Atvinnusjóður kvenna

Þriðjudaginn 10. mars 1998, kl. 18:02:42 (4551)

1998-03-10 18:02:42# 122. lþ. 83.9 fundur 72. mál: #A atvinnusjóður kvenna# þál., Frsm. KÁ
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 122. lþ.

[18:02]

Frsm. félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. félmn. um till. til þál. um atvinnusjóð kvenna.

Nefndin fjallaði um málið og bárust allnokkrar umsagnir sem getið er um í nefndarálitinu. Þær voru allar mjög jákvæðar þannig að nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt þó með þeirri breytingu sem hér er getið um en við leggjum til að við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: ,,Nefndin taki jafnframt mið af þeirri úttekt sem gerð hefur verið á vegum Vinnumálastofnunar og því hvernig styrkir hafa nýst.``

Tillagan gengur út á það, hæstv. forseti, að fram fari endurskoðun á starfsemi atvinnusjóðs kvenna, farið verði yfir hvernig styrkjum úr honum hefur verið dreift eða til hverra þeir hafa gengið, hvernig þeir hafa nýst og hvort hugsanlega þurfi að gera einhverjar breytingar þar á. Fram kom í umfjöllun félmn. um fjárlögin fyrr í vetur að menn töldu að nauðsynlegt væri að gera ýmsar breytingar. Tímarnir hafa breyst og ýmis verkefni sem verið var að styðja, m.a. úti á landsbyggðinni, hafa ekki öll gengið jafn vel og kom fram í máli fulltrúa Vinnumálastofnunar að nauðsynlegt væri að skoða reynsluna og huga að úrbótum.

Vinnumálastofnun fékk félagsfræðing til að fara ofan í styrkveitingar og niðurstöður úr þeirri könnun eiga að vera tilbúnar einmitt um þessar mundir þannig að við leggjum til að nefndin taki mið af þeirri könnun sem fram fór. Jafnframt verði að sjálfsögðu hugað að því hvernig betur má gera því tilgangurinn er auðvitað sá að efla atvinnu kvenna, styðja þær til nýsköpunar og að fjármagn verði veitt til þess.

Undir þetta nefndarálit skrifa allir nefndarmenn, Pétur H. Blöndal, þó með fyrirvara, en Rannveig Guðmundsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.