Staðsetning Fjárfestingarbanka og Nýsköpunarsjóðs

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 15:03:19 (4597)

1998-03-11 15:03:19# 122. lþ. 84.8 fundur 485. mál: #A staðsetning Fjárfestingarbanka og Nýsköpunarsjóðs# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 122. lþ.

[15:03]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Um síðustu áramót tóku til starfa annars vegar Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. og hins vegar Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins. Hér er um að ræða nýjar stofnanir sem standa að hluta til á gömlum grunni. Þó eru þetta klárlega nýjar stofnanir með nýju fólki og nýju hlutverki.

Eins og menn hafa oft rætt er mun auðveldara, þegar rætt er um staðsetningu stofnana, að eiga við nýjar stofnanir sem eiga sér ekki forsögu. Þær eru ekki bundnar af staðsetningu starfsmanna og þar fram eftir götunum. Þegar rætt hefur verið um að flytja ríkisstofnanir út á land hafa margir sagt að menn eigi fremur að beina kröftum sínum að því að nýjar stofnanir sem ríkið setur á laggirnar verði settar niður á landsbyggðinni. Ásamt mér flutti hv. þm. Tómas Ingi Olrich þáltill. í þessa veru og hún er nú er til meðferðar í þinginu.

Ég get út af fyrir sig tekið undir það að þegar rætt er um staðsetningu ríkisfyrirtækja og stofnanir ríkisins, þá eigi fyrst og fremst að skoða þau mál út frá þjónustunni sem þau veita. Staðsetningin má auðvitað ekki leiða til þess að sú þjónusta sé lakari. Þarna verðum við auðvitað að horfa á það að þær geti sinnt hlutverki sínu. Ef staðan er hins vegar sú að hlutverk eða starfssvið viðkomandi stofnana krefst ekki ákveðinnar staðsetningar, þá tel ég að öðru jöfnu eigi að hafa þá reglu að þeim ríkisstofnunum sé komið fyrir úti á landi. Það er sérstaklega í ljósi þess að þær eru uppspretta margvíslegra atvinnutækifæra sem ráða því hvernig íbúaþróunin breytist.

Það er enginn vafi á því að ein meginástæða þess að hér á höfuðborgarsvæðinu hefur orðið meiri fólksfjölgun á undanförnum árum en áður, er sú stefna ríkisvaldsins að setja hér niður meginhluta starfsemi sinnar.

Þegar við ræðum þessar tvær stofnanir, þá er nærtækast að skoða hlutverk þeirra samkvæmt lögum. Ef við skoðum t.d. lögin um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, þá er gert ráð fyrir því að hann eigi að veita íslensku atvinnulífi fjármálaþjónustu. Bankinn á að hafa með höndum hverja þá starfsemi sem lánastofnunum öðrum en viðskiptabönkum og sparisjóðum er heimil að lögum. Nýsköpunarsjóðurinn hefur það hlutverk að stuðla að uppbyggingu og vexti íslensks atvinnulífs, sem auðvitað er staðsett um allt land, með því að taka þátt í fjárfestingarverkefnum á sviði nýsköpunar og styðja við þróunar- og kynningarverkefni. Lesi maður þennan texta verður ekki annað séð en þessum verkefnum megi sinna hvaðan sem er af landinu. Þess vegna hef ég leyft mér að spyrja hæstv. viðskrh.:

1. Hverjar voru ástæður þess að skrifstofum Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins var ekki valinn staður á landsbyggðinni?

2. Hefði það hamlað starfsemi fyrrnefndra stofnana ef þær hefðu verið staðsettar utan höfuðborgarsvæðisins?