Frestun á yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 14:36:15 (4583)

1998-03-11 14:36:15# 122. lþ. 84.6 fundur 492. mál: #A frestun á yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., JónK
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 122. lþ.

[14:36]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég tel eitt af grundvallaratriðunum til að styrkja sveitarfélögin, að flytja til þeirra aukin verkefni. Það eflir sjálfstjórn sveitarstjórnarstigsins. Ég tel að málefni fatlaðra séu mjög vandasamt verkefni sem þó fellur að félagslegri þjónustu sveitarfélaga. Ég held að almenn samstaða sé um að þetta sé skynsamlegt. Þessi flutningur er hins vegar viðkvæmur og betra að hann dragist en að flanað sé að málinu. Það er heppilegt að nýjar sveitarstjórnir taki áttirnar áður en þær fá þetta vandasama verkefni til meðferðar.

Ég tek undir það sem hér hefur áður verið sagt og tel að heppilegt væri að setja tímamörk í varðandi verkefnaflutning. Ég vil undirstrika að þessi málaflokkur er mjög vandmeðfarinn og það verður að sjá svo um að sveitarfélögin geti sinnt þessu vandasama verkefni á viðhlítandi hátt.