Smíði á varðskipi

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 15:00:52 (4596)

1998-03-11 15:00:52# 122. lþ. 84.7 fundur 474. mál: #A smíði á varðskipi# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 122. lþ.

[15:00]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég held að ástæða sé til að undirstrika það sem hér hefur komið fram í svörum hæstv. dómsmrh. og hæstv. iðnrh. Hjá stjórnvöldum er fullur vilji fyrir því að þetta skip verði smíðað heima ef þess er nokkur kostur. Ákvörðun hefur ekki verið tekin enn. Menn eru að skoða alla þá möguleika sem gefast ef ég hef skilið hæstv. ráðherra rétt. Við hljótum að treysta því að sá vilji sem fram kemur í svörum þeirra, nægi til að varðskip verði smíðað hér heima. Ég hef engu við þau rök að bæta sem menn hafa flutt fram fyrir því. Ég held að vandamál vegna tækniþekkingar og hins mikilvæga samstarf sem menn sjá fyrir sér muni öll leysast ef við náum viðurkenningu á því að hér sé um sambærilega hluti að ræða og þá sem hæstv. iðnrh. vék að áðan. Hann gat um samsvörun við danskar aðstæður sem þar hafi verið nýttar til smíði þeirra strandgæsluskips.

Ég treysti því, herra forseti, að nú þegar smíðanefndin hefur starfað í a.m.k. mánuð, muni styttast í að hér liggi fyrir ákvörðun um að nýtt varðskip verði smíðað á Íslandi í samstarfi þeirra skipasmíðastöðva sem hér eru starfandi. Við vitum að það getur orðið mikilvægt verkefni, bæði hvað varðar þróun og tækni.