Húsnæðismál

Þriðjudaginn 10. mars 1998, kl. 14:31:36 (4513)

1998-03-10 14:31:36# 122. lþ. 83.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 122. lþ.

[14:31]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Þetta er þriðji dagurinn sem við ræðum það frv. til húsnæðismála sem hér er nú á dagskrá. Allmargar ræður hafa verið fluttar en ýmsu er líka ósvarað þrátt fyrir það. Mig langar að nota þann tíma sem ég hef til að ítreka nokkur atriði og leita eftir frekari svörum frá hæstv. félmrh. áður en vinnan hefst við frv. í hv. félmn. nema hæstv. félmrh. verði við tilmælum síðasta ræðumanns og dragi þetta frv. til baka og leggi í það meiri vinnu í sumar í samráði við þau samtök sem koma að þessum málum.

Í ræðu sinni í gær gaf hæstv. félmrh. mér það ráð að ég skyldi setjast við símann og hringja í ýmsa þá sem búa í félagslegu húsnæði til þess að kanna hvort þar væru nokkur vandræði á ferð. Ég hef ekki haft tíma til þess að setjast við símann enda þykist ég vita að það séu harla lítil vandræði. Þau eru auðvitað á einstaka heimilum eins og hér hefur verið rakið og enginn dregur í efa. Við vitum að til eru fjölskyldur sem lent hafa í greiðsluþroti. Ef hæstv. ráðherra er að vísa til þeirra talna sem birtast í greinargerðinni um þær íbúðir sem koma til innlausnar þá þekki ég það vel af reynslu minni frá því ég var í stjórn verkamannabústaðanna í Reykjavík að á hverju ári komu ótrúlega margar íbúðir inn í kerfið til innlausnar. En það var fyrst og fremst vegna þess að fólk var að stækka við sig eða flytja á milli kerfa því að það var lenska í þessu kerfi sem ég vona að sé að einhverju leyti aflögð, að fólki var hreinlega úthlutað of litlum íbúðum vegna þess að framboðið var þannig að mest var af tveggja og þriggja herbergja íbúðum. En þarna var mikið af ungu fólki að sækja um og fjölskyldurnar stækkuðu. Ég sé reyndar á þessum tölum að þær hafa farið stöðugt vaxandi og það er auðvitað fróðlegt að spá í það hvort slíkar breytingar hafi orðið að þeir sem fengu úthlutað í félagslega kerfinu á undanförnum árum hafi einfaldlega séð sér fært að leita út á almenna húsnæðismarkaðinn eða hvort þarna eru fyrst og fremst flutningar innan kerfisins á ferð eins og var þegar ég þekkti þarna til. Ég geri lítið úr því að þarna séu mikil vandræði að undanteknu því að auðvitað hefur ákveðinn fjöldi fjölskyldna lent í vandræðum og ákveðinn fjöldi hefur lent í gjaldþrotum og við vitum að úti á landi í einstaka sveitarfélögum standa íbúðir auðar. Þetta eru allt saman kunnuglegar staðreyndir en þær duga að mínum dómi alls ekki til þess breyta eins miklu og hér er lagt til.

Það kom fram í máli hæstv. ráðherra vegna þeirrar umræðu sem hér hefur orðið um leiguíbúðir, að m.a. væru uppi áform hjá Reykjavíkurborg að byggja 100 leiguíbúðir. Ég held að ég hafi tekið þar rétt eftir að hæstv. ráðherra hafi sagt byggja ... (Félmrh.: Eða kaupa.) Byggja eða kaupa. Það breytir málinu nokkuð því að ég vil benda á að ef menn raunverulega ætla að efla leigumarkaðinn á Íslandi og þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu þar sem þörfin er mest, þá verða menn að varast vítin og fara þá ekki aftur þá leið sem mönnum finnst greinilega ekki hafa gefist vel, þ.e. að byggja mikið af félagslegu húsnæði í blokkum eða minni húsum og hafi þá í huga að dreifa þeim íbúðum. Ég geri alls ekki lítið úr því og vona svo sannarlega að það sé rétt að til standi að kaupa leiguhúsnæði því að það er alveg greinilegt að mikil þörf er á því.

