Smíði á varðskipi

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 14:55:32 (4592)

1998-03-11 14:55:32# 122. lþ. 84.7 fundur 474. mál: #A smíði á varðskipi# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., GHall
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 122. lþ.

[14:55]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn því fyrir nokkrum árum lagði ég fram þáltill. sem gekk út á að hafin yrði könnun á smíði nýs varðskips og það er vel að svo langt skuli málið vera komið. Hins vegar verð ég að segja að það sætir nokkurri furðu að svo langur tími skuli líða frá því ákvörðun er tekin um að hefja verkið og skipa smíðanefnd eins og raun ber vitni. Hér er verið að tala um að að leita þurfi valkosta. Danir hafa þróað mjög góð strandgæsluskip sem starfsmenn Landhelgisgæslunnar hafa skoðað. Þau henta mjög vel. Það liggur ljóst fyrir þannig að við þurfum ekki að leita langt yfir skammt í því sambandi. Það er ánægjulegt að hér skuli koma fram að fullur hugur er á að þetta væntanlega skip verði smíðað hér á landi. Að sjálfsögðu hljóta þá útboðsreglur að gilda þar um eins og á öðrum vettvangi hvað áhrærir nýsmíði.

Herra forseti. Ég tel að við þurfum ekki að leita langt yfir skammt. Þekking og reynsla liggur þegar fyrir hjá Dönum þannig að við gætum þess vegna nánast tekið þeirra teikningar til fyrirmyndar.