Húsnæðismál

Þriðjudaginn 10. mars 1998, kl. 14:48:18 (4514)

1998-03-10 14:48:18# 122. lþ. 83.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 122. lþ.

[14:48]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að taka undir orð hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur um að hvetja ráðherrann til að skoða þetta mál í sumar. Ég þykist þess nokkurn veginn fullviss miðað við vinnubrögðin að ekki sé mikill áhugi á að reyna að ná samstöðu við stjórnarandstöðuna í þessu máli, þótt ég telji að það væri farsælt, en það er mjög mikilvægt að reyna að skoða það mjög vel hvaða afleiðingar þessar gífurlegu breytingar hafa þannig að hægt sé að reyna að bregðast við því eins og unnt er gagnvart þeim hópum sem verða úti eftir að þetta frv. hefur orðið að lögum.

Virðulegi forseti. Það er mér umhugsunarefni að félmrh. skuli ekki gera tilraun til að svara þeim ræðumönnum sem talað hafa í dag og hafa beint til hans ýmsum spurningum, vegna þess að þeir ræðumenn hafa verið að flytja síðari ræður sínar. Það er alveg ljóst að þegar hann kemur hér síðar í ræðustól til að svara eða fjalla um það sem beint hefur verið til hans, þá verður eina leið þingmannanna sem hér hafa talað að koma í andsvör og ef margir biðja um andsvar verður kannski bara ein mínúta á hvern. Ég vek þess vegna athygli á því að á sama tíma og stjórnarandstaðan hefur orðið við ósk um að gera samning um lok þessarar umræðu og við höfum gert samkomulag við hæstv. forseta um að stefna að því að ljúka umræðunni um fjögurleytið, hefði maður átt von á að félmrh. reyndi að bregðast við ræðumönnum með því að svara spurningum þeirra nokkurn veginn jafnóðum og þær koma fram. Ég vek athygli á þessu því að ég geri mér alveg grein fyrir hvernig staðan verður þegar hann hefur flutt ræðu sína í lokin og ætlar þá að reyna að svara öllu því sem borið hefur á góma í þessari umræðu síðan hann talaði í gær.

Virðulegi forseti. Umræðan um þetta frv. hefur dregið mjög skýrt fram hvaða bylting felst í því. Sumir upplifa orðið byltingu eitthvað sem á að umbreyta til góðs, en þegar ég tala um byltingu er ég að tala um byltingu með neikvæðum formerkjum.

Það vekur vissulega athygli hverjir hafa talað um þetta frv. Hverjir hafa talað í þessu þingmáli? Það hafa nokkrir sjálfstæðismenn gert og fagnað mjög. Það vekur líka athygli hverjir hafa verið fjarri í umræðunni og alls ekki tekið til máls og ekki staðið við hlið ráðherrans um að vekja athygli á því að þetta sé til góðs og breytingar sem njóti víðtæks stuðnings. Og við höfum tekið eftir því hverjir hafa fagnað mest. Auðvitað höfum við tekið eftir því hver hefur hrópað nærri því sól í Hvalfirði, talað um að á föstudag hafi sól farið að skína og hafi skinið enn í gær í muggunni af því það var svo dásamlega gaman og gott að þetta frv. hefði litið dagsins ljós. Og hver var það? Pétur Blöndal sem er alfarið á móti öllu félagslegu í lagasetningu. Auðvitað höfum við tekið eftir þessu, virðulegi forseti, og er ég þá ekkert að kasta rýrð á þingmanninn. Hann hefur bara sína persónulegu pólitísku skoðun sem er um sumt langt til hægri við hans eigin flokk. Auðvitað höfum við tekið eftir hvernig umræðan um frv. hefur verið og hverjir hafa fagnað, og við vitum líka stefnu hvers er verið að framfylgja.

