Húsnæðismál

Þriðjudaginn 10. mars 1998, kl. 15:57:49 (4526)

1998-03-10 15:57:49# 122. lþ. 83.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 122. lþ.

[15:57]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ef hv. þm. geðjast það betur, þá má hann mín vegna segja að þessir góðu samningar hafi tekist þrátt fyrir þessa vinnulöggjöf sem við búum við. (ÖJ: Þetta eru nú engir sérstakir samningar.) Það er rétt hjá hv. þm. að lögin um vinnumarkaðsaðgerðir eru ekki að fullu komin til framkvæmda, því miður, en það er unnið ötullega að því og ég vona að það takist að koma því í gang með frambúðarsniði áður en allt of langur tími líður.

Varðandi samráð við verkalýðshreyfinguna bíð ég eftir að fá athugasemdir ASÍ, BSRB og annarra samtaka. Ég bíð eftir samþykkt Landssambands húsnæðisnefnda sem mun halda fund alveg á næstunni og að sjálfsögðu munum við skoða þetta allt saman. Ég vil ekki vera neinn eintrjáningur um það og neita ekki fyrir fram breytingarhugmyndum sem fram kunna að koma. Stefnan er klár, meginatriðin, prinsippin í þessu, en ef menn geta bent mér á eitthvað sem betur má fara, þá er ég alveg tilbúinn að skoða það. (ÖJ: Líka varðandi vinnulagið, tímasetninguna?)