Heimkoma háhyrningsins Keikós

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 14:15:43 (4573)

1998-03-11 14:15:43# 122. lþ. 84.5 fundur 505. mál: #A heimkoma háhyrningsins Keikós# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 122. lþ.

[14:15]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Þetta Keikó-mál er eitt af þeim furðulegu málum sem stundum rekur á fjörur okkar Íslendinga. Hópur Bandaríkjamanna virðist vera tilbúinn að setja milljónir dollara í að flytja gamlan háhyrning til Íslands. Í sjónvarpinu í gærkvöldi var þáttur um þetta mál þar sem meðal gesta var Jón Kr. Gunnarsson sem hafði á árum áður atvinnu af því að fanga háhyrninga og selja og meðal þeirra dýra sem hann hafði fangað var þessi frægi Keikó. Jón sagði frá því að að fenginni reynslu væri vonlaust að sleppa tömdum háhyrningum því að þeir kynnu ekki að afla sér fæðu og það virðist því nokkuð ljóst að þegar og ef Keikó kemur til Íslands mun hann ekki verða langlífur, blessaður. En það skiptir okkur Íslendinga svo sem engu máli.

Það sem skiptir okkur máli er að tryggt sé að dýrið beri ekki með sér sjúkdóma. Sé það tryggt þá er ekki ástæða fyrir okkur að vera að setja fótinn fyrir þennan flutning þó hann sé allur hinn furðulegasti. Málið snýst auðvitað um peninga. Keikó hefur fært eigendum sínum stórar fjárhæðir. Nú mun aðsóknin að honum hafa minnkað og þá finna menn upp á því snjallræði að fara að flytja hann með brambolti til Íslands á vit fjölskyldu sinnar og sjálfsagt verður sett á fót öflug fjáröflun í þeim tilgangi í Bandaríkjunum því að það er reynslan að þegar ímynduð velferð hvala er annars vegar þá eru Bandaríkjamenn fljótir að opna budduna.