Í fyrri ræðu minni velti ég mikið fyrir mér áhrifunum á markaðinn. Hæstv. ráðherra sagði að menn greindi á um eða gætu ekki spáð nákvæmlega fyrir um hver áhrifin yrðu á markaðinn, hann mundi leita jafnvægis. Áreiðanlega er það rétt að fyrr eða síðar leitar markaðurinn jafnvægis. En hvað gerist á þeirri leið? Það er hin stóra spurning. Við vitum að sveiflur í verðlagi geta komið, sérstaklega ef það verður hækkun á fasteignaverði, ákaflega illa við þá sem eru að kaupa á þeim tíma. Hver verða áhrifin á leigumarkaðinn? Það skiptir gríðarlegu máli fyrir kjör fólks hvort leiga hækkar eða lækkar. Og hver verða áhrifin í félagslega kerfinu? Þessu er erfitt að svara en menn verða að gera sér eins vel grein fyrir þessu og mögulegt er áður en lagt er út í jafnmiklar grundvallarbreytingar og hér er verið að leggja til.

Þá hefur einnig verið margminnst á kostnaðinn og ég ítreka að mér finnst býsna erfitt að átta mig á því hver kostnaðurinn verður. Hæstv. ráðherra heldur því fram sem einnig kemur fram í umsögn fjmrn. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Samantekið má ætla að kostnaður ríkissjóðs, sem tengist breytingum á húsnæðislánakerfinu á árinu 1999, verði 365 millj. kr. [þ.e. á næsta ári.] Árið 2000 má ætla að kostnaðurinn nemi 815 millj. kr. og um 860 millj. kr. árið 2001.``

Hver er skýringin á þessari miklu hækkun milli ára, hæstv. ráðherra? Það hefur komið fram áður að reiknað er með því að vaxtabæturnar hækki um 120 millj. frá ári til árs vegna nýrra hópa sem bætast inn. En hvað skýrir þessa miklu hækkun? Varla er þarna um aukningu á niðurgreiðslu á vöxtum að ræða. Ég viðurkenni hreinlega að ég átta mig ekki á þessu því að ég hefði haldið að kostnaður ríkisins mundi minnka töluvert við þessa breytingu.

Þá vil ég taka undir þau orð sem fram komu í gærkvöldi hjá hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni um varasjóðinn. Það er alveg ljóst að íbúarnir á höfuðborgarsvæðinu munu borga útlánatöp og þann halla sem kann að verða á kerfinu. Það er alveg ljóst að hvaða leið sem hefði verið farin þá verður einhver að borga. Staða Byggingarsjóðs verkamanna er slík að þar verður að grípa inn í og það réttlátasta hefði verið að okkar sameiginlegu sjóðir greiddu þann halla. En þá er spurningin: Er endilega munur á því hvort peningarnir koma beint úr ríkissjóði eða frá sveitarfélögunum? Það eru auðvitað íbúarnir á höfuðborgarsvæðinu sem greiða þarna langsamlega stærsta hlutann eins og málið lítur út í frv., það eru þeir sem munu borga.

Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra út í ákvæði III til bráðabirgða sem mikið hefur verið rætt. Á bls. 16 í frv. segir, með leyfi forseta:

,,Á meðan innlausnarskylda hvílir á sveitarfélögum samkvæmt lögum nr. 97/1993 er þeim heimilt eftir tillögu húsnæðisnefnda sveitarfélaga að ákveða að tiltekinn hluti árlegra viðbótarlána skuli fara til að mæta endursölu innleystra íbúða ...``

Þetta er mjög opið ákvæði. Er meiningin e.t.v. sú að settar verði reglur, t.d. um að nota megi þriðjung eða helming? Hver er hugsunin nákvæmlega í þessu?

Þá finnst mér ég heldur ekki hafa fengið svar við því hvernig húsnæðisnefndirnar eiga að standa að því að úthluta og í raun og veru að fá umsóknir um viðbótarlán. Eins og þetta er framkvæmt núna þá birta húsnæðisnefndirnar auglýsingar. Nú er komið að úthlutun íbúða og fólk sækir um. Er hugsunin sú að slíkt kerfi verði áfram eða á þetta að verða eins og í húsbréfakerfinu, þ.e. að umsóknareyðublöð liggi frammi og fólk einfaldlega komi og sæki um og svo safni húsnæðisnefndirnar saman einhverjum bunka og fari yfir þetta í sameiningu. Ég vildi gjarnan fá svar við þessu því þetta er algerlega óljóst vegna þess að það hafa myndast fastar reglur um meðferð þessara mála á undanförnum áratugum.

