Tilboð í smíði rannsóknaskips fyrir Hafrannsóknastofnun

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 13:52:25 (4564)

1998-03-11 13:52:25# 122. lþ. 84.4 fundur 493. mál: #A tilboð í smíði rannsóknaskips fyrir Hafrannsóknastofnun# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi GÁS
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 122. lþ.

[13:52]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Árni Stefánsson):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið eru fyrirspurnir mínar náskyldar þeim fyrirspurnum sem ræddar voru áðan. Á þeim er þó sá eðlismunur að þær eru fram lagðar eftir að ákvörðun var tekin um það af hálfu opinberra aðila um að taka því tilboði sem hér um ræðir, sjötta lægsta tilboði. Því hef ég spurt hvers vegna ekki var tekið lægsta tilboði í smíði nýs rannsóknaskips fyrir Hafrannsóknastofnun. Í fjölmiðlum hefur komið fram að Ríkiskaup og verkkaupar hafi borið við ýmsum ástæðum, m.a. hæfi kínversku skipasmíðastöðvarinnar til að uppfylla alla þá skilmála sem útboðsskilmálar kváðu á um. Því hefur hins vegar verið hafnað sem rökleysu af hálfu bjóðenda og vísað til þess að hér sé um að ræða feikistóra, öfluga og þekkta skipasmíðastöð, sem aukinheldur er aðeins hluti af stórri keðju þannig að öll efni hefðu staðið til þess að hægt væri að uppfylla allar þær kvaðir sem tilgreindar voru í útboðsskilmálum og komu að auki fram á eftir í viðræðum verksala og verkkaupa.

Í öðru lagi spyr ég hvort þannig megi þá líta á að tilboð lægstbjóðanda hafi ekki verið í samræmi við útboðsskilmála. Það hefur verið ákaflega óljóst í allri opinberri umræðu hvort um það hafi í raun verið að ræða og ýmsar fullyrðingar fallið í þá veru. Menn hafa nefnt hljóð, þ.e. að lægstbjóðandi hafi ekki getað tryggt að þetta skip væri með vélar af því tagi og byrðing sem tryggði það að um hljóðlátt farartæki væri að ræða. Því hefur verið andmælt.

Í annan stað hefur verið nefnt að bjóðandi hafi ekki sýnt fram á svokallaða ISO-vottun og ekki lagt fram nein gögn þar að lútandi. Eftir mínum upplýsingum hefur aldrei og var aldrei á neinu stigi máls beðið um slíkt. Þannig mætti lengi telja en ég vænti þess að hæstv. ráðherra kveði upp úr með það hvað það var í raun sem orsakaði það að verkkaupi, hinn opinberi aðili, ákvað að taka tilboði sem var u.þ.b. hálfum milljarði kr. hærra en það lægsta.

Ég þekki það dálítið frá mínu fyrra starfi að standa í útboðsgerð, og mjög sterk rök þarf til að taka ákvörðun um að hafna tilboði sem er hálfum milljarði kr. lægra en það tilboð sem tekið er. Ég spyr þá að gefnu tilefni: Voru útboðsskilmálar ekki nægilega vel gerðir? Og í öðru lagi, þegar um jafnstórar tölur er að ræða og hér um ræðir: Hefði ekki verið eðlilegra að fram hefði farið forval og valdar hefðu verið fyrir fram skipasmíðastöðvar sem taldar hefðu verið hæfar að mati verkkaupa að taka þátt í þessu tilboði þannig að menn hefðu komist hjá því að lenda í þessum erfiðleikum í kjölfar útboðs?