Tilboð í smíði rannsóknaskips fyrir Hafrannsóknastofnun

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 14:01:11 (4566)

1998-03-11 14:01:11# 122. lþ. 84.4 fundur 493. mál: #A tilboð í smíði rannsóknaskips fyrir Hafrannsóknastofnun# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 122. lþ.

[14:01]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Það sem líklega er alvarlegast í þessu máli er að rökstuðningur verkkaupa stangast allverulega á við fullyrðingar umbjóðenda þeirra sem áttu lægsta tilboðið og það eitt finnst mér gefa tilefni til að endurskoða málið. Rétt er að ítreka að hér er um að ræða allt að 500 millj. kr. mun samkvæmt fullyrðingum þeirra sem standa að lægsta tilboðinu.

Þá er líka rétt að benda á að í rökstuðningi verkkaupa kemur fram að samkvæmt skrám Lloyd´s smíði þessi stóra skipasmíðastöð aðeins takmarkaða gerð skipa. En það er vert að vekja athygli á því, af því að hljóðeinangrun er gerð að veigamiklu atriði í rökstuðningnum, að þessi stóra skipasmíðastöð hefur smíðað herskip og kafbáta og til kafbáta eru gerðar gífurlega miklar hljóðeinangrunarkröfur. Það eitt vekur einmitt upp spurningar og mér finnst það styðja að ástæða sé til þess að yfirfara þann rökstuðning sem hér var vitnað til.