Staðsetning Fjárfestingarbanka og Nýsköpunarsjóðs

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 15:17:55 (4603)

1998-03-11 15:17:55# 122. lþ. 84.8 fundur 485. mál: #A staðsetning Fjárfestingarbanka og Nýsköpunarsjóðs# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., GMS
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 122. lþ.

[15:17]

Gunnlaugur M. Sigmundsson:

Herra forseti. Það sem hér er til umræðu snýst um að auka fjölbreytni starfa á landsbyggðinni. Ég leyfi mér að minna á að fyrir þinginu liggur þáltill. um fjarstörf, sem ég er sannfærður um að mun gera miklu meira gagn, ef samþykkt verður, heldur en að flytja einstakar stofnanir á einstaka staði. Það er verið að tala um að flytja Landmælingar á Akranes, sem er hið besta mál, en það mun gera miklu meira gagn fyrir landsbyggðina og auka fjölbreytni starfa mun meira ef við komum á því fyrirkomulagi að starfsfólk hvar sem er á landinu geti unnið í Fjárfestingabanka Íslands eða hjá Landmælingum, veiðimálastjóra, ráðuneytum eða í hvaða stofnunum sem er, þá munum við raunverulega auka fjölbreytni starfa á landsbyggðinni. Hitt að færa stofnun sem hentar tiltölulega fáum að vinna hjá mun ekki auka fjölbreytnina almennt. Þess vegna segi ég: Vinnum heldur að því að koma á fjarvinnslu starfa en að halda áfram að karpa um það hvort einstakar stofnanir verði fluttar hingað eða þangað.