Byggingar- og húsnæðissamvinnufélög

Þriðjudaginn 10. mars 1998, kl. 17:01:04 (4536)

1998-03-10 17:01:04# 122. lþ. 83.2 fundur 508. mál: #A byggingar- og húsnæðissamvinnufélög# frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 122. lþ.

[17:01]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það er ástæða til að fjalla aðeins um þetta frv. þótt stutt sé. Kannski einmitt vegna þess að það er stutt og knappt og í því kemur ekki skýrt fram allt það sem þarf til að átta sig á hversu víðtækt þetta frv. á að vera og hvernig á að lesa það í samhengi við hið fyrra frv. sem umræðu er nýlokið um.

Ég velti fyrst fyrir mér lánveitingum til byggingar- og húsnæðissamvinnufélaga, þ.e. samkvæmt hvaða grein í fyrra frv. á að veita lán til þeirra félaga. Í frv. um byggingar- og húsnæðissamvinnufélög segir í 1. gr.:

,,Lög þessi taka til félaga sem rekin eru að hætti samvinnufélaga og hafa að markmiði að byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri íbúðarhúsnæðis sem félagsmönnum þeirra er látið í té sem eigin íbúðir eða íbúðir með búseturrétti.``

Skilyrðið er því annars vegar að íbúðirnar séu eigin íbúðir og hins vegar að þetta séu íbúðir með búseturétti. Ég sé hvergi í frv. um húsnæðismál vikið að lánveitingum til þessara íbúðaflokka sem getið er um í frv. um byggingar- og húsnæðissamvinnufélög. Það sem mér býður í grun er að ætlunin sé að styðjast við er lán til leiguíbúða samkvæmt 35. gr. þess frv., en ef maður les þá grein þá veitir hún einungis heimild Íbúðalánasjóðs til að veita lán til leiguíbúða. Og það er ekki það sama og eigin íbúðir eða íbúðir með búseturétti. Mér sýnist því að Íbúðalánasjóður yrði að hafna umsóknum um lán til byggingar húsnæðis samkvæmt lögum um byggingar- og húsnæðissamvinnufélög.

Ef sá grunur minn reynist réttur að meiningin sé að styðjast við 35. gr. frv. til húsnæðislaga þá sýnist mér nauðsynlegt að breyta textanum þar, þannig að unnt verði að veita lán til íbúða í byggingar- og húsnæðissamvinnufélögum sem hér er fjallað um.

Ég vil í öðru lagi spyrja um lánskjörin varðandi þessa íbúðaflokka. Ég sé, eins og ég hef áður getið um, ekki mikið um það fjallað þannig að ég ætla að það sé meining ráðherra að styðjast við 35. gr. um lán til leiguíbúða. Þá sýnist mér það jafnframt vera meining ráðherrans að ekki verði um að ræða niðurgreidda vexti á þeim lánum þannig að lánveitingarnar verði á vöxtum sem standi undir þeim kostnaði sem sjóðurinn ber af því að veita lánið. Með öðrum orðum engin niðurgreiðsla vaxta. Þetta ræð ég af ákvæði til bráðabirgða VIII þar sem sérstaklega er tekið fram að heimilt verði á árunum 1999 og 2000 að veita lán með niðurgreiddum vöxtum þau ár. Það hlýtur að þýða að ekki eigi að veita lán með niðurgreiddum vöxtum að þessum tíma liðnum, enda er það mjög sterklega gefið í skyn í greinargerð sem fylgir með frv. um húsnæðismál.

Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort það sé þá réttur skilningur minn að meiningin sé að þessir íbúðalánaflokkar, rétt eins og leiguíbúðirnar sjálfar, eigi ekki að fá lán með niðurgreiddum vöxtum. Það er grundvallaratriðið, því ef ætlunin er að búa til sjóð eða banka sem stundar útlánastarfsemi á þeim grundvelli að útlánin standi undir kostnaði sjóðsins þá er ekki um neina félagslega athöfn að ræða.

Í ljósi þeirrar staðreyndar undrast ég öll þau skilyrði sem sett eru fyrir lánveitingunum, bæði til leiguíbúða og til samvinnufélagaíbúða, hvort sem það eru byggingarsamvinnufélög eða húsnæðissamvinnufélög. Hver er ástæðan fyrir íhlutun löggjafarvaldsins eða öllu heldur ráðherrans um rekstur, stofnun, tilgang og annað sem varðar þessi félög ef ekki er um að ræða neina niðurgreiðslu af nokkru tagi úr þessum sjóði? Ég hlýt því að spyrja hvort ekki sé eðlilegt að auka einfaldlega svigrúm þessara félaga fyrir sína starfsemi og möguleika á að leita sér lánsfjár annars staðar ef meiningin er að félögin eigi að borga það verð fyrir lánið sem það kostar? Er þá einhver ástæða til að kveða á um það í lögum að félmrh. banni félögunum að starfa á öðrum grundvelli en þeim sem þar er tiltekinn og þar með að veita þeim ekki heimild til félagsstofnunar?

Ef ráðherrann er að tala fyrir frelsi og sól skín í heiði, eins og minnst var á fyrr í umræðum um húsnæðismál, hvers vegna vilja menn þá ekki frelsið? Hvers vegna er þá frelsi félaga til að taka lán bundið við þennan Íbúðalánasjóð? Er einhver nauðsyn á því að kveða á um það með lögum að þessum félögum sé skylt að skipta við Íbúðalánasjóðinn, fyrst Íbúðalánasjóður ætlar sér ekkert annað en arðbær viðskipti við þessi félög? Ég hlýt að hvetja menn til að hugsa þessi mál til enda fyrst að grundvöllurinn að lagabreytingunni er að auka frelsi manna til athafna á þessu sviði.

Ég spyr einnig um hlutverk sveitarfélaga varðandi þessa lánaflokka. Er ætlunin að sveitarfélög hafi íhlutun um rekstur þessara félaga svo sem gert er ráð fyrir varðandi leiguíbúðir og viðbótarlán? Eða eiga þessi félög að fá að starfa óháð sveitarstjórnunum? Eða er ráðherrann með greinargerð frv. um húsnæðismál að boða að það eigi að verða til samkomulag milli hans og Sambands ísl. sveitarfélaga um íhlutunarrétt sveitarfélaganna að þessu leyti? Ég held að ráðherrann verði að tala mjög skýrt í þessum efnum því það hefur auðvitað mikil áhrif á starfsemi þessara félaga ef á að hefta þau enn frekar en gert er ráð fyrir með því að þau þurfi að leita samþykkis sveitarfélaga fyrir einstökum ákvörðunum. Félögin eru þess eðlis að þau verða að fá að starfa óháð þessum vettvangi.

Ég vil líka spyrja af því að ég álykta að lánveiting til þessara samvinnufélaga fari fram á grundvelli 35. gr., hvort 36. gr. þess frv. um samþykktir eigi líka við um samvinnufélögin, þannig að þau þurfi að uppfylla ákvæðin sem eru ekki bara í frv. um samvinnufélög heldur líka í frv. til húsnæðislaga um félög um leiguíbúðir. Ég held að ráðherrann verði að taka af skarið svo það verði ekki misskilið hvort 36. gr. í frv. eigi við byggingar- og húsnæðissamvinnufélög til viðbótar þeim félögum sem kveðið er á um að öðru leyti.

En ég vek athygli á að í 36. gr. er ákaflega einkennileg uppsetning á framkvæmd laga, herra forseti. Þar er nefnilega kveðið á um það að til þess að félag verði samþykkt eða viðurkennt þá eigi félmrn. fyrst að senda samþykktir félagsins til umsagnar hjá húsnæðisnefndum sveitarfélaga og húsnæðisnefndirnar eigi síðan að segja ráðherranum hvort samþykktirnar fullnægi lögum og reglugerðum sem ráðherrann hefur sett. Ég hlýt að spyrja hvort ekki sé hægt að nota hið ágæta starfsfólk í félmrn. til að ganga úr skugga um það? Þarf að leita til húsnæðisnefnda sveitarfélaganna til að fá svar við því hvort samþykktir félaganna uppfylli skilyrði laga og reglugerða? Ég bið hæstv. félmrh. að ganga ekki svo langt að afhenda reglugerðarvaldið út fyrir hina almennu stjórnsýslu ríkisins. Það hefur nú alltaf verið miðað við þau mörk að ráðherrann framseldi ekki reglugerðarvaldið og ég bið hann um að draga í land með slík áform, því það er ekki víst, ef menn á annað borð fara af stað í þessum efnum að menn endi endilega innan lands.

Ég vil, herra forseti, einnig benda á skilyrðin sem sett eru fyrir stofnun og samþykki byggingarsamvinnufélaga, 19. og 20. gr. í því frv. sem við erum að ræða núna. Það er mjög sérkennilegt satt að segja. Ég skal ekki segja hvort það sé mjög frábrugðið gildandi lögum, ég hef ekki lesið það yfir, en þegar ég les þessar tvær greinar saman, 19. og 20. gr. þá sækja á mig þær hugsanir hvort við séum ekki að ganga of langt.

Í 19. gr. er skilyrði fyrir því að stofna byggingarsamvinnufélag háð samþykki ráðherra. Það eru engin fyrirmæli í 19. gr. til ráðherra við hvað hann eigi að styðjast þegar hann veltir því fyrir sér hvort hann eigi að samþykkja eða synja beiðninni, það eru engin fyrirmæli. Þar segir einungis að samþykki ráðherra þurfi. Svo bara ræður hann.

Í 20. gr. er eiginlega gengið enn lengra. Þar er honum veitt heimild til að ákveða hvaða skilyrði hann setur. Það er algerlega sett í vald ráðherra að ákveða hvað hann setur upp sem skilyrði í þessum efnum. Og reglugerðarvaldið sem honum er falið er um öll aðalatriði málsins. Í lögunum er ekki kveðið á um eitt einasta efnisatriði sem löggjöfin ætlar að ákveða sem forsendu fyrir því að veita samþykki fyrir starfrækslu félaganna. Öll slík ákvæði eru algerlega í höndum ráðherra.

Síðan eru talin upp í 20. gr. fjölmörg atriði sem ráðherra er veitt heimild til að setja nánari ákvæði um í reglugerð. En gætum að því að ekki er skylda fyrir ráðherrann að setja nokkur þeirra í reglugerð, engin skylda um það.

[17:15]

Svo er kórónað með því að segja í grg. með 20. gr. að upptalningin sé ekki tæmandi þannig að ráðherrann hefur enn frekari heimildir en taldar eru upp í 20. gr. Hann hefur allar aðrar heimildir sem honum sýnist. Ég segi, herra forseti, þetta er ekki hægt. Svona getum við ekki afgreitt málið. Þarna er of langt gengið í að ætlast til þess af löggjafanum að hann framselji löggjafarvaldið til ráðherrans.

Í öðru lagi þá segi ég líka: Þarna er allt of langt gengið í að skerða félagafrelsið í landinu. Hvar eru sólskinsþingmennirnir sem höfðu svo hátt í gær? Hvar er hv. þm. Pétur Blöndal?

Hér er vegið að félagafrelsinu sem á að vera verndað í stjórnarskránni. Sett eru alls konar möguleg og ómöguleg skilyrði, ráðherranum er falið að ákveða það eins og honum sýnist fyrir því að menn megi stofna félag í þeim tilgangi að reisa íbúðir fyrir félagsmenn sína. Hvers vegna í ósköpunum þarf í löggjöf að setja skilyrði fyrir því að menn megi stofna félag um þennan tilgang? Ekki er um að ræða neina félagslega greiðslu úr ríkissjóði eftir þessa breytingu ef ég skil málið rétt. Gert er ráð fyrir því að þeir sem taki lánin borgi það sem það kostar og ríkissjóður beri engan kostnað af.

Skiljanlegt er að ríkissjóður geti sett í löggjöf skilyrði fyrir því að hann veiti tilteknum aðilum lán. En það er óskiljanlegt að menn setji í löggjöf tiltekin skilyrði fyrir því að félög megi starfa og verða til. Það er fullkomlega óskiljanlegt. Ég segi það, herra forseti, að V. kafli frv. um byggingarsamvinnufélög er alvarleg atlaga að félagafrelsi í landinu. Ég vænti þess að hv. félmn. geri mikla bragarbót á kaflanum því ekki er hægt að búa við að frv. verði að lögum svona óbreytt hvað þetta varðar.

Herra forseti. Ég held að ég hafi ekki fleiri orð um frv. Ég bið hæstv. ráðherra að greiða úr því sem ég var að velta fyrir mér og mótaði í spurningar til hans því að ég held að nauðsynlegt sé að það sé skýrt hvernig eigi að tengja frumvörpin saman og að það sé enn fremur skýrt hvaða kjör þessum félögum á að standa til boða.