Heimkoma háhyrningsins Keikós

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 14:17:15 (4574)

1998-03-11 14:17:15# 122. lþ. 84.5 fundur 505. mál: #A heimkoma háhyrningsins Keikós# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 122. lþ.

[14:17]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir að vekja máls á þessu máli en eins og þingmenn vita þá er bandarískt samfélag ákaflega sérkennilegt fyrir margra hluta sakir. Þarna hafa mjög snjallir markaðsmenn markaðssett Keikó í kvikmyndinni Free Willy eins og þið þekkið og börnin fá í raun og veru útrás fyrir blíðu og umhyggju í gegnum þessa skepnu.

Vissulega er Keikó afar spennandi verkefni fyrir margra hluta sakir, atvinnuskapandi, gjaldeyrisskapandi og allt það. Það er ákveðin sálfræði fólgin í þessu. Ef við tökum á móti Keikó til Íslands getum við gleymt því að veiða hval, það er alveg ljóst. En það er líka spurning um það ef við tökum upp hvalveiðar á Íslandi hvort við erum ekki hreinlega orðin of sein, hvort við erum ekki að fórna of miklum hagsmunum fyrir of lítið.