Byggingar- og húsnæðissamvinnufélög

Þriðjudaginn 10. mars 1998, kl. 16:06:55 (4531)

1998-03-10 16:06:55# 122. lþ. 83.2 fundur 508. mál: #A byggingar- og húsnæðissamvinnufélög# frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 122. lþ.

[16:06]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mun hafa stutta messu yfir þessu frv. Hér er um að ræða fylgifrv. með frv. sem við höfum verið að ræða.

Það þótti skynsamlegt og eðlilegra þar sem hér er um frjáls félagasamtök að ræða að taka þá kafla sem um þau fjölluðu út úr löggjöfinni og flytja um það sérstakt frv. þannig að þar um fjölluðu sérstök lög. Ég vona að hv. þm. geti fallist á það. Hér er ekki um að ræða stórmál.

Frumvarpið er fylgifrumvarp með frumvarpi til laga um húsnæðismál og kemur, ef að lögum verður, í stað VI. og VII. kafla gildandi laga um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 97/1993, með síðari breytingum, en í þeim köflum er fjallað um byggingarsamvinnufélög og húsnæðissamvinnufélög og búseturétt. Byggingarsamvinnufélagsformið hefur hin síðari ár ekki verið nýtt að marki til byggingar eignaríbúða. Með lögum nr. 47/1991 voru þær breytingar gerðar á lánveitingum Byggingarsjóðs ríkisins að ekki var lengur gert ráð fyrir að byggingarsamvinnufélög ættu kost á framkvæmdarlánum til byggingar húsnæðis fyrir félagsmenn sína. Með lögum nr. 61/1993 var sú breyting gerð á ákvæðum um fjáröflun byggingarsamvinnufélaga að þau ættu ekki lengur kost á lánum úr Byggingarsjóði verkamanna. Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að húsnæðissamvinnufélög geti meðal annars fjármagnað íbúðarbyggingar fyrir félagsmenn sína með lánum úr Íbúðalánasjóði. Þegar litið er til þess að hér er um að ræða frjáls félagasamtök einstaklinga, og húsnæðissamvinnufélög, sem tengjast ekki Íbúðalánasjóði nema að takmörkuðu leyti, þykir rétt að um þau gildi sérstök lög.

Efnislega eru fyrstu fjórir kaflar frumvarps þessa nánast samhljóða VII. kafla gildandi laga um húsnæðissamvinnufélög og búseturétt. Orðalagi hefur lítillega verið breytt, einkum með tilliti til stofnunar Íbúðalánasjóðs og sameiningar Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna. Í 2. gr. hafa verið teknar inn helstu skilgreiningar hugtaka til frekari skýrleika en slíkar skilgreiningar er ekki að finna í gildandi lögum. Þá er efni VI. kafla gildandi laga um byggingarsamvinnufélög fellt brott, enda hefur ekki um langt skeið verið stuðst við ákvæði þessa kafla við íbúðarbyggingar hér á landi. Eigi að síður, og þess í stað, er í V. kafla frumvarpsins tekið upp ákvæði í 19. gr., sem gerir ráð fyrir því að heimilt verði að stofna byggingarsamvinnufélög með samþykki félagsmálaráðherra. Gert er ráð fyrir að nánari reglur um fyrirkomulag þess háttar félaga verði settar í reglugerð. Í 20. gr. frumvarpsins eru talin upp helstu atriði sem fram þurfa að koma í slíkri reglugerð reynist nauðsynlegt að setja hana. Sú upptalning er þó ekki tæmandi.

Í fylgiskjali er umsögn frá fjárlagaskrifstofu fjmrn. og þar segir að það muni ekki leiða til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð.

Ég vænti þess að þetta mál fái meðferð í hv. félmn. og verði afgreitt fyrir vorið. Ég á von á því að ég komi til með að fara fram á það við hv. félmn. að taka upp breytingar við þetta frv. Forstjóri Húsnæðisstofnunar hefur látið í ljósi við mig að hann telji að það þurfi að breyta ákvæðum um búseturétt. Það er verið að vinna úr þeim hugmyndum uppi í Húsnæðisstofnun. Ég mun koma þeim til hv. félmn. þegar og ef þær koma og mér líst á þær.