Byggingar- og húsnæðissamvinnufélög

Þriðjudaginn 10. mars 1998, kl. 17:28:37 (4542)

1998-03-10 17:28:37# 122. lþ. 83.2 fundur 508. mál: #A byggingar- og húsnæðissamvinnufélög# frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 122. lþ.

[17:28]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég ítreka eftir svör ráðherra að niðurstaðan er sú varðandi þau atriði sem ég spurði um að þessi samvinnufélög eru frjáls félagasamtök, óháð sveitarfélögum sagði hæstv. ráðherra. Það þýðir væntanlega að sveitarfélögum verður ekki gert að greiða í varasjóð vegna þeirra lánveitinga í þær íbúðir og hafa þar af leiðandi engin afskipti af þeim málum. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hann telji þá ónauðsynlegt að hafa einhvern varasjóð á bak við þessar íbúðir. Út af fyrir sig gæti verið hægt að útfæra málið þannig að það væri sjálfstæð bakábyrgð eða varasjóður sem yrði stofnaður fyrir þessi félagasamtök eða íbúðir á þeirra vegum.

Ég met svör ráðherrans líka þannig að það sé hin pólitíska stefna að lán til leiguhúsnæðis, jafnt sem húsnæðis í eigu samvinnufélags verði a.m.k. á kostnaðargrundvelli. Ég segi ekki á markaðsvöxtum en a.m.k. á kostnaðargrundvelli, þ.e. að sjóðurinn sem á að veita lánið tekur þá vexti sem hann þarf til þess að standa undir kostnaði sínum við lánveitinguna. Þar með er lánasjóðurinn ekki lengur nein félagsleg stofnun í þeim skilningi. Það er grundvallaratriði að menn geri sér grein fyrir því að verið er að leggja af húsnæðislánakerfi sem hefur verið félagslegt í eðli sínu og reka það á kostnaðargrundvelli. Þegar menn verða búnir að því er stutt yfir í það að menn reki það á markaðsforsendum. Ég vek athygli á því að það er miklu styttra skref frá lánveitingu á kostnaðargrundvelli yfir í lánveitingu á markaðsvöxtum en það skref sem verið er að stíga núna.

Þó að það sé vissulega rétt að markaðsbætur séu félagsleg aðstoð þá eru vaxtabætur ekki partur af húsnæðiskerfinu. Það er allt önnur löggjöf, bæði hvað varðar kaup á húsnæði og síðan leigu á leiguhúsnæði þannig að það er ekki lengur tengt saman eins og verið hefur. Ég vek athygli á því að ef áform manna eru eins og þeir segja er ekki mikill munur á því að lána með föstum vöxtum annars vegar og lána með hærri vöxtum og greiða síðan háu vextina niður með vaxtabótum ef það á að vera óbreyttur kostnaður fyrir lántakendurna. Ef það er rétt að sú breyting að hækka vextina og síðan að breyta vaxtabótunum þannig að þeir taki af vaxtahækkunina hafi ekki áhrif þá segi ég: Það er alveg eins hægt að hafa bara föstu vextina áfram. Þá er breytingin óþörf. Þess vegna er breytingin gerð til að íþyngja lántakendum í heild sinni. Það hlýtur að vera. Annars væru menn ekki að þessari breytingu.