Byggingar- og húsnæðissamvinnufélög

Þriðjudaginn 10. mars 1998, kl. 16:11:48 (4532)

1998-03-10 16:11:48# 122. lþ. 83.2 fundur 508. mál: #A byggingar- og húsnæðissamvinnufélög# frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 122. lþ.

[16:11]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. taldi sig ekki þurfa að hafa langa messu yfir þessu máli eins og hann orðaði það því hér væri ekki á ferðinni neitt stórmál. Engu að síður boðaði hann í lok síns máls breytingar að því er varðar búseturéttinn eftir ábendingar frá Húsnæðisstofnun.

Fyrsta spurningin sem vaknar þegar maður les þetta frv. og veltir fyrir sér málsmeðferðinni er: Var haft samráð við búsetuhreyfinguna um þetta mál? Hér er hvað eftir annað að koma í ljós að hæstv. ráðherra hunsar öll samskipti hvort sem það er við verkalýðshreyfinguna eða félagasamtök sem hafa þó byggt mikið á þessari löggjöf varðandi húsaskjól fyrir sína félaga. En hæstv. ráðherra þarf ekkert að ræða við búsetuhreyfinguna. Eftir því sem ég er upplýst um var ekkert samráð haft við Búseta eða önnur félagasamtök um þetta frv. eða hitt frv. sem við vorum að ræða áðan sem skiptir þá líka máli þrátt fyrir að leitað hafi verið eftir því. Það var meira að segja leitað eftir því. En búsetuhreyfingin og fulltrúar hennar fengu ekki frv. fyrr en eftir einhverjum krókaleiðum. Þetta er að segja um samskiptin og samráðið við fólk. Ráðherrann þarf ekki að hafa samráð við einn eða neinn nema við þá sem honum sýnist og skrökvar því svo í ræðustól, eins og hann gerði í gær, að hann hefði haft fullt samráð við verkalýðshreyfinguna um það stóra frv. sem við vorum að ræða áðan.

Felast engar breytingar í þessu frv.? Ég spyr ráðherrann: Er með þessu frv. verið að fella niður almennan búseturétt eins og við höfum þekkt hann og hlutareignarrétt sem búsetufélagar hafa byggt á? Ég fæ ekki annað séð en að það sé gert. Jafnvel þó rætt sé um íbúarétt í frv. --- ég man ekki nákvæmlega hvar þetta er --- þá er felld brott 76. gr. núgildandi laga sem búsetuhreyfingin hefur byggt á. Í þessari 76. gr. segir svo, með leyfi forseta:

,,Heimilt er að tryggja leigutaka ótímabundinn afnotarétt af félagslegri kaupleiguíbúð með því að selja honum eignarhlut í henni fyrir 10% kostnaðarverðs eða kaupverðs íbúðarinnar með þeim kvöðum að eignarhlutur hans standi óhreyfður í íbúðinni meðan hann hefur afnot af henni.``

[16:15]

Þessi eignarhluti sem búsetufélagar hafa byggt á hefur verið frá 10--30% hlutur, þ.e. búseturétturinn og búsetufélagar eru sá hópur sem helst hefur valið sér íbúðir gegnum almennar kaupleiguíbúðir. Ég spyr um það hvort fella eigi alveg á brott 76. gr. Hún stendur að vísu inni í stóra frv. sem við vorum að ræða áðan undir einhverjum formerkjum um greinar sem eiga að standa tímabundið eða að hluta til. Á þessi 76. gr. að standa tímabundið eða á hún að standa alveg? Ég fæ ekki betur séð, herra forseti, en að verið sé að afnema, þó að ráðherra telji það ekki stórmál, það sem búsetuhreyfingin hefur byggt á, þ.e. almennan búseturétt og hlutareignarrétt. Í þessu nýja ákvæði í frv. er hvergi talað um þennan hlutareignarrétt. Það er talað almennt um þetta í 18. gr., með leyfi forseta:

,,Húsnæðissamvinnufélögum er heimilt að sækja um lán úr Íbúðalánasjóði til kaupa á íbúðarhúsnæði sem síðan er ráðstafað með búseturétti.``

Þetta er merkingarlaust, sýnist mér, þ.e. ,,ráðstafað með búseturétti``, ef grundvellinum er kippt undan ákvæðum laga sem hafa tryggt þennan búseturétt eða þann rétt sem hefur byggst á hlutareign íbúðanna. Ég spyr því ráðherra: Er verið að falla frá 76. gr. sem hefur tryggt þennan rétt?

