Húsnæðismál

Þriðjudaginn 10. mars 1998, kl. 15:38:45 (4521)

1998-03-10 15:38:45# 122. lþ. 83.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 122. lþ.

[15:38]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ástæða væri til að fara aðeins yfir loforð Framsfl. í húsnæðismálum í bæklingunum fínu fyrir síðustu kosningar. Þar kom m.a. fram eitthvert stórbrotnasta loforð sem ég hef nokkurn tímann séð á prenti vegna þess að það var svo fjarstæðukennt að við það yrði nokkurn tímann staðið en í bálki um húsnæðismál lofar Framsfl. mjög miklum aðgerðum til að létta greiðslubyrði heimilanna og þar er vísað beinlínis til þess að hluti af þeim aðgerðum verði niðurfelling skulda. Ég á þennan bækling í skjalatöskunni minni. Ég skil hann ógjarnan við mig. Þetta er náttúrlega svo yfirgengilegt og hvað hefur síðan gerst í þessa veru? Ekki nokkur skapaður hlutur. Nú er á hinn bóginn verið að halda því fram að það verði bjargræði fyrir fátækt fólk eða tekjulágt á Íslandi að hækka alla húsnæðisvexti upp í markaðsvexti. Það er svoleiðis uppi í skýjunum miðað við það sem þarna var verið að gefa í skyn að auðvitað er það fjarri öllu lagi. Og það að reyna að kenna þetta sem hér er verið að leggja til við eitthvað sem heitir félagshyggja er náttúrlega enn fjær en að kenna það við miðjustefnu. Menn gætu reynt að segja að þetta væri einhver hlutlaus miðjustefna sem ég reyndar tel að það standi ekki undir, en það er fjarri öllu lagi að hægt sé að finna því stað að í breytingum á húsnæðislöggjöf af þessu tagi endurspeglist einhver félagsleg hugsun eða félagslegar áherslur enda orðið afar fátt um fína drætti hjá Framsókn þegar kemur að slíku.

Ég set spurningarmerki við þá túlkun að þjóðin sé ánægð með ríkisstjórnina og að hún sé ekki sammála málflutningi okkar í stjórnarandstöðunni þegar við erum að vara við ýmsum breytingum af þessu tagi. Fyrir það fyrsta hefur Framsókn ekki alltaf riðið feitum hesti frá skoðanakönnunum upp á síðkastið og ætli það geti ekki verið að kjósendur séu þar einmitt að minna Framsókn á loforðin sem hafa ekki gengið eftir og það er fyrst og fremst Sjálfstfl. sem hefur fitnað eins og púkinn á fjósbitanum með því að gera ekki neitt og láta Framsókn um skítverkin og það eru þessi venjulegu hlutverkaskipti í ríkisstjórnum með Sjálfstfl. að íhaldið gerir ekki neitt og lætur leppana moka flórinn fyrir sig.