Útboð á hafrannsóknaskipi

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 13:48:37 (4562)

1998-03-11 13:48:37# 122. lþ. 84.3 fundur 486. mál: #A útboð á hafrannsóknaskipi# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 122. lþ.

[13:48]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir svörin svo langt sem þau náðu. Ég ítreka fyrri orð mín um að markmið útboða er ávallt að leita hagkvæmustu lausna. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef m.a. frá aðstandendum þeirra er áttu lægsta tilboðið þá mun ekki hafa verið leitað til þeirra eða þeim gefinn kostur á að færa fram þær upplýsingar sem eðlilegt verður að teljast. Í mínum huga virðist það hafa gerst í þessu tilviki að þeir hafi verið sniðgengnir og má færa fyrir því rök að gengið hafi verið fram hjá tilboði sem felur í sér allt að 500 millj. kr. mun miðað við það tilboð sem tekið var.

Ég minni á að kínverska smíðastöðin, sem um er að ræða, er ein sú stærsta í heimi og mun hafa reynslu af því að smíða skip með nýtískubúnaði. Hún mun og hafa langa reynslu af smíði herskipa og kafbáta með þeim kröfum sem gerðar eru til skipa af þeirri gerð. Þess vegna hlýtur að vera eðlilegt að álíta að sú smíðastöð hafi yfir tæknilegri reynslu og þekkingu að ráða.

Ég ítreka enn að samkomulag lá fyrir milli Kínverjanna og Slippstöðvarinnar á Akureyri um tæknilegt eftirlit og að hluta til smíðaverkefninu, þannig að það kæmi til Slippstöðvarinnar á Akureryri. Það hefði gefið íslenskum skipaiðnaði kærkomið tækifæri til að spreyta sig á metnaðarfullu verki.

Þetta og fleira tel ég óeðlilegt og óásættanlegt og hvet hæstv. ráðherra til að beita sér fyrir því að farið verði í saumana á þessu máli að nýju ef hægt er. Í mínum huga hlýtur það að teljast eðlilegt að leita allra leiða til að ná samningum við þann sem best verð býður og ganga úr skugga um að tilboð hans sé raunhæft. Það virðist ekki hafa verið gert í þessu tilviki og fyrir vikið gætum við verið að smíða okkur rannsóknaskip sem er allt að 500 millj. kr. dýrara en þyrfti að vera. Það finnst mér ekki mjög skynsamleg ráðstöfun.