Almenn hegningarlög

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 15:35:24 (4610)

1998-03-11 15:35:24# 122. lþ. 85.6 fundur 521. mál: #A almenn hegningarlög# (fyrning sakar) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 122. lþ.

[15:35]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940.

Með frv. þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á IX. kafla laganna um fyrningu sakar og brottfall viðurlaga.

Frv. er samið á vegum refsiréttarnefndar en ég fól nefndinni það verkefni í kjölfar þess að umboðsmaður barna beindi til mín erindi í september 1997 þar sem þess er m.a. farið á leit að fyrningarreglur hegningarlaga verði endurskoðaðar með tilliti til kynferðisbrota gegn börnum. Einnig var almenn endurskoðun á fyrningarreglum laganna orðin tímabær vegna nýrra réttarfarslaga.

Samkvæmt 1. mgr. 82. gr. hegningarlaga gildir sú regla um fyrningu sakar að fyrningarfrestur telst frá þeim degi er refsiverðum verknaði eða refsiverðu athafnaleysi lauk.

Í a-lið 2. gr. frv. er lagt til að gerð verði sú undantekning frá þessari reglu að fyrningarfrestur vegna kynferðisbrota gegn börnum samkvæmt 194.--202. gr. laganna teljist þó eigi fyrr en frá þeim degi er brotaþoli nær 14 ára aldri. Með þessu lengist fyrningarfresturinn en mismikið þó eftir aldri brotaþola þegar refsiverðum verknaði lýkur. Frá 14 ára aldri brotaþola fyrnist síðan brotið á fimm, tíu eða 15 árum eftir alvarleika þess.

Kynferðislegt ofbeldi gegn börnum er með allra alvarlegustu glæpum og því er mjög mikilvægt að samfélagið reyni að taka fast og skynsamlega á þeim málum. Í því sambandi varðar miklu að fyrningarreglur laganna taki mið af séreðli þessara brota. Samkvæmt gildandi reglum er hætt við að fyrningarfrestur sé liðinn þegar börn hafa náð þeim þroska sem þarf til að gera sér grein fyrir því að þau hafi verið þolendur kynferðislegs ofbeldis. Einnig verður að gæta þess að gjarnan standa börn í sérstökum tengslum við geranda og því kann þeim á unga aldri að reynast erfitt eða ómögulegt að kæra slík brot.

Á hinn bóginn verður einnig að hafa hliðsjón af þeim lagarökum sem búa að baki fyrningarreglum hegningarlaga og almennt eru viðurkennd í refsirétti. Þau lög lúta að þeim hagsmunum sakbornings að löngu síðar sé ekki unnt að saka hann um brot, en þá er jafnan hætt við að torvelt verði að rannsaka mál og afla sönnunargagna.

Við mótun umræddrar tillögu sem lögð er til með frv. hafði refsiréttarnefnd hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem ég hef hér rakið. Var það mat nefndarinnar að hæfilegt væri að miða upphaf fyrningarfrests vegna kynferðisbrota gegn börnum við 14 ára aldur brotaþola. Frá þeim aldri og innan fyrningarfrestsins sem getur varað allt til þess að brotaþoli nær 29 ára aldri megi almennt gera ráð fyrir að hann hafi náð þeim þroska sem þarf til að gera sér grein fyrir broti og haft möguleika á að kæra það. Ég tel að þessi tillaga refsiréttarnefndar taki tillit til gagnstæðra sjónarmiða og því er hún lögð til með frv. þessu. Ég vil hins vegar taka fram að hér er um vandasamt og flókið álitamál að ræða.

Samkvæmt 4. mgr. 82. gr. hegningarlaga rofnar fyrningarfrestur þegar rannsókn hefst gegn manni sem sökunaut fyrir rétti eða lögreglustjóra. Með gildandi lögum um meðferð opinberra mála frá árinu 1991 voru eiginlegar dómsrannsóknir lagðar niður og því er lagt til í c-lið 2. gr. frv. að þessu ákvæði verði breytt til samræmis við það. Einnig er lagt til að rof fyrningarfrests miðist við það tímamark þegar tiltekinn maður er við rannsókn opinbers máls sannanlega hafður fyrir sökum vegna refsiverðs brots þannig að rannsóknin beinist að þeim manni sem sakborningi í skilningi laga um meðferð opinberra mála. Þessi tillaga, eins og henni er nánar lýst í athugasemdum í greinargerð eða athugasemdum með frv., ætti að koma í veg fyrir réttaróvissu um hvenær fyrningarfrestur telst rofinn vegna rannsóknar máls.

Í d-lið 2. gr. frv. er síðan lagt til að ákvæði 5. mgr. 82. gr. hegningarlaga um að rannsókn rjúfi ekki fyrningarfrest ef henni er hætt eða mál ekki höfðað, verði í samræmi við gildandi lög um meðferð opinberra mála.

Þá er í 3. gr. frv. lagt til að breytingar á reglum um brottfall fésektar þannig að fjárhæð sektar sem fyrnist á fimm árum verði hækkuð úr 20 þús. kr. í 60 þús. kr. til samræmis við verðlagsþróun. Einnig er lagt til að tvö ár bætist við fyrningarfrestinn ef sekt hefur verið tryggð með fjárnámi eða öðrum sambærilegum hætti. Með því ætti að gefast nægilegt svigrúm til að ljúka fullnustuaðgerðum til heimtu sektar áður en sektin og tryggingin fyrir henni fellur niður.

Herra forseti. Ég hef þá gert í meginatriðum grein fyrir efnisatriðum frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og meðferðar hjá hv. allshn.