undir 80 þús. kr. og því finnst mér ástæða til þess að spyrja hæstv. félmrh. hvað hann hyggist gera í málefnum þeirra hópa sem ég hef gert að umtalsefni. Ég ber satt að segja kvíðboga fyrir framtíð þeirra og þeirra húsnæðismálum og ég velti fyrir mér hversu lítið er lagt að sveitarfélögunum að standa við skyldu sína gagnvart þessum hópum. Erum við kannski að komast í þann farveg, hæstv. forseti, að sveitarfélög geti þegar fram líða stundir valið og hafnað íbúum á grundvelli fötlunar eða annarra félagslegra vandamála sem sveitarfélögin gætu litið á sem stóran bagga á fjárhag þeirra? Er það hugsanlegt, herra forseti, að með þessum ráðstöfunum sé verið að koma í veg fyrir jöfnuð þessara hópa sem við höfum þó reynt að standa vörð um fram til þessa?

Þá vaknar næsta spurning sem ég vil leggja fyrir hæstv. félmrh. Gæti þetta frv. orðið til þess að hér skapaðist stórfelld félagsleg samþjöppun hópa sem standa höllum fæti á ákveðin tiltekin svæði í landinu vegna þess að önnur sveitarfélög geta svarið af sér þessa ábyrgð? Eða kannski það sem ég óttast allra mest: Kallar þessi ráðstöfun í húsnæðismálum þessara hópa á nýja uppbyggingu á stofnunum fyrir þá? Það væri vissulega afturhvarf til fortíðar og ég vona að hæstv. félmrh. geti róað mig í þessum efnum og sagt mér hvernig hann ætli að standa vörð um hag þessa fólks. Góð orð og góð loforð eru ekki nóg. Þessir hópar hafa reynslu af því að það dugar þeim skammt. Í þessu frv. þarf að koma fram, hæstv. forseti, hvernig hæstv. félmrh. ætlar sér að leysa framtíðarbúsetumál þeirra sem standa höllum fæti í þjóðfélaginu, þeirra sem eru undir 80 þús. kr. tekjumarkinu en eiga að sjálfsögðu rétt á húsnæði að sömu gæðum og aðrir í samfélaginu.

Ég fer að ljúka máli mínu, hæstv. forseti. Ég vil þó aðeins að lokum benda á að margir gallar eru á frv. Það vantar samræmingu á milli greina sem væri mjög brýnt að laga. Þessir hnökrar sýna að það hefur kannski verið kastað um of til höndum við samningu frv. Ég vil taka undir orð sem hafa fallið í þingsölum í dag og á föstudaginn og hvetja hæstv. félmrh. til að láta vinna frv. betur og hafa við það samráð við öll þau félagasamtök sem málið varðar og hafa brýnna hagsmuna að gæta í húsnæðismálum sinna umbjóðenda.