Heimkoma háhyrningsins Keikós

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 14:08:09 (4570)

1998-03-11 14:08:09# 122. lþ. 84.5 fundur 505. mál: #A heimkoma háhyrningsins Keikós# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi SF
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 122. lþ.

[14:08]

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Fyrir stuttu kom í ljós að ráðamenn á Íslandi væru nokkuð jákvæðir gagnvart því að leyfa heimkomu háhyrningsins Keikós, kvikmyndastjörnunnar sem veiddist hér við land í kringum 1977--1978. Síðan hafa málin varðandi Keikó verið rædd fram og til baka í þjóðfélaginu, mest á tilfinninganótum eins og eðlilegt er.

Heimkoma Keikós vekur upp margar spurningar þegar litið er til baka og má sjá hliðstætt mál þegar óskað var eftir því að fá viðbrögð hæstv. sjútvrh. við því sleppa háhyrningnum Tilikum. En þá var svarið nei og í tengslum við það svar sagði hæstv. sjútvrh. Þorsteinn Pálsson eftirfarandi samkvæmt mínum upplýsingum:

,,Þær staðreyndir sem gera lausn háhyrningsins Tilikum lítt fýsilega munu einnig gera það um aðra háhyrninga sem verið hafa í vörslu manna utan Íslands. Þess vegna hefur þetta ráðuneyti ... ákveðið að leyfa hvorki lausn þessa háhyrnings né annarra sem nú eru undir manna höndum.

Við treystum því að þetta svar okkar svari fyrir fullt og allt öllum spurningum varðandi lausn háhyrninga í hafið við Ísland.``

Hæstv. ráðherra var einnig spurður í sjónvarpsþætti, bandaríska fréttaþættinum FRONTLINE, og þá var það um Keikó. Þá var svarið: ,,Þið vitið hvert svarið er, hvert svarið var fyrir nokkrum árum. Það var nei og það var byggt á vísindalegri ráðgjöf.`` Ástæðan var ótti við að hugsanlega kæmu hingað sjúkdómar og það gæti verið erfitt fyrir Tilikum að lifa af í íslenskri náttúru.

Í mínum huga og ég held í huga þjóðarinnar togast tvö sjónarmið á sem vega svolítið salt. Í fyrsta lagi er ljóst að ferðamannaþjónustan mun að öllum líkindum stórgræða á þeirri auglýsingu sem Ísland fær ef við leyfum komu háhyrningsins hingað til lands aftur. Fram kæmi jákvæð umhverfisímynd. Hreinum sjó og fallegri náttúru yrði haldið á lofti. Ferðamannaþjónustan er mikill vaxtarbroddur og veltir 20 milljörðum inn í íslenskt þjóðarbú á hverju ári. Það má einnig segja að við fengjum svar við spurningunni hvort þetta væri hægt, þ.e. að þetta yrði eins og vísindaleg tilraun.

Á hinn bóginn sér maður gallana. Manni finnst svolítill tvískinnungur felast í því að leyfa heimkomu Keikos og að vafasöm náttúrusjónarmið liggi þar á bak við. Hvað með hina 10--20 háhyrningana sem við yrðum e.t.v. einnig beðin um að taka við og hvað með yfirlýsta stefnu stjórnvalda í hvalveiðum? Mun heimkoma Keikós trufla hvalveiðar okkar í framtíðinni? Munu hún hindra það að við getum hafið hvalveiðar aftur eins og þjóðin vill reyndar og er yfirlýst stefna stjórnvalda? Þess vegna legg ég þessar spurningar fyrir hæstv. sútvrh. Hver er afstaða hans til málsins? Og hefur málið verið skoðað í sjútvrn.?