Listaverkakaup Listasafns Íslands

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 15:25:06 (4606)

1998-03-11 15:25:06# 122. lþ. 84.9 fundur 502. mál: #A listaverkakaup Listasafns Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 122. lþ.

[15:25]

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. menntmrh.

Listasafn Íslands er þjóðareign. Hlutverk þess er margþætt. Listasafnið geymir þverskurð af list samtímans. Listasafnið kaupir listaverk af samtímamönnum og eldri listaverk, auk þess sem Listasafnið á að vekja fólk, unga og aldraða, til vitundar um íslenska list.

Um listaverkakaup þurfa að ríkja ákveðnar hlutlausar reglur. Listasafn Íslands ætti að vera miðstöð rannsókna í íslenskri list, þar með talið íslenskri myndlist þar sem einstaklingar ættu að geta fengið staðfestingu á hvort listaverk eru eftir viðkomandi listamenn.

Að undanförnu hefur verið vakin athygli manna á að málverkafölsun er líklega stunduð á Íslandi í tengslum við viðskipti við Danmörku. Ólafur Ingi Jónsson hjá Morkinskinnu, en það fyrirtæki hreinsar og yfirfer og gerir við listaverk, telur að u.þ.b. 300 fölsuð verk af mismunandi gerð hafi verið seld að undanförnu á Íslandi.

Málverkafölsun er í raun glæpur og skemmdarverkastarfsemi, málverkafölsun svertir nöfn ástsælla listamanna þjóðarinnar sem kenndir eru við verk sem ekki tengjast þeim. Málverkafölsun falsar menningar- og listasögu landsins og í raun og veru er verið að féfletta hinn almenna borgan með málverkafölsun. Líkja má málverkafölsun við peningafölsun.

Fyrsirspurn mín er eftirfarandi:

1. Hversu miklu fjármagni hefur Listasafn Íslands varið árlega til listaverkakaupa síðastliðin fimm ár?

2. Eftir hvaða reglum er farið við val á þeim listaverkum sem keypt eru?

3. Hvað ræður verðlagningu á þeim listaverkum sem keypt eru?

4. Er talið að fölsuð verk hafi verið keypt til safnsins á síðustu fimm árum og ef svo er, hve mörg?

5. Stendur til að breyta reglum um kaup á listaverkum og ef svo er, hvernig?

6. Hvaða reglur gilda um lán á listaverkum til stofnana?

Ég tel mjög nauðsynlegt og eðlilegt að Listasafn Íslands láni stofnunum bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni listaverk til þess að glæða listaáhuga manna vítt og breitt um landið.

[15:27]