Húsnæðismál

Mánudaginn 09. mars 1998, kl. 20:59:03 (4507)

1998-03-09 20:59:03# 122. lþ. 82.16 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 122. lþ.

[20:59]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Á umliðnum dögum hef ég verið að velta því eilítið fyrir mér hvað það væri eiginlega í þessari umræðu sem ég þekkti frá því áður. Það var svo margt kunnuglegt í þeim megináherslum sem menn hafa hér réttilega hamrað á. Síðan rann upp fyrir mér ljós í dag.

[21:00]

Það eru rétt tvö ár síðan við stóðum í mjög svipuðum sporum, 23. mars 1996 og ég hygg að það hafi einmitt verið að kvöldlagi sem sá sem þetta talar átti orðastað við hæstv. félmrh. um mál af öðrum toga en þó náskylt. Þá vorum við að ræða hér vinnulöggjöfina. Það er svo skrýtið að aðdragandi þessa máls og þess máls er mjög svipaður, umbúnaður þess er mjög líkur. Hin skefjalausa árás á þau félagslegu réttindi sem verkafólk hefur unnið að og náð fram á löngum tíma er hér barin niður á svipstundu, á nokkrum vikum eða mánuðum, og ekki var haft svo mikið við að eiga orðastað við verkalýðshreyfinguna um framgang þeirra mála, hvað þá stjórnarandstöðuna. Þannig að í fyrsta lagi er ekkert samráð um vinnulöggjöf, ekkert samráð um það að gera breytingar og ekki breytingar heldur nánast að leggja af félagslega íbúðakerfið. Ekkert samráð við þá aðila sem byggðu það upp og hafa verið að endurbæta það stig af stigi í heil 70 ár. Nei, í þessu máli eins og hinu er þessu frv. um afnám félagslegra íbúðarbygginga á Íslandi, um afnám félagslega kerfisins í húsnæðismálum, kýlt inn í þingið með látum, eins og sprengju af himnum ofan, og nákvæmlega var eins háttað um ,,framtak`` hæstv. félmrh. í vinnulöggjafarmálum. Þá var kýlt inn í þingið í marsmánuði 1996 frv. sem smíðað var af kontóristum hér og þar í kerfinu en algerlega án atbeina verkalýðshreyfingarinnar sem þó þá, eins og raunar nú, hafði lýst sig vera til viðræðu og viðtals um ákveðnar endurbætur og lagfæringar á löggjöfinni um réttindi og skyldur almenns verkafólks og launafólks í landinu. Og alveg eins og nú hefur verkalýðshreyfingin lýst vilja sínum til að eiga orðastað við yfirvöld um ákveðnar endurbætur, lagfæringar, ákveðinn sveigjanleika í ljósi breyttra tíma á þeirri löggjöf sem gilt hefur um félagslegar íbúðarbyggingar á Íslandi. En núna eins og þá er skellt við skollaeyrum. Það er ekki hlustað heldur ætt áfram eins og fíllinn og undir sig settur hausinn og menn ætla að klára málið í krafti stórs þingmeirihluta. Og nú, alveg eins og í mars 1996, stendur hæstv. félmrh. meira og minna einn vitandi auðvitað um að stór og þykkur þingmeirihluti mun sennilega, þegar kemur að því að afgreiða þetta mál, lúta höfði og ganga frá málinu, afgreiða það með þeim hætti sem hæstv. félmrh. eða íhaldið vill hafa það. Og nú, alveg eins og þá, munu þeir framsóknarmenn, sem margir hverjir hafa trúað fram undir það síðasta að mundu standa í ístaðinu, standa gegn þessari hægri árás á velferðina í landinu koma til bjargar því litla sem eftir er af Framsfl. þegar hinar félagslegu áherslur eru annars vegar.

