Byggingar- og húsnæðissamvinnufélög

Þriðjudaginn 10. mars 1998, kl. 16:43:50 (4534)

1998-03-10 16:43:50# 122. lþ. 83.2 fundur 508. mál: #A byggingar- og húsnæðissamvinnufélög# frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 122. lþ.

[16:43]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er vandlifað fyrir mig. Þegar ég kem með frv. um húsnæðismál sem er talsverð breyting á gildandi lögum verður hv. 13. þm. mjög ergileg en þegar ég kem með frv. sem er hér um bil engin breyting á gildandi lögum verður hún líka ergileg. Þessi lög breyta ekki búseturétti. Búseturétturinn heldur áfram og 76. gr. verður áfram í gildi og ég vísa til bráðabirgðaákvæðis 2 á bls. 7:

[16:45]

,,Fyrirmæli laga um Húsnæðisstofnun ríkisins um ákvörðun leigugjalds vegna félagslegra kaupleiguíbúða sem leigðar eru með hlutarétti, sbr. 73. gr. laga nr. 97/1993, og um kaup á eignarhlut í kaupleiguíbúð, sbr. 76. gr., skulu halda gildi sínu eftir því sem við getur átt á meðan á slíkum íbúðum hvíla lán úr Byggingarsjóði verkamanna.``

Hugmyndin, að svo komnu máli, er ekki sú að breyta Búseta. Það getur vel verið að í meðförum nefndarinnar komist menn að þeirri niðurstöðu að þar þurfi einhverju að breyta og þá er allt í lagi að skoða það.

Varðandi leiguverðið, þá er tekið á því máli í lögum um húsaleigubætur. Þar segir í 8. gr.:

,,Leigufjárhæð íbúða félagasamtaka, sem lögð er til grundvallar útreikningi bóta, skal aldrei vera hærri en viðmið Húsnæðisstofnunar ríkisins um leigu félagslegra íbúða.`` (Gripið fram í: Stofnunin verður lögð niður.)

Varasjóður tekur við hlutverki tryggingarsjóðs og fær þá skyldu að bæta byggingargalla. 1% gjaldið í Tryggingarsjóð vegna byggingargalla fellur niður. Tryggingarsjóðurinn er vistaður hjá varasjóði með kvöðum og skyldum. Hann tekur sem sagt við hlutverki tryggingarsjóðsins.

Eignarhald á tryggingarsjóðnum er hins vegar ekki alveg ljóst og á því er ekki tekið í þessu frv. Eignarhaldið er hægt að skoða sérstaklega og væri sjálfsagt rétt að gera það þegar sjóðurinn hefur lokið hlutverki sínu eftir svona 15 ár.

Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir spurði hvort hér væri verið að loka búsetukerfinu fyrir öðrum en þeim sem eiga rétt á félagslegu húsnæði ef ég skildi hana rétt. Það er alls ekki meiningin. Þeir sem vilja ganga í þessi frjálsu félagasamtök eða í þetta frjálsa félag, Búseta, þurfa ekki að uppfylla önnur skilyrði heldur en Búseti hefur sett. Það er engin breyting á aðgengi að Búseta.

Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir spurði einnig hve há greiðslan hafi verið. Ég hef ekki svör á reiðum höndum með þetta en þessi greiðsla hefur verið ákveðin af stjórn félagsins og hún er mismunandi eftir flokkum. Sums staðar er hún 10% en ég held að á almennum kaupleiguíbúðum sé reiknað með 30%. Þetta er atriði sem sjálfsagt er að upplýsa í hv. félmn.

Varasjóður í húsnæðissamvinnufélagi fer eftir lögum um samvinnufélög. Þar er skylda að stofna til varasjóðs og menn mega ekki rugla því saman við hinn sjóðinn. Varasjóðurinn í Íbúðalánasjóði á að taka við hlutverki tryggingarsjóðsins.

Ég held að ég hafi þar með svarað spurningunum. Hagræðið af búsetuskipulaginu hefur kannski grundvallast fyrst og fremst á því að þar hafa bæði verið vaxtabætur og húsaleigubætur. Þetta hefur því verið gert fýsilegt á tvo vegu.