Það má kannski freistast til að leggja þá meiningu í orð stjórnarandstöðunnar að hún sé búin að verja hér óbreytt kerfi. Svo er ekki. Það er umhugsunarvert og mjög mikilvægt að vekja athygli á því að allir sem hér hafa talað hafa einmitt nefnt að annmarkar séu á þessu kerfi. Það hefur verið skoðað af okkur í stjórnarandstöðunni og mikilvægt að reynt verði að ná samstöðu um að lagfæra þá. Stjórnarandstaðan hefur síður en svo verið að halda því fram að hér sé kerfi sem ekki má breyta. Hún hefur þvert á móti sagt: Skoðum saman hvað hægt er að lagfæra það sem er ábótavant og gerum það vel, þannig að engir hópar verði utan kerfisins, að engum hópum verði kastað fyrir róða, síst þessum 1.200 sem búast má við að falli utan kerfis miðað við þetta frv. Þetta er mjög mikilvægt. Og það er mikilvægt að slíkt félagslegt kerfi sé alltaf í takt við tímann og allt sé gert sem unnt er til að gera það sveigjanlegra og liprara, en á sama tíma og við erum sammála um að gera eigi svona kerfi sveigjanlegt og lipurt þannig að það þjóni alltaf markmiðum sínum og sé það tæki til stuðnings láglaunafólki sem það var hugsað í upphafi, skulum við minnast þess sem gerðist hér fyrir nærri 70 árum --- ætli það hafi ekki verið 1929, hvaða stórfellda samfélagsumbót það var að koma á lögum um verkamannabústaði og koma á þessu félagslega kerfi. Og enn og aftur hefur verið vakið máls á því í þessum sal hvað var að gerast þegar uppbygging var sem mest í þessu kerfi, bæði á þeim tíma þegar það var nýtt og fólk var að komast upp úr rakakjöllurum og úr heilsuspillandi húsnæði inn í mannsæmandi íbúðir, og svo seinna á síðari árum þegar stórfellt átak var gert í uppbyggingu félagslegs kerfis og fólki var veitt öryggi í húsnæðismálum með þeirri uppbyggingu. Gleymum því ekki, sem hefur komið fram í þessari umræðu, að margt af því fólki sem hefur fengið inni í þessu húsnæði og stendur sig vel er fólk með mjög lágar tekjur, t.d. 60--70 þús. kr. mánaðarlaun, og stendur sig vel. Gleymum því ekki að af því fólki sem hefur fengið 100% lán í þessu kerfi, það eru 600 fjölskyldur, eru 17% með vanskil. Skoðum það í samhengi við almenna markaðinn, almennt húsnæðislánakerfi og fjárfestingar fólks almennt í dag. Skoðum hvort þessi þjóðfélagshópur á það skilið að sagt sé um hann: Hann á ekki heima í þessu kerfi, setjum hann út án þess að átak sé gert í félagslegum íbúðum.

Virðulegi forseti. Það hefur komið berlega í ljós í þessari umræðu að það eina félagslega sem eftir stendur í þessari löggjöf er lánstíminn og lánshlutfallið en þá skulum við ekki gleyma því að búið er að opna á það í hinu almenna húsbréfakerfi að lánstími geti verið 40 ár þótt ekki hafi ýkja margir nýtt sér það. Það er einmitt með jafnlaunagreiðslunum og hinum lágu mánaðargreiðslum fólks sem það skiptir máli að lánstíminn sé langur og kjörin góð. Við skulum líka athuga að þegar verið er að flytja niðurgreiðslur vaxta yfir í vaxtabótakerfið, eins og nú á að gera, er verið að búa til kerfi þar sem mun einfaldara er að breyta forsendunum fyrir niðurgreiðslunni en nokkru sinni áður. Og þess vegna hefur svo lengi verið haldið við þá stefnu að vera með niðurgreidda vexti í félagslega kerfinu að það hefur verið algerlega gagnsætt á hvaða kjörum fólk hefur fengið félagslega íbúð hverju sinni og hverjir vextirnir eru. Við þekkjum það sem höfum setið um nokkurra ára skeið í efh.- og viðskn. Það hefur gerst að breytingar á vaxtabótum hafa komið fyrir þá ágætu nefnd, eins og núna, í breytingum við fjárlagagerð í önnunum fyrir jól og ekki skorti á að sett voru fram nokkur dæmi en ekkert dæmanna sem þá kom fram þegar vaxtabótakerfinu var breytt síðast sýndi að hjón með 2,4 millj. í tekjur, 3 millj. kr. skuld í almennu húsnæðiskerfi og með eign upp á 8 millj., mundu lenda í því að vaxtabætur lækkuðu úr 162 þús. í 60 þús. Engin dæmin sýndu það. Það var enginn vegur fyrir efh.- og viðskn. á þeim tíma að fara í þau ítarlegu dæmi að slík staða yrði mönnum ljós, en það var engu að síður það sem kom í ljós ári seinna, á árinu 1995, þegar fólk fór að fá vaxtabæturnar sínar og sjá mismun á því sem hafði gilt samkvæmt lögunum 1993 og þeim lögum sem tóku gildi 1994. Og takið eftir því, hv. þingmenn, að ég dreg þessa staðreynd fram hér eftir að hafa verið stjórnarmaður í efh.- og viðskn. og félmn. á þeim tíma. Af hverju geri ég það? Vegna þess að ég býst við að allir sem hér eru geri sér grein fyrir því að ég hefði ekki fengist í þessa breytingu, að kippa 100 þús. kr. vaxtabótadæmi út úr fjárhagsdæmi fjölskyldu með samanlagt 2,4 millj. kr. í tekjur, hefði það legið ljóst fyrir. Ég er ekkert viss um að þeir sem voru að reikna hafi ætlað sér að vera með slíkar afkomuskerðingar fyrir fólk með ekki hærri tekjur. Nei, vandinn er sá að þegar verið er að gera slíkar breytingar í fljótheitum, þá verða slysin. Núna er verið að taka um það prinsippákvörðun að fólkið með lægstu tekjurnar, fólkið sem í dag fær inni í félagslega kerfinu, skuli fá niðurgreitt í gegnum vaxtabótakerfið. Þess vegna er svo mikilvægt að allir geri sér grein fyrir því hvað í því felst og hversu ógagnsæ sú niðurgreiðsla verður þegar þar að kemur.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki hugsað mér í þessari síðari ræðu minni að fara í gegnum allt það sem hér hefur verið rætt í umræðunni en mér er það alveg ljóst að það þurfti þennan tíma til að ræða húsnæðismál sem við höfum tekið hér. Og þrátt fyrir að það sé búið að fara svona óhemjulega í taugarnar á stjórnarliðunum að við skulum hafa talið okkur þurfa þennan tíma í 1. umr., málsins þá hefur hún varpað ljósi á það hversu hrikalega vanbúið þetta frv. er frá sjónarhóli þeirra sem vilja hafa félagslegt kerfi. Ég geri mér alveg grein fyrir hve glæsilegt það er frá sjónarhóli ákveðinna íhaldsmanna.