En ég rifja það upp, virðulegi forseti, að menn á borð við hv. þm. Guðna Ágústsson, hv. þm. Stefán Guðmundsson og ýmsa aðra þingmenn, sem á árum áður og í gegnum árin hafa lýst yfir og sýnt fram á að þeir ganga fyrir félagslegum áherslum og vilja þau atriði ofarlega í málflutningi og verklagi Framsfl., þeir guggnuðu fyrir tveimur árum, eins og ég hafði spáð fyrir um og ég hlýt að taka mið af því nú og segja sem svo að það stefni kannski margt í að þeir geri það aftur núna. (RG: Framsfl. hefur ekki sést hér í dag.) Framsfl. hefur ekki sést hér og ég hef ákveðinn skilning á því. Þeim finnst ekkert skemmtilegt hlutskipti að þurfa að elta hæstv. félmrh. í þessum dansi sínum við íhaldið. (Gripið fram í.) Ég trúði því satt að segja, virðulegi forseti, að hæstv. félmrh. hefði ætlað sér að láta staðar numið í dekri sínu við íhaldið, í dekri sínu við hæstv. fjmrh. Því það þekki ég af eigin reynslu að hæstv. fjmrh. hefur dreymt það um langt árabil að gera breytingar á vinnulöggjöfinni og gera breytingar á hinu félagslega íbúðakerfi. Og nú dregur hæstv. félmrh. vagninn fyrir þennan hæstv. fjmrh. sem á árum áður ræddi mikið um ,,báknið burt`` og vildi segja allri velferð, allri félagslegri samhjálp stríð á hendur. En hæstv. félmrh. lét ekki staðar numið, heldur er mættur hér aftur til leiks að kvöldi 9. dags marsmánaðar, og enn á ný er verkefni hans og viðfangsefni sérstök og einstök árás á hið íslenska velferðarkerfi. Nú er það félagslega íbúðakerfið sem á að verða fyrir hans þunga hrammi og verkalýðshreyfingin, samtök verkafólks, má éta það sem úti frýs. Þetta skal áfam, þetta skal í gegn. Það er líka tímanna tákn í þessu, virðulegi forseti. Ég er hræddur um að einhver hefði haldið viðkomandi albrjálaðan fyrir eins og fimm eða sex árum hefði hann haldið því fram að á árinu 1998 yrðu þeir eins og eitt, árið 1998 kæmist ekki hnífurinn á milli Páls Péturssonar og Péturs H. Blöndals. Sá maður hefði verið talinn galinn á kjörtímabilinu 1991--1995 þegar hæstv. félmrh., þáv. hv. þm., Páll Pétursson, lét hér gamminn geysa um vinstri áherslur, félagslega velferð og annað í þeim dúrnum. (RG: Hann kallar það nú skín sól hjá Pétri Blöndal.) Nú eru þeir orðnir ektavinir og geta varla hvor af öðrum séð og hæstv. ráðherra saknar vafalaust vinar í stað nú þegar hv. þm. Pétur Blöndal er hér ekki hans viðhlæjandi. En mikil skelfingar umpólun hefur orðið á einum manni, á einum stjórnmálaflokki eins og Framsfl. Tætlurnar af þeim félagshyggjuflokki, sem hann kallaði sig einu sinni, eru orðnar ósköp litlar og slitnar og sundurlausar. Það mun auðvitað koma á daginn að hann mun hljóta makleg málagjöld í þeim kosningum sem sífellt færast nær og nær, sem betur fer, og fá litlar þakkir frá kjósendum þessa lands, frá fyrri kjósendum Framsfl. sem trúðu fagurgala hans í síðustu kosningum um ,,fólk í fyrirrúmi`` og um ,,stöðvun skuldasöfnunar heimilanna``. Hann mun fá makleg málagjöld. Þeir verða æ færri dagarnir sem eftir eru fram að kosningum. Guð láti gott á vita í þeim efnum. En hér erum við og getum ekki annað, og þurfum að bregðast við þessu nýjasta áreiti, þessari nýju árás Framsfl. sem nú dregur vagn íhaldsins í árás á félagslega íbúðakerfið.

