Heimkoma háhyrningsins Keikós

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 14:18:28 (4575)

1998-03-11 14:18:28# 122. lþ. 84.5 fundur 505. mál: #A heimkoma háhyrningsins Keikós# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 122. lþ.

[14:18]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Við skulum átta okkur á því að það sem er að gerast í kringum hvalinn Keikó er náttúrlega bara leikrit. Það er verið að setja á svið leikrit vegna þess að það eru til aðilar sem sjá sér fjárhagslegan hag í því.

Ég er með undir höndum mjög skemmtilegt fréttaskeyti frá bandarískri fréttastofu þar sem sá sem skrifar er kallaður Showbusiness Correspondent og fer mjög vel á því að sá sem skrifar um þetta sé sá sem fjallar um sýndarveruleika. Þar er sagt frá því að verið sé að safna peningum til að koma þessu dýri til Íslands að nýju í heimkynni sín og jafnframt er sagt frá því að þeir sem taki á móti peningunum séu hin merku samtök Whale and Dolphin Conservation Society en það eru einhver þekktustu öfgasamtök sem hafa gert hvað harðasta hríð að okkur Íslendingum í tilverubaráttu okkar fyrir því að nýta auðlindirnar í kringum landið.

Jafnframt er sagt frá því í þessu bráðskemmtilega skeyti að það sé ætlun þessara samtaka að senda hingað til lands menn til þess í fyrsta lagi að taka upp hljóð frá hvölum og taka síðan af þeim DNA-sýni til þess að staðsetja frændgarð Villa Keikós. Ég hef að vísu ekki frétt af því hvort þeir hafi fundið frænda hans en ég tók eftir því að hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason játaði frændsemi sína við Keikó í grein í Dagblaðinu og það hefur kannski byggst á þessum rannsóknum.

Virðulegi forseti. Þetta sýnir hins vegar að allt málið í kringum þetta dýr er bara spurning um sýndarmennsku og ekkert annað. Ég tel alveg fráleitt að tengja þetta því hvort menn veiði hval eða ekki. Það er sjálfstæð spurning og við látum ekki þessa sýndarmennsku hafa áhrif á það.