[15:00]

Virðulegi forseti. Ég ætlaði hins vegar að nefna þetta með framlag sveitarfélaganna og varasjóðinn. Þrátt fyrir valkostinn verður það þannig að enginn mun fá þetta félagslega lán og félagslega viðbótarlán nema sveitarfélagið segi já og sé tilbúið til að greiða 5% af viðbótarláninu inn í varasjóð. Sá varasjóður á fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að greiða niður íbúðirnar fyrir fólk úti á landi. Á sama tíma er ljóst að hafni sveitarfélag forkaupsrétti þegar eigandinn óskar eftir innlausn á íbúð sinni sem kannski er illseljanleg, þá á hann ekki möguleika á því að fá úr þessum varasjóði, lendi hann í því að íbúðin hans seljist langt undir skuldum hans. Þetta er gífurlega stórt atriði vegna þess að svo oft hefur verið talað um vanda sveitarfélaganna. Oft er talað um að íbúðir séu ekki seljanlegar vegna þess að þær standi langt yfir markaðsverðinu. Sums staðar verða íbúðir illseljanlegar þó þær séu ekki endilega yfir markaðsverði heldur út af öðrum ástæðum sem gera staðsetningu íbúðar óásættanlega fyrir þann sem ætlar að nýta sér valkostinn um félagslegt lán.

Þótt það hafi komið fram í þessari umræðu tel ég að ekki hafi verið nægilega staldrað við að greiðslubyrðin í húsbréfakerfinu má ekki fara yfir 18% af tekjum en í félagslega húsnæðiskerfinu hafa þessi mörk verið 28%. Ég vona að ráðherrann sjái sér fært að fjalla um það. Viðmiðunarmörkin eru mismunandi milli félagslega kerfisins og húsbréfakerfisins. Nú á að vísa öllum þeim sem ætla að kaupa íbúðir í húsbréfakerfið að hluta upp á 65--70% og inn í nýja Íbúðalánasjóðinn upp á 20--25%, með breytilegum vöxtum sem við vitum ekki enn hvernig með verður farið. Enn hefur ekki komið fram hvað miða eigi við í greiðslubyrðinni.

Við höfum rætt um þá sem lenda utan við í þessu kerfi þó að greiðslubyrðin sé tekin upp í 28%. Hvað verður um hópana sem detta út ef t.d. greiðslubyrðin verður færð niður í 18% eða jafnvel á bilið milli 18 og 28%. Þetta hefur sáralítið verið rætt en er þó eitt af grundvallaratriðunum. Hvernig fer með fólkið sem ætlar að komast inn í félagslega kerfið hér eftir?

