Staðsetning Fjárfestingarbanka og Nýsköpunarsjóðs

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 15:15:37 (4601)

1998-03-11 15:15:37# 122. lþ. 84.8 fundur 485. mál: #A staðsetning Fjárfestingarbanka og Nýsköpunarsjóðs# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., KHG
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 122. lþ.

[15:15]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil fagna því frumkvæði stjórnarþingmanna að bera fram fyrirspurn til ráðherra sinna um þetta málefni. Ég styð viðleitni þeirra og sjónarmið í þessu efni og hvet þá til að halda áfram á þessari braut.

En ég vil þó vekja athygli á því að þeim hefði e.t.v. tekist að ná meiri árangri ef þeir hefðu beitt sér á fyrri stigum málsins. Bendi ég á að af 15 þingmönnum Framsfl. eru 11 þeirra úr kjördæmum utan Reykjavíkur. En svo virðist sem allir þessir 11 þingmenn Framsfl. hafi samþykkt þennan ráðahag.

Ég vil síðan, herra forseti, segja að ég undrast nokkuð þá skýringu hæstv. viðskrh. að rekstrarkostnaður Nýsköpunarsjóðsins verði minnstur með því að hafa hann á höfuðborgarsvæðinu. Má vera, en hvernig stendur þá á því, herra forseti, að rekstrarkostnaður á stöðugildi í hinum nýja sjóði er 2,5 sinnum hærra en kostnaður við hvert stöðugildi á Sjúkrahúsi Reykjavíkur og verða þó sjúklingar ekki taldir óvirðulegra verkefni en peningar, herra forseti.