Frestun á yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 14:42:17 (4587)

1998-03-11 14:42:17# 122. lþ. 84.6 fundur 492. mál: #A frestun á yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 122. lþ.

[14:42]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil nú ekkert fullyrða um hver verður félmrh. eftir næstu kosningar. Ég vil minna hv. þm. á það að það dansa nú ekki allir á kirkjugarðsballinu í haust sem ætluðu þangað í vor, svo vitnað sé í Laxness.

Hv. þm. hefur fengið tækifæri til að kynnast starfsfólki félmrn. Hann veit vel að þar er vinnusamt fólk sem sinnir sínum störfum. (Gripið fram í.) Það er líka góð verkstjórn félmrn.

Það er nógur tími til að ákveða endanlega tímasetningu. Ég vil bíða eftir hugmyndum nefndarinnar sem sett hefur verið í að athuga sérstaklega vandann í þessum tveimur sveitarfélögum. Fyrir liggur að lagafrv. verður tilbúið í vor. Þegar lagaramminn er klár, þá getur kostnaðarnefndin gengið frá sínum þætti og þegar kemur fram á árið eða undir haust sjáum við hve langan tíma þarf til verkefnisins. Það getur vel verið að nóg sé að fresta því um eitt ár en vel kann að vera hyggilegra að fresta því um tvö.

Ég legg áherslu á að það er mjög mikilvægt að þessi málaflokkur fari til sveitarfélaganna. Hér hefur verið drepið á ýmsar ástæður sem mæla með því. Það er t.d. mikilvægt fyrir sveitarfélögin að fá fjölbreytni í atvinnulíf og þarna eru störf sem að hluta eru unnin af menntuðu fólki.

Varðandi kostnaðarþáttinn þá hlýtur ríkið að sjálfsögðu að leggja fé með þessum málaflokki. Það hlýtur að koma til jöfnunar á milli sveitarfélaganna, t.d. í gegnum jöfnunarsjóð. Ríkið er ekkert að senda þennan málaflokk á sveitarfélögin öðruvísi en að láta með honum fé eða tekjustofna.