Við höfum bent á að um þúsund fjölskyldur á hverju ári hafi fengið íbúðir, ýmist íbúðir sem verið er að úthluta í fyrsta sinn eða endursöluíbúðirnar. Við teljum hættu á því að um 600 fjölskyldur muni ekki standast greiðslumatið. Við vitum ekki hvað gerist ef greiðslumatið verður lækkað. Þarna höfum við nokkra þröskulda. Við erum með greiðslumatið og sveitarfélagið sem verður að greiða 5% fyrir hvert lán sem er úthlutað og þar með hleypa viðkomandi að í nýja kerfið. Eins höfum við þann þröskuld að valkosturinn virkar ekki ef sveitarfélag óskar t.d. eftir því að í stað þess að einstaklingurinn fari út á markaðinn og finni sér íbúð, þá komi hann og kaupi íbúð sem sveitarfélagið hefur neyðst til að innleysa. Sá kostur hentar kannski ekki kaupandanum. Auðvitað má reikna með að eitthvað af innlausnaríbúðunum sem sveitarfélagið kemur til með að innleysa eftir þessa breytingu verði notaðar sem leiguíbúðir. En dettur nokkrum manni í hug að sveitarfélög geti innleyst heilu blokkirnar? Ef fólkið hefur búið í íbúðunum skemur en 10 ár, þá á það rétt á að íbúðirnar verði innleystar.

Virðulegi forseti. Ég ætla að nefna tvö ákvæði sem sáralítið hefur verið rætt um. Um þau er fjallað á bls. 74 í frv. Um ákvæði til bráðabirgða IV segir, með leyfi forseta:

,,Að því er snertir eigendur félagslegra eignaríbúða er gert ráð fyrir því að þeir geti selt íbúð sína á almennum markaði hafi þeir greitt upp áhvílandi lán við Byggingarsjóð verkamanna og við framkvæmdaraðila.``

Gerum nú ráð fyrir því að þetta verði útfærslan þannig að allt hafi verið gert upp. Takið nú eftir:

,,Heimild þessi er háð því að forkaupsréttur sveitarfélags sé fallinn niður, sem getur orðið 30 ár frá útgáfu síðasta afsals en fyrr hafi sveitarstjórn hafnað forkaupsrétti. Sveitarstjórn er heimilt að stytta þennan tíma hvenær sem er.``

Þetta er í umfjöllun um bráðabirgðaákvæði IV. Hvað þýðir þessi síðasta setning, virðulegi forseti? Ég beini því til hæstv. félmrh. að sveitarstjórn er heimilt að stytta þennan tíma hvenær sem er. Getur þá sveitarstjórn í raun og veru stytt forkaupsrétt í eitt ár eða minna? Hefur sveitarstjórn það í hendi sér hvort yfirleitt er forkaupsréttur? Öllum þessum spurningum verður að svara áður en þetta frv. verður að lögum vegna þess að alls staðar þar sem vafi virðist leika á virðist vafinn vera á verri veg fyrir þann sem á að nýta sér félagslega kerfið.

Um ákvæði til bráðabirgða V segir:

,,Ákvæðið tekur til þeirra sem gert hafa samninga um leigu- eða kaupleiguíbúðir, svo og til annarra sem búa í annars konar félagslegum íbúðum. Tekið er á því í 3. mgr. ákvæðisins að þeir einstaklingar, sem gert hafa leigusamning með kauprétti, haldi rétti sínum til kaupa á íbúð til 31. desember 1998, en að þeim tíma liðnum falli niður slíkur réttur.``

Allir þeir sem nú eru á samningi í kaupleiguíbúð og hafa heimild til þess samkvæmt núgildandi lögum, geta verið í kaupleiguíbúð í fimm ár og á þessum fimm árum valið að breyta leigurétti sínum í kaup. Þeir eiga allir að taka ákvörðun fyrir 31. des. 1998. Á þessu ári mun sá sem hefur talið sig vera kominn í öruggt skjól, í kaupleiguíbúð þar sem hann geti í nokkur ár haft leigurétt, þurfa að gera þetta upp við sig.

Fólk sem verið hefur yfir mörkum, misst íbúðirnar sínar, kannski orðið gjaldþrota og hefur af einhverjum orsökum dottið út úr bankakerfinu þannig að hvergi er fyrirgreiðsla, ekki lán til að kaupa, ekki lán til að spanna þau 10% sem á vantar. Kaupleigukerfið hefur verið valkostur fyrir þetta fólk og það hefur kannski búist við að vera loksins komið í skjól, búið að gera samning við sveitarfélagið um að fá að vera fimm ár í íbúðinni. Nú kemur eitt lítið ákvæði sem segir að leigjandinn eigi að ákveða sig fyrir 31. desember 1998. Að þeim tíma liðnum falli niður slíkur réttur. Ég mun að sjálfsögðu óska eftir því í félmn. að bæði þessi ákvæði verði athuguð. Kanna þarf hvort sveitarstjórn er heimilt að stytta forkaupsréttartímann hvenær sem er og varðandi kaupleiguíbúðirnar þarf skoða hvort þarna sé ekki um afturvirkni að ræða. Athuga þarf hvort slíkt eigi að setja í lög og kippa þannig stoðunum undan því sem áður hefur gilt.