Þá vil ég koma aðeins að mjög alvarlegu máli í þessu öllu saman sem það er það hvað gerist þegar fram kemur frv. af þessu tagi. Núna eru fimm og hálf vika eftir af þingtímanum miðað við þá áætlun sem nú er miðað við. Í þessu frv. er því lýst yfir að heil stofnun verði lögð niður, Húsnæðisstofnun ríkisins. Að vísu tekur önnur stofnun við. Ég fór að velta því fyrir mér í gærkvöldi hvaða áhrif þetta hafi á Húsnæðisstofnun ríkisins og starfsemi hennar það sem eftir lifir ársins. Ef við reiknum með því að þessi lög nái fram að ganga og gildistakan verði um næstu áramót, hvernig mun andrúmsloftið þá verða í þessari stofnun? Við hvaða öryggi eða öryggisleysi býr starfsfólkið og hvernig verður stofnuninni kleift að sinna sínu hlutverki til áramóta? Hversu margir hugsa sér að vinna áfram hjá stofnuninni? Er kannski þegar tekið að gæta atgervisflótta eins og það er kallað? Er fólk farið að leita út úr stofnuninni eftir öðrum störfum? Það hefur alltaf gríðarleg áhrif þegar yfirlýsingar af þessu tagi eru gefnar og ég vil beina eftirfarandi spurningum til hæstv. félmrh.: Er þessa þegar tekið að gæta? Hefur hann einhverjar upplýsingar um það? Hefur eitthvað verið kannað hversu margir starfsmenn Húsnæðisstofnunar hyggjast vinna þar áfram eða hafa borist einhverjar fregnir af því hvort menn eru þegar jafnvel teknir að leita fyrir sér annars staðar? Mér finnst að við þurfum að hafa þetta í huga. Þetta er mjög alvarleg hlið á þessu máli. Þarna er um starfsöryggi og starfsumhverfi tuga starfsmanna að ræða. Þetta er mjög alvarleg hlið á þessu máli.

Að lokum, hæstv. forseti, get ég ekki sagt annað en að ég á afar bágt með að skilja hvernig takast eigi að ljúka þessu stóra máli og því frv. sem hér er til umræðu á eftir og er þessu frv. tengt, hvernig það á að takast að ljúka þessu á þeim örfáu starfsdögum sem eftir eru. Þó að vikurnar séu fimm og hálf þá fellur þar töluvert úr. Þetta mál þarf að fá alvarlega umfjöllun og þeir sem að því koma þurfa að fá tíma til að veita sínar umsagnir og verkalýðshreyfingin á væntanlega eftir að láta í sér heyra. Við heyrðum áðan í hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Ef ég man rétt er miðstjórnarfundur hjá Alþýðusambandinu á morgun þar sem þetta verður væntanlega rætt. Það eru ýmsir fleiri sem munu koma að málinu og veita umsagnir eins og Samband íslenskra sveitarfélaga og húsnæðisnefndirnar víða á landinu

[14:45]

Lokaspurning mín til hæstv. félmrh. er sú hvaða nauðsyn beri til að ljúka málinu á þessu vori. Það hlýtur öllum að vera ljóst og er ljóst af þeirri umræðu sem hefur staðið í þrjá daga að hér er um mikið ágreiningsmál að ræða. Ég beini þeim eindregnu tilmælum til hæstv. félmrh. að íhuga alvarlega að skoða þetta mál betur í sumar og leita leiða til samkomulags bæði við stjórnarandstöðuna og aðra þá aðila sem að málinu koma þannig að það fái vandaða umfjöllun. Mér er alveg ljóst að bara sú umræða og sú tillaga sem hér liggur fyrir hefur þegar haft sín áhrif, m.a. á Húsnæðisstofnun ríkisins. Við erum því að fjalla um háalvarleg mál. Mín skoðun er sú að í frv. sé mjög margt sem þurfi að skoða vandlega. Til dæmis þarf að fara rækilega ofan í ýmsar tölur í sambandi við greiðslumatið og þá útreikninga sem hér eru á greiðslubyrði, og afla þarf ýmissa upplýsinga frá sveitarfélögunum varðandi aðstoð og áform þeirra. Ég get þess vegna ekki leynt því að ég tel afar vafasamt að það takist að afgreiða málið á þessum tíma svo vel sé og endurtek að ég skora á hæstv. félmrh. að skoða það vel að leggja þetta mál til hliðar.