Smíði á varðskipi

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 14:59:42 (4595)

1998-03-11 14:59:42# 122. lþ. 84.7 fundur 474. mál: #A smíði á varðskipi# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 122. lþ.

[14:59]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég tek undir að ástæða er til að fagna þeim yfirlýsingum sem hér hafa verið gefnar varðandi smíði þessa skips. Ég held að vert sé að vekja athygli á því í þessu sambandi að á síðustu árum hefur samstarf málmiðnaðarfyrirtækja og skipasmíðafyrirtækja á Íslandi verið að aukast ár frá ári. Þegar um er að ræða stórt verkefni af þessu tagi er einsýnt að það verður að byggjast á einhvers konar samvinnu þessara fyrirtækja innan lands ef menn ætla að halda sem mestu af þessum störfum hér á landi.

[15:00]

Ég vil þess vegna vekja sérstaka athyli á þessu. Ég vek t.d. athygli á því að skipasmíðastöðin á Ísafirði hefur á undanförnum árum verið að smíða skip á þessu lægðartímabili í skipasmíðaiðnaðinum. Þar hafa verið gerðir mjög góðir hlutir. Núna er einmitt verið að leggja lokahönd á bát sem á að koma til Reykjavíkur. Í þessu sambandi vil ég árétta mikilvægi þess að halda sem mestu af verkþáttunum innan lands og að skipasmíðastöðvarnar og málmiðnaðarfyrirtækin eigi með sér gott samstarf um þetta mál.