Atvinnusjóður kvenna

Þriðjudaginn 10. mars 1998, kl. 18:05:05 (4552)

1998-03-10 18:05:05# 122. lþ. 83.9 fundur 72. mál: #A atvinnusjóður kvenna# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 122. lþ.

[18:05]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til að mæla fyrir brtt. sem ég flyt ásamt Jóhönnu Sigurðardóttur og ég ætla að skýra aðeins hvernig stendur á því að ég flyt hér þá tillögu. Eins og fram kom hjá formanni félmn. var ég upptekin við verkefni á vegum Alþingis annars staðar og var því ekki viðstödd þegar umfjöllun átti sér stað um málið og það afgreitt úr nefnd.

Ég styð þetta mál eins og það kemur frá nefndinni en er hins vegar með tillögu um að staða sjóðsins verði fjárhagslega tryggð og kem ég að því síðar.

Þessi sjóður hefur ekki verið mjög stór í gegnum árin. Hann á sér nokkurra ára sögu. Ætli saga hans spanni ekki sjö til átta ár og má segja að í gegnum árin hafi honum verið ætlaðar u.þ.b. 20--25 millj. kr., lengst af 20 millj. þar til félmn. mælti með því eitt sinn við afgreiðslu fjárlaga að sá sjóður fengi viðbótarfjárveitingu og framlög úr honum fengju að ná til þéttbýlisins en í upphafi var hann hugsaður til að styrkja atvinnumál kvenna á landsbyggðinni.

Ég má líka til með að rifja það upp að í mesta atvinnuleysinu, 1993 trúlega, var veitt aukafjárveiting til þessa sjóðs til að taka sérstaklega á í atvinnumálum kvenna og þá fékk hann 60 millj. kr. fjárveitingu og sérstakur starfsmaður var ráðinn í að auglýsa, fara yfir umsóknir og reyna að verja fjármagninu sem allra best, konum á atvinnuleysistímum til framdráttar.

Það er líka athyglisvert, virðulegi forseti, að nú um stundir virðist vera meira atvinnuleysi kvenna en var þá þegar gripið var til sértækra úrræða varðandi atvinnumál kvenna. Það er eins og viðhorf okkar til atvinnuleysis sé eitthvað farið að slævast, a.m.k. þegar konur eiga í hlut. Atvinnusjóður kvenna, oftast kallaður Jóhönnusjóður, á sér ekki lagastoð enda er hann eiginlega horfinn inn í Atvinnuleysistryggingasjóð og sést ekki í fjárlögum þegar þeim er flett. Hann átti sér þó áður stoð sem sérstakur liður á fjárlögum og með sérstöku framlagi.

Ég hreyfi því hér, virðulegi forseti, að ef á að gera hann virkari og öflugri, þá þarf að skoða það að lögfesta hann ásamt því að skoða aukið fjármagn til sjóðsins. Það er alveg ljóst að ef þessi sjóður á að fá sinn sess og verða til þess að tryggja konum ný og öðruvísi tækifæri, þá verður að tryggja honum fjármagn. Um það er tillaga okkar Jóhönnu Sigurðardóttur að við 1. mgr. tillgr. bætist: ,,og hvernig tryggja megi honum aukið fjármagn.`` Tillögugreinin mundi þá hljóða svo:

,,Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að skipa nefnd sem endurskoði og geri tillögur um framhald á starfi atvinnusjóðs kvenna og hvernig tryggja megi honum aukið fjármagn.``

Síðan er seinni málsgreinin um hvernig nefndin skuli vera skipuð.

Eins og ég hef áður nefnt var þessi sjóður sérgreindur á sínum tíma í fjárlögunum sem sértakur fjárlagaliður. Það fór með þann sjóð eins og starfsmenntasjóðinn að þegar verið var að breyta Atvinnuleysistryggingasjóðnum í félmrn. með tilkomu nýs ráðherra þar, þá voru þessir þýðingarmiklu sjóðir, atvinnusjóður kvenna og starfsmenntasjóður, settir þar inn. Að vísu má enn þá finna starfsmenntasjóðinn undir Atvinnuleysistryggingasjóði, hann er a.m.k. nafngreindur þar en fjármagn til hans hefur verið óbreytt ár eftir ár og þess gætir heldur ekki varðandi starfsmenntasjóð að einhver sérstök hugsun eða pólitísk áhersla sé á að reyna að koma til móts við breytta tíma og aðstæður í þjóðfélaginu.

Í dag þarf félmrh. í fyrsta lagi að hafa áhuga á að berjast fyrir fjármagni í sjóðinn og í öðru lagi styrk til þess að ná framlagi á fjárlögum hverju sinni, þ.e. ef hann ætlar að bæta einhverju við umfram það að láta þetta vera hluta af framlögum og styrkjum sem Atvinnuleysistryggingasjóður skiptir fé til af því sem hann hefur umleikis.

