Húsnæðismál

Þriðjudaginn 10. mars 1998, kl. 15:59:17 (4527)

1998-03-10 15:59:17# 122. lþ. 83.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 122. lþ.

[15:59]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér blöskrar það satt að segja að við skulum vera komin að lokum þessarar umræðu og hæstv. félmrh. skilji ekki enn það grundvallaratriði sem gerir það að verkum að stór hluti lægst launaða fólksins fær ekki inni í þessu kerfi. Hann skilur ekki hvað er greiðslumat og greiðslugeta. Það er allt öðruvísi í félagslega kerfinu en húsbréfakerfinu. Og þegar ráðherrann vísar bara í það að endurgreiðslan sé 25 ár í húsbréfakerfinu en 40 ár hjá því fólki sem nú færi inn, þá bendi ég ráðherra á að núna er í húsbréfakerfinu heimild til 40 ára lánstíma. Hverjir hafa nýtt sér það? 6% af þeim sem eiga rétt á því. Hver er munurinn á því? Miklu hærri heildarvaxtagreiðslur á lánstímanum. Af 3 millj. kr. láni greiðir fólk, sem tekur lán til 25 ára, 2,4 millj. í vexti en 4 millj. af 40 ára bréfunum. Þetta er allt annað en greiðslumatið og greiðslugetan sem við erum að tala um. Núna eru það 18% af tekjum sem mega ganga til niðurgreiðslu á láni en í húsbréfakerfinu er það 28%. Og ef ráðherrann skilur ekki þetta grundvallaratriði, þá er hann að tala um málið út frá allt öðru en raunveruleikanum. Ég spyr ráðherrann af því að hann segir að starfsmennirnir eigi að hafa forgang: Er hann tilbúinn til að setja það í lög alveg eins og með aðrar ríkisstofnanir sem rekstrarformi hefur verið breytt á? Ég spyr hann líka: Finnst honum eðlilegt að sveitarfélög sem hafa staðið sig vel eigi núna að fara að greiða niður skuldir annarra sveitarfélaga með 5% framlaginu og telur hann rétt að Seðlabankinn eigi að hafa umsagnarrétt um það þegar hann breytir þessu varasjóðstillagi en ekki sveitarfélögin? Og ég spyr hvort hótun hafi falist í því hjá ráðherranum þegar hann sagði að hann mundi gera allt sem hann gæti til þess að sveitarfélögin byggðu leiguíbúðir og nefndi að hann mundi beita Jöfnunarsjóðnum til þess. Hvað þýðir það? Hvað meinti ráðherrann?