Ég þekki það nokkuð vel, virðulegi forseti, af fyrri störfum mínum sem bæjarstjóri í Hafnarfirði þar sem mikil áhersla var einmitt lögð á það af jafnaðarmönnum þar í bæ að byggja upp hið félagslega íbúðakerfi og gera það að raunverulegum valkosti fyrir fjöldamargar fjölskyldur almenns launafólks, og það var sko aldeilis engin vöntun á því að fólk sækti í þær íbúðir og þau mál gengu býsna vel fyrir sig og hafa gert, enda voru engir framsóknarmenn að þvælast þar fyrir og verða vonandi aldrei. En það að menn komi í þennan ræðustól, ektavinur hæstv. ráðherra, Pétur H. Blöndal, og sumpart ráðherra sjálfur, og tali um þetta félagslega íbúðakerfi sem einhvers konar bagga, sem einhvers konar stærsta vandamál þjóðarinnar, á annars vegar þeim eigendum og þeim ábúendum sem í þessum íbúðum eru og hins vegar á ríkissjóði, á kerfinu og þjóðinni allri, það eru slík öfugmæli að engu tali tekur. Á öllu öðru átti ég von en slíkum ummælum. Og þegar ektavinur hæstv. ráðherra, Pétur H. Blöndal, talar um flottræfilshátt í félagslega íbúðakerfinu gagnvart þeim þúsundum og aftur þúsundum fjölskyldna sem hafa barist í bökkum og eru að reyna að hafa í sig og á og hafa kannski haft í sig og á vegna þess að félagslega íbúðakerfið hefur þó, þrátt fyrir allt, tryggt þeim hófleg afgjöld fyrir afnot af viðkomandi íbúð eða eignarhaldi á henni, að menn skuli koma hér eftir þessa áratugi, ektavinur hæstv. ráðherra í pólitíkinni og samherji og helsti stuðningsmaður, og tala um flottræfilshátt. Ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra beint út hvort hann taki undir þessa ástandslýsingu hv. þm. á hinu félagslega íbúðakerfi í gegnum áratugina. Hæstv. ráðherra hristir höfuðið og þar kom að því að þeir urðu ósammála um eitthvað, hv. þm. Pétur H. Blöndal og hæstv. ráðherra Páll Pétursson. Þar kom að því.

Ég sagði áðan að ég þekkti þetta býsna vel af eigin reynslu og auðvitað skal ég viðurkenna eins og hér hefur margsinnis verið gert, eins og verkalýðshreyfingin hefur gert, eins og stjórnarandstaðan hefur gert að þetta kerfi er ekki fullkomið frekar en nokkurt annað. Á því var full þörf og er full þörf að gera tilteknar breytingar. Í því kerfi sem við höfum búið við og þeirri löggjöf sem nú er í gildi eru ákveðnar holur. Fólk hefur lent milli skips og bryggju. Menn hafa réttilega bent á að tekjuviðmiðanir eru með þeim hætti að allt of margir lenda neðan þeirra og er ekki gert kleift að eiga þess kost að komast inn í hið félagslega eignaríbúðakerfi. Þá hef ég sérstaklega haft áhyggjur af því til nokkurra ára og við, ég og fleiri félagar mínir í hreyfingu jafnaðarmanna, höfum verið að skoða með hvaða hætti megi til að mynda mæta þörfum þess fólks sem er með ekki svo lágar tekjur, jafnvel miðlungstekjur og rúmlega það, en er af ýmsum orsökum ákaflega skuldsett, þannig að þótt brúttótekjur séu tiltölulega háar og fari talsvert upp fyrir þau mörk sem félagslega íbúðakerfið hefur miðað við, þá eru nettótekjur mjög lágar vegna skuldsetningar, m.a. vegna þess að fólk var í almenna húsnæðislánakerfinu, réð ekki við greiðslubyrði þar og fjármálin fóru úr böndum. Þetta fólk hefur reynt að bæta á sig vinnu og aftur vinnu, tekjur rjúka upp og fólkið lendir utan kerfa. Á þessu fólki er ekki tekið hér. Í þessu frv. er ekkert reynt að koma til móts við þennan stóra hóp. Ég er ekki að segja að við sem á undan höfum farið höfum náð að leysa það mál. Ég skal vera fyllilega sanngjarn í þeim efnum, en þetta er til að mynda viðfangsefni sem ég og mínir félagar höfum sannarlega verið tilbúnir til að koma að í samstarfi við hæstv. félmrh. og félmrn. og finna á því einhverjar þær lausnir sem viðunandi væru.

Það eru fleiri atriði og vissulega höfum við rætt það hér í þessum sama sal, og hæstv. ráðherra út af fyrir sig haldið þeirri umræðu hvað hæst á lofti, að það þyrfti með einhverjum hætti að leysa vanda smærri sveitarfélaga sem hafa offjárfest í félagslegum íbúðum. Og þegar ég segi offjárfest er ég einfaldlega að segja að þau hafa mörg hver ráðist í íbúðarbyggingar í hinu félagslega kerfi og tekið lán í þessu félagslega kerfi án þess að eftirspurnin væri til staðar. Og þegar það hefur komið í ljós hafa þessi sveitarfélög auðvitað staðið uppi með þessa skuldabyrði ein og sjálf. Hæstv. ráðherra hefur margsinnis sagt að á þessum vanda yrði að taka og það hefur svo sem enginn lagst gegn því að menn leituðu lausna á honum. En að mönnum kæmi til hugar að lausnin á því væri fólgin í því að rústa félagslega íbúðakerfið, á því átti sennilega enginn von. Ekki ég a.m.k. Og hvernig ætla menn svo að leysa þennan sérstaka þátt? Það er býsna kúnstug aðferð sem farin er í því, og þótt ég hafi reynt að leggja eyrun við þessa umræðu þá hef ég svo sem ekki heyrt marga ræða um það og er sérstaklega ástæða til þess af þeim sökum að eiga hér nokkur orð við hæstv. ráðherra um það atriði.

[21:15]

Ég fæ ekki betur séð en að þessi svokallaði 5% sjóður, sem sveitarfélögin eiga að greiða í, og nota bene þau sveitarfélög sem ætla að hafa viðskipti með íbúðir af þessum toga eigi annars vegar að greiða í þennan 5% sjóð og hann eigi að mæta útlánatöpum, en hins vegar eigi hann að standa undir því að sveitarfélög geti sett þessar íbúðir á markað og þá er ég að tala um fámennari sveitarfélög úti á landi, við skulum bara segja það eins og það er. Hér hafa verið nefnd sveitarfélög í umræðu fyrr og síðar á borð við Bolungarvík og Suðureyri við Súgandafjörð. Og þessi 5% sjóður á að standa undir þeim mismun sem er á uppreiknuðum veðlánum og væntanlegu markaðsverði, sem hefur auðvitað verið vandi málsins alla tíð.

Hvað þýðir þetta á mæltu máli? Þetta þýðir að Reykjavíkurborg, Hafnarfjarðarbær, Kópavogsbær, þessi sveitarfélög sem hafa auðvitað verið langstærst á vettvangi hinna félagslegu íbúða og verða það sannarlega áfram að óbreyttu skulum við segja, munu greiða með þessum millifærslusjóði mismuninn á markaðsverði íbúðar á Suðureyri og uppreiknuðum lánum á viðkomandi íbúð. Það eru Reykvíkingar, Hafnfirðingar og Kópavogsbúar sem eiga að greiða þennan mismun, sveitarfélögin sjálf. Þetta er millifærslusjóður sveitarfélaga. Það er þess vegna ekki alveg rétt sem hér hefur verið sagt a.m.k. ekki að fullu og öllu, að þetta frv. sé eitthvað sérstaklega lagað að hagsmunum sveitarfélaga. Jú, vissulega sumra, um það er engum blöðum að fletta. Það er verið að skera sum sveitarfélög niður úr snörunni og leysa erfiðleika þeirra og vandamál. En á kostnað hverra? Á kostnað annarra sveitarfélaga sem hafa reynt að halda úti mjög öflugri félagslegri þjónustu og hafa líka orðið þess vör að þörf er fyrir þá öflugu félagslegu þjónustu.

Með öðrum orðum er hér um að ræða veltuskatt, 5% veltuskatt. Eftir því sem umsvifin verða meiri í félagslega kerfinu því meira þurfa sveitarfélögin að borga, svo einfalt er það. Í hvað eiga þessir peningar að fara? Til að mæta útlánatöpum. Látum það vera. En hins vegar og ekki síður, sem verður umtalsverð fjárupphæð, á að renna frá hinun félagslega sinnuðu sveitarfélögum sem leggja áherslu á að mæta þessum þörfum til hinna sem einhvern tíma í fyrndinni, sökum misheppnaðrar byggðastefnu, fóru of hratt.

Virðulegi forseti. Það er ákaflega dapurleg niðurstaða ef menn ætla sér að leysa mistök og mæta uppgjöf í byggðastefnu, og ég segi uppgjöf því þessi ríkisstjórn íhalds og Framsóknar hefur gjörsamlega gefist upp á því verkefni sínu að reyna að stöðva fólksflóttann af landsbyggðinni, það er ekki reynt lengur. En að kenna félagslega íbúðakerfinu um þetta er algjör umpólun, eins og allt þetta mál. Það er algjör umpólun sem átt hefur sér stað í pólitísku sinni hæstv. félmrh. og ekki nærri neinu lagi.

Þessu er nauðsynlegt að halda til haga og ég er ekki viss um það að sveitarstjórnarmenn hér og þar á landinu hafi áttað sig á þessum veruleika. Margir hafa kannski í fljótu bragði fagnað því að þetta 3,5% óafturkræfa framlag og ýmsar aðrar skuldbindingar sem sveitarfélögin hafa þurft að undirgangast séu af teknar, en hafa ekki áttað sig á að hér er nýr póstur sem mun vega mjög þungt hjá þeim sveitarfélögum sem eru öflug og virk á vettvangi hins félagslega íbúðarhúsnæðis. Ég nefni nokkur af því að ég þekki til þeirra, þ.e. t.d. Reykjavík, Hafnarfjörður, Kópavogur, svo ég tíundi nokkur þeirra en raunar mætti nefna fleiri til sögunnar.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði mér ekki og ætla mér ekki enn að fara í neinar efnislegar umræður um málið. Ég vil segja bara eitt að lokum því að málið er auðvitað fyrst og síðast pólitískt á þessum vettvangi. Það eru margir þættir kannski sem líta býsna vel út í fyrstunni. Er ekki auðvelt að segja við fólk: Nú getið þið bara valið, nú getið þið bara fengið lánsloforð og gengið út á markaðinn og valið það sem ykkur sýnist? Mikið lifandis skelfing hljómar þetta allt alveg ágætlega. En það þykir mér mikill pólitískur kjarkur hjá hæstv. félmrh. ef hann trúir því eitt aukatekið andartak að þessi bók hans komi í staðinn fyrir 70 ára sögu félagslegs íbúðarhúsnæðis á Íslandi og komi í staðinn fyrir þá löggjöf sem menn hafa verið að endurbæta og lagfæra og færa upp til nútímans, frá einum tíma til annars, í einu vetfangi. Þá er trú hans mikil og hann á eftir að verða fyrir miklum vonbrigðum.

Eitt atriði er það að lyktum sem ég vil nefna. Hér er mikið talað um að núverandi kerfi sé einhvers konar sovétskipulag. Auðvitað hefur það um margt kannski verið of niðurnjörvað og við höfum kannski verið of sein að opna ákveðnar gáttir og lagfæra ýmsa galla sem upp hafa komið frá einum tíma til annars. En ég spyr, því að eitt lykilatriðið að undanskildu þessu frelsi og þessum sveigjanleika er einmitt það að leiguíbúðir verði mjög veigaþungt atriði og veigaþungur valkostur fyrir þá sem ekki eru tækir til þess að fá lán í hinum svokallaða Íbúðalánasjóði. Og þá vil ég staldra aðeins við 42. gr. í þessu sambandi þar sem fjallað er um það hvernig eigi að ákvarða leigugjald, mánaðarlegt leigugjald af íbúðum sem njóta láns til leiguíbúða úr Íbúðalánasjóði. Þar segir nákvæmlega upp á punkt og prik hvernig sveitarfélögin, því að þau verða auðvitað langstærstu lántakendurnir, eiga að reikna þetta út og þau eigi enga ákvörðun að taka um það. Nei, það er þessi maður hér, það er maðurinn sem situr undir glugganum, hæstv. félmrh., sem á samkvæmt nákvæmri forskrift að ákveða það upp á punkt og prik á hverri einustu íbúð hvað hver einasti leigutaki eigi að greiða.

Er þetta sveigjanleiki? Hæstv. ráðherra hristir höfuðið. Ég bið hann að lesa 42. gr. og athugasemdir um 42. gr. þar sem rakið er lið fyrir lið hvaða viðmiðun eigi að taka. Og það er meira að segja skýrt af hverju þetta sé svona niðurnjörvað. Jú, það er vegna þessa, ég les með leyfi forseta:

,,Þar sem hér er um að ræða lánveitingar á sérstökum kjörum, sem ætlaðar eru til byggingar leiguíbúða fyrir fólk sem býr við erfiðar aðstæður, er nauðsynlegt að unnt sé að ákveða leigufjárhæðina með þessum hætti.``

Það stendur hér. Það er hæstv. ráðherra sem ætlar að ákveða leigukjörin á markaðnum með reglugerð. Er þetta sveigjanleiki? Veit ekki hæstv. ráðherra hvernig þessi kaup hafa gerst á eyrinni, hvernig sveitarfélögin hafa orðið og gert það í fjölmörgum tilfellum að hafa tiltekinn sveiganleika í þessum efnum, því að sumt fólk hefur bara einfaldlega ekki átt fyrir leigunni? Maður hefur þurft að gera einstaklingssamninga af ýmsum toga og þurft að fara langt undir raunverulegt verðmæti, eða langt undir raunverulega reiknað afgjald sem tæki mið af áhvílandi lánum á íbúðinni. Á bara ekkert að hugsa um það hér? Sveitarfélögin eiga engu um þetta að ráða. Það er hæstv. félmrh. og hans menn uppi í félmrn. sem ætla að ákveða hvernig leigukjörum verður háttað uppi í Breiðholti, Grafarvogi eða á holtinu í Hafnarfirði. Það er hann sem ætlar að reikna það út. Er þetta sveigjanleikinn sem hæstv. ráðherra er að bjóða upp á?

Þetta er aðeins eitt atriði sem ég tek hér út sem sýnir glögglega að menn hafa ekki, þrátt fyrir hundrað blaðsíður, hugsað þetta mál til enda. Það er enn möguleiki að hugsa þetta mál til enda. Og það gerum við auðvitað með því að ýta þessu máli inn í haustið. Við skulum nota sumarið. Ég veit að stjórnarandstaðan og þeir sem þekkja þetta mál af eigin reynslu og bjuggu þetta núverandi kerfi til eru tilbúnir að fara í þá vinnu með hæstv. félmrh. að gera raunverulega lagfæringu á kerfinu. En í guðanna bænum, það er enn þá möguleiki að snúa við blaði og hætta við það feigðarflan að rústa 70 ára kerfi sem hefur verið byggt fyrir alþýðu manna á Íslandi. Það er alveg fullkomlega fráleitt. En það er enn möguleiki, virðulegi forseti, að menn sjái að sér og við bíðum og vonum. Ég er viðbúinn hinu versta en vona hið besta.