Almenn hegningarlög

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 15:52:08 (4617)

1998-03-11 15:52:08# 122. lþ. 85.7 fundur 522. mál: #A almenn hegningarlög# (afnám varðhaldsrefsingar) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 122. lþ.

[15:52]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, og um breