Staðsetning Fjárfestingarbanka og Nýsköpunarsjóðs

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 15:22:17 (4605)

1998-03-11 15:22:17# 122. lþ. 84.8 fundur 485. mál: #A staðsetning Fjárfestingarbanka og Nýsköpunarsjóðs# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 122. lþ.

[15:22]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Til að svara því strax sem hv. þm. spurði um þá ég tel að öll tækifæri séu til þess að ríkisfyrirtæki geti risið úti á landsbyggðinni og ætla ekki að færa frekari rök fyrir því hér. Það sem mig og hv. þm. greinir kannski á um er hvort hér sé um nýjar stofnanir að ræða eða ekki. Mín skoðun er sú að vitaskuld voru stofnuð ný fyrirtæki, þ.e. Fjárfestingarbanki atvinnulífsins og Nýsköpunarsjóður, en á grunni gamalla, starfandi fyrirtækja. Og það dýrmætasta, það verðmætasta sem þessi fyrirtæki fengu í vöggugjöf voru einmitt starfsmenn þessara fyrirtækja sem þar störfuðu og héldu áfram að starfa hjá þessum fyritækjum. Og það er það sem ég var að færa fram sem meginrök fyrir því áðan að ég taldi að það hefði getað raskað mjög samkeppnisstöðu þessara fyrirtækja hefðu þau verið flutt út á landsbyggðina. Ég útilokaði hins vegar ekki tæknilega séð að það væri ekki hægt.

Það sem mér finnst hins vegar vera mikilvægast í þessu, og hef lagt áherslu á, eru þær þúsund millj. kr. sem eru í Framtakssjóði og sérstaklega voru ætlaðar til átaks til atvinnusköpunar úti á landsbyggðinni. Það eru tvær leiðir í því. Fyrri leiðin er sú að láta Nýsköpunarsjóðinn sjá um þessa fjármuni, staðsettan í Reykjavík, og fyrirtækin á landsbyggðinni komi síðan og leiti eftir því hvort hægt sé að fá aðstoð í gegnum Framtakssjóðinn.

Ég tel þetta óskynsamlega leið. Ég tel aðra leið betri, sem ég hef lagt áherslu á að verði farin. Skipta þessum milljarði, t.d. í fjóra sjálfstæða potta sem staðsettir verði í atvinnuþróunarfélögunum, hugsanlega iðnþróunarfélögunum, í samvinnu við fjármálastofnanir víða úti um land. Greiða síðan tiltölulega góða þóknun fyrir að sjá um ávöxtunina og vörslu fjárins þannig að á grundvelli þeirrar þóknunar sem þannig verður til sé möguleiki að skapa störf í atvinnuþróunarfélögunum og eignarhaldsfélögunum víða um land til þess að leita að atvinnutækifærum á landsbyggðinni. Þetta tel ég vera heillavænlegustu leiðina til að nýta þessa fjármuni.

Verði þessi leið farin, sem ég mun leggja áherslu á við stjórn Nýsköpunarsjóðs, þá tel ég að við séum raunverulega að færa til bæði fjármunina og verkefnin út á landsbyggðina.