Staðsetning Fjárfestingarbanka og Nýsköpunarsjóðs

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 15:12:44 (4599)

1998-03-11 15:12:44# 122. lþ. 84.8 fundur 485. mál: #A staðsetning Fjárfestingarbanka og Nýsköpunarsjóðs# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 122. lþ.

[15:12]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vestf. hreyfir hér athyglisverðu máli. Á stefnuskrám allra stjórnmálaflokka og flestra ríkisstjórna síðustu áratuga hefur ætlunin verið að flytja eitthvað af starfsemi hins opinbera frá Reykjavík og út á land. Lengst af fylgdi hugur ekki máli en á síðustu árum hafa verið stigin örstutt skref í þessa átt. Þau fyrstu voru stigin með flutningi veiðistjóraembættisins til Akureyrar, með ákvörðun um flutning Landmælinga til Akraness og með því að flytja hluta af starfsemi Byggðastofnunar til Sauðárkróks. Í öllum tilfellum hefur þetta mætt mjög harðri gagnrýni. Þeir sem tekið hafa þessar ákvarðanir hafa verið sakaðir um að vega að hagsmunum starfsmanna. Margir hafa því komist að þeirri niðurstöðu að trúlega sé auðveldara að staðsetja nýja starfsemi hins opinbera úti á landi frekar en að standa í flutningum.

Hér gafst gullið tækifæri til þessa. Auðvitað gat þessi banki verið staðsettur víða á landsbyggðinni alveg jafnt og í Reykjavík. Með góðu móti hefði verið hægt að staðsetja hann í átthögum bankastjórans á Akranesi þar sem aldeilis vel hefði farið um hann.

Tækifærið var því miður ekki notað. Gamla náttúrulögmálið réð því að bankinn skuli vera í Reykjavík eins og önnur starfsemi hins opinbera og því miður heyrist mér á svörum hæstv. ráðherra að þess sé ekki að vænta það lögmál breytist mikið á næstunni.