Það er hins vegar ljóst að þessi sjóður verður aldrei verulegur kostur nema fjármagn verði tryggt. Þess vegna er hin litla brtt. okkar Jóhönnu Sigurðardóttur mjög mikilvæg.

Það er ljóst, og hefur komið fram alls staðar þar sem úttekt hefur verið gerð á stöðu kvenna í atvinnumálum og möguleikum þeirra til að fitja upp á einhverju nýju þar sem litla atvinnu er að hafa, að mjög margar konur hafa hæfileika, getu og vilja til að fara inn á nýjar brautir. Þær hafa verulegt frumkvæði og það hefur verið ótrúlegt að fara á þá staði á landinu þar sem konur hafa kannski tekið sig saman um húsnæði til að hafa aðstöðu fyrir eitthvað nýtt til að gera eða að sjá hvaða hugmyndaauðgi býr í því sem konurnar hafa brotist til að framleiða eða fitja upp á á atvinnuleysistímum. Það er hins vegar alveg ljóst að konur hafa ekki viljað taka lán í eitthvað sem er fallvalt og ekki séð fram á hvernig slíkri framleiðslu reiðir af. Því má heldur ekki gleyma að í mörgum tilfellum hafa konurnar verið að fitja upp á einhverju nýju til þess að reyna að skapa sér atvinnu, ekki síst vegna þess að þröngt hafi verið um fjárhag heimilisins þegar þær fóru að reyna fyrir sér með það sem þær hafa fitjað upp á. Þess vegna hefur þessi litli sjóður byggt á svipuðum viðhorfum og lánatryggingasjóður kvenna, sem við félmrh. stofnuðum með árs millibili, jafnspaugilegt og það er. En það er líka gott skref og öðruvísi vegna þess að þar er verið að leita eftir samvinnu lánastofnana við framtak félmrn., Reykjavíkurborgar og iðnrn. sem bundust saman í það verkefni að reyna að koma á slíkum lánatryggingasjóði til að efla möguleika kvenna til að koma litlum fyrirtækjum á laggirnar án þess að hafa til þess fjármagn.

Það er dálítið alvarlegt þegar maður hugsar um að einmitt af því að fjárhæðin er ekki há, í þessu tilfelli með Jóhönnusjóðinn var hún lengst af 20--25 millj. kr. fyrir utan þetta eina ár sem var ráðist í sérstakt átak, þá er eins og virðingin sé minni fyrir sjóði af þessari stærðargráðu þó hlutverk hans sé e.t.v. þýðingarmeira en margra hinna stóru sjóða með umtalsvert fjármagn. Ég minni á að í umræðunni sem við höfum átt hér, virðulegi forseti, um húsnæðismál hefur verið vikið að útlánatöpum hinna ýmsu sjóða og ég leyfði mér að lesa upp hvernig útlánatapið skiptist á hina ýmsu sjóði á vegum hins opinbera en að sjálfsögðu kom ekki til að lítill sjóður eins og atvinnusjóður kvenna væri þar inni, enda hefur hann fyrst og fremst haft styrkveitingar á sinni könnu. En þegar sjóðir hins opinbera og útlánatöp eru skoðuð þá leika þær fjárhæðir á milljörðum króna í sumum tilfellum og niður í nokkra tugi milljóna á meðan við erum af veikum mætti að berjast fyrir lítilli upphæð eins og 20--25 millj. í atvinnusjóð sem gerir konum fært að örva sköpunargáfu sína og nýta hana sjálfum sér og heimilinu til framdráttar.

Þess vegna er afar gott að hér sé verið að samþykkja tillögu um að skipa nefnd sem endurskoði og geri tillögur um framhald af starfi atvinnusjóðs kvenna en það er líka dapurt að hugsa til þess að lítill sjóður, sem búið var að koma á laggir og átti sér þó stoð í fjárlögum, skuli hafa runnið svo átakalaust inn í Atvinnuleysistryggingasjóð án þess að menn hafi haft af því miklar áhyggjur og að tillaga þurfi að koma fram á Alþingi um að það sé skoðað hvernig hægt sé að skipa þessum sjóði á betri veg og að tillögur séu gerðar um framhald á starfi atvinnusjóðs kvenna. Það er dapurt að hugsa til þess að það skuli þurfa að koma tillaga á Alþingi Íslendinga um að tryggja svo litlum sjóði líf á meðan hann ætti í sjálfu sér að eiga skjól í því ráðuneyti sem hann er og hefði fremur átt að lyfta honum en láta hann renna inn í Atvinnuleysistryggingasjóð þar sem mikil hætta er á að hinir þýðingarmiklu sjóðir, atvinnusjóður kvenna og starfsmenntasjóður, eigi eftir að daga uppi ef ekkert gerist.

Virðulegi forseti. Ég treysti því að Alþingi Íslendinga sjái sóma sinn í því að samþykkja þessa litlu tillögugrein, að kannað verði hvernig tryggja megi sjóðnum aukið fjármagn.