Síðan skýtur hér upp kollinum svipaðri hugsun og er í stóra frv. og hún kemur fram í 21. gr. þessa frv. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Félagsmálaráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þar á meðal um ákvörðun leigugjalds.``

Herra forseti. Ég spyr ráðherrann: Á ráðherrann að taka ákvörðun um leigugjald fyrir búsetufélagana?

Það er einu sinni svo að Húsnæðisstofnun hefur gefið út viðmiðun varðandi leiguverð. Ég bið ráðherra að hlusta eftir því að Húsnæðisstofnun hefur gefið út viðmiðun fyrir leiguverð, en búsetuhreyfingin hefur í öllum tilvikum verið undir því leiguverði, verið með lægra leiguverð. Ég bið því ráðherrann um að skoða það alveg sérstaklega. Það er mjög alvarlegt, herra forseti, ef þetta er rétt að það sé verið að afnema hér almenna búseturéttinn og strika það út að hér sé hægt að byggja í framtíðinni á grundvelli búseturéttar eða hlutareignarréttar. Ég spyr því ráðherra um þetta tvennt: Er verið að afnema búseturéttinn? Er verið að afnema hlutareignarréttinn. Og ég spyr um leigugjaldið: Hefur búsetuhreyfingin frelsi til þess að ákveða þetta búsetugjald sem greiðslan hefur byggst á til þessa eða verður það ráðherra sem á að ákveða það?

Síðan er nauðsynlegt að fara nokkrum orðum um tryggingarsjóð sem var í fyrra frv. Ég ætla að byrja á því að vísa í 114. gr. núverandi húsnæðislaga þar sem verið er að fjalla um húsnæðissamvinnufélög og búseturétt, en þar segir um það ákvæði, með leyfi forseta, að húsnæðissamvinnufélagi skuli aflað fjár:

,,Með varasjóðstillagi af byggingarkostnaði hverrar íbúðar er svarar til greiðslu í Tryggingarsjóð, sbr. 81. gr. Í varasjóð skal einnig greiða árlegt fjárframlag af óskiptum tekjum félagsins samkvæmt ákvörðun aðalfundar.``

Hér er verið að vísa til þess að húsnæðissamvinnufélög skulu afla sér fjár eins og hér segir, þ.e. með því að leggja með varasjóðstillagi af byggingarkostnaði hverrar íbúðar er svarar til greiðslu í tryggingarsjóð sbr. 81. gr.

Í frv. sem við ræddum áðan verður tryggingarsjóður hjá Húsnæðisstofnun lagður niður og allar eignir hans renna til hins nýja sjóðs, þ.e. varasjóðsins sem er áfallasjóður fyrir sveitarfélögin en ekki fyrir íbúana, og hlutverk hans verður að bæta hugsanleg útlánatöp. En hlutverk tryggingarsjóðsins var að bæta byggingargalla. Búsetufélagar hafa greitt 1% af öllum lánum í þennan tryggingarsjóð og það er gert undir þeim formerkjum að þetta eigi að renna til þess að hægt verði að bæta byggingargalla á eignum búsetufélaga. En mér sýnist, herra forseti, og spyr um það: Er verið að gera upptæk þessi framlög sem búsetuhreyfingin hefur sett í tryggingarsjóð? Ég skal ekkert fulyrða neitt um það fyrr en ráðherra hefur svarað því vegna þess að ég tel alveg ljóst, miðað við það hvernig 114. gr. er, að þetta séu framlög sem eru raunverulega eign búsetuhreyfingarinnar og hún á að verja á tiltekinn hátt til að bæta byggingargalla. Því velti ég fyrir mér hvort verið sé að taka þessa fjármuni inn í þennan varasjóð?

Ég vil nefna hér að ... (Gripið fram í.) Búsetuhreyfingin á enga aðild að varasjóðnum, það get ég ekki séð, enda er þetta sjóður sem er fyrst og fremst sjóður sveitarfélaganna til að mæta skakkaföllum þeirra. En það var vafamál á sínum tíma, 1992, í félmrn. hvort búsetuhreyfingin ætti raunverulega það framlag sem hún legði í þennan sjóð. Og úrskurður félmrn. í maímánuði 1992 var eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Ráðuneytið hallast að því í þessu vafamáli að í ljósi laga um samvinnufélög og því hvar varasjóður er niður kominn í lagaákvæðum um húsnæðissamvinnufélög, geti verið heimilt að líta svo á að sjóðurinn sé eign félagsins, enda gildir þá ekki samtrygging við greiðslur úr sjóðnum með sama hætti og ella um greiðslur úr Tryggingarsjóði félagslegra íbúða skv. 97. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins.``

Vera má að í þessum stóra lagabálki, sem við ræddum áðan, hafi eitthvað farið fram hjá mér sem tryggir að það sé undanskilið að þau framlög sem búsetufélagar hafa látið í þennan sjóð renni inn í þennan varasjóð. En ég hef ekki séð það og þeir félagar í Búseta sem hafa lesið þetta yfir hafa heldur ekki séð það þannig að það væri mjög gott ef ráðherrann upplýsti það við þessa umræðu hvernig þessu máli er háttað.

Nú skulum við fara yfir umsögn fjmrn. einu sinni enn sem ber ekki saman við það sem ráðherra heldur fram. Fjmrn. segir að þetta kosti ekki nokkurn skapaðan hlut. Hér segir þó, með leyfi forseta:

,,Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að húsnæðissamvinnufélög geti meðal annars fjármagnað íbúðarbyggingar fyrir félagsmenn sína með lánum úr Íbúðalánasjóði.``

Þetta búseturéttarfrv. á ekki að leiða til neinna aukinna útgjalda og sjálfsagt eiga búseturéttarfélagar ekki að fá eina einustu íbúð sem þeir hafa þó fengið hingað til. Varla ætlar hæstv. félmrh. að koma þeim líka fyrir í þessum 50 leigu\-íbúðum sem hann talar um á markaðnum? Mér sýnist þetta því allt á sömu bókina lært og að skoða þurfi mjög vel, herra forseti, hvað hér sé raunverulega á ferðinni.

Það verður náttúrlega eins með búsetufélaga og aðra sem hafa fengið fyrirgreiðslu í félagslega kerfinu að kjör vegna byggingar og reksturs leiguíbúða og þá væntanlega búseturéttaríbúða mun versna að mörgu leyti. 3,5% framlag sveitarfélaganna er fellt niður og það kemur niður á búsetufélögunum. Við höfum farið í gegnum kostnaðinn, stimpilgjöldin og lántökugjöldin sem hækka en þau þurfa búsetufélagar líka að taka á sig. Ýmis og mörg af þeim ákvæðum í frv. sem við fjölluðum um fyrr í dag eiga því vissulega við um búsetuhreyfinguna og áhrif bæði þessa frv. og hins á ýmis félagasamtök hafa kannski fengið allt of litla umfjöllun í þessari stóru þriggja daga umræðu um húsnæðismál, en hv. þm. Ásta B. Þorsteinsdóttir fór nokkuð ítarlega yfir það. Ég held það sé óhjákvæmilegt í meðförum nefndarinnar að hún sendi þetta mál til allra félagasamtaka sem mér sýnist að verði miklar breytingar hjá, bæði vegna þessa frv. sem við fjöllum um og ekki síst hins fyrra. Ég tel að þetta geti haft veruleg áhrif á þá uppbyggingu og þróun sem verið hefur varðandi leiguíbúðir og félagslegar íbúðir sem ýmis félagasamtök eins og aldraðir, fatlaðir, námsmenn, búsetufélagar og fleiri aðilar, hafa byggt upp. Ég hygg að það sé rétt sem hv. þm. Ásta B. Þorsteinsdóttir hefur haldið fram, að þetta gæti leitt til afturhvarfs til fortíðar í málefnum fatlaðra. Ef þetta fólk fær ekki inni í leiguíbúðum eða hinu nýja félagslega kerfi, hvað á það þá að gera? Það situr þá áfram á stofnunum eða vistheimilum og sambýlum, jafnvel þó það gæti vel aðlagað sig því að vera í félagslegum íbúðum eins og reynslan hefur sýnt. Reynslan af félagslegum íbúðum --- fyrir það var opnað fyrir nokkrum árum síðan þó að núna sé nánast búið að loka á það --- hefur sýnt að fatlaðir hafa getað komist prýðilega af í félagslegum íbúðum. Það verður því raunverulega stöðnun á þróun málefna fatlaðra ef þróun búsetuferlisins sem hefur skapað ýmsa valmöguleika í húsnæðiskerfinu fyrir fatlaða verður stöðvuð þannig að þeir komist ekki lengur annað en á stofnanir eða sambýli.

Herra forseti. Ég beini því til formanns nefndarinnar sem ég veit náttúrlega að þekkir þessi mál mjög vel --- það þýðir ekkert að beina máli sínu til ráðherrans en mér finnst að það verði að skoða --- að nefndin láti þetta mál ekki frá sér nema að fara vel yfir áhrif þess á félagasamtök sem ég hef nefnt hér og búsetufélagana sem hafa gert stórt átak í uppbyggingu leiguíbúða, félagslegra íbúða og íbúða með búseturétti og hlutareign. Við verðum að fara vandlega yfir það og kannski hefur ráðherrann svör við því í þessari umræðu hvort það sé verið að taka af hinn almenna búseturétt og hlutareign. Að minnsta kosti er verið að slá af kaupleiguíbúðir sem verður lokað eins og ráðherrann segir, og almennar kaupleiguíbúðir. En svo vill til að það eru ekki síst búsetufélagar sem hafa helst getað nýtt sér almennar kaupleiguíbúðir með 30% hlutareign sem hefur gefist mjög vel að þeirra sögn. En það virðist eiga að slá það af núna.

Það er ástæða til þess nefna í þessari umræðu, af því að við erum að fjalla um það hve mikið veltur á því hvernig til tekst með uppbyggingu leiguíbúða til að mæta þörfum þeirra sem ekki fá inni í hinu nýja kerfi ráðherrans, að í tíð ráðherrans hefur mjög fáum leiguíbúðum verið úthlutað, t.d. var einungis úthlutað 49 leiguíbúðum á síðasta ári. Það er náttúrlega vegna þess að ráðherrann hefur skorið svo grimmilega niður fjármagn til Byggingarsjóðs verkamanna að sjóðnum var ekki fært að úthluta nema miklu færri íbúðum en hann hefur yfirleitt gert. Og það hefur komið niður á félagasamtökum og búsetuhreyfingunni.

Áður en ráðherrann settist í sinn stól var iðulega úthlutað um 150--170 leiguíbúðum á ári. Búsetuhreyfingin fékk iðulega 50--70 íbúðir áður en ráðherrann tók við embætti. En hve margar íbúðir fékk búsetuhreyfingin sl. tvö ár? Hefur ráðherrann upplýsingar um það? Hefur hann tölur um það hve mörgum íbúðum hefur verið úthlutað til búsetuhreyfingarinnar? Mér sýnist, herra forseti, að raunverulega sé verið að gefa búsetuhreyfingunni rothöggið með þessu frv. sem ráðherrann segir að ekki feli í sér neinar stórar breytingar og þurfi litla messu yfir. Yfir öllu uppbyggingarstarfi Búseta á umliðnum árum þarf litla messu vegna þess að hér er alls ekki stórt mál á ferðinni.

[16:30]

Síðan er spurning hvort Búseti þarf að sæta því sem virðist vera á leiðinni í frv. að hægt sé að hækka allar leigufjárhæðir í leiguíbúðum upp í markaðsleigu og láta félagana fá húsaleigubætur og bera svo mismuninn sjálfir sem við höfum reiknað út að sé kannski 10 til 15 þús. kr. Þetta þurfum við allt að skoða vegna þess að við í stjórnarandstöðunni, sem berum fyrir brjósti félagslega aðstoð og hag fólks sem þarf á þessu húsaskjóli að halda, munum þurfa að skoða mjög ítarlega hvað er verið að gera og fara yfir það bæði varðandi greiðslubyrði og fjölda íbúðanna. Ég hefði viljað ræða þær 50 leiguíbúðir, sem á að byggja á næstu tveimur árum, miklu nánar við ráðherrann en við gerðum áðan. Ráðherrann sagði að íbúðirnar yrðu miklu fleiri og ég tel að ráðherrann þurfi, af því að hann hefur tíma til þess í ræðustóli, að skýra út betur en hann hefur gert hve margar leiguíbúðir verður um að ræða af því hann segir að fjmrh. fari með fleipur í því efni og ekkert sé að marka hvað fjárlagaskrifstofan segir um að einungis eigi að veita fjármagn til leiguíbúða á niðurgreiddum kjörum næstu tvö árin. Ráðherrann svaraði mér reyndar ekki áðan þegar ég spurði hann hvort hætta ætti niðurgreiðslu á lánum til leiguíbúða eftir tvö ár vegna þess að það er raunverulega að sjá í þessu stærra frv. sem við ræddum áðan að svo sé. En ég spyr, herra forseti, af því ég sé að tíma mínum er að ljúka, hvernig búseturétturinn er tryggður, hvort hann er tryggður eins og í núgildandi löggjöf. Ég spyr hvort verið sé að slá eign sinni á fjárhæðir sem voru í tryggingarsjóðnum sem hafa verið eign Búseta sem búsetuhreyfingin telur að sé upp á einhverja tugi milljóna og nefndi 30 til 40 millj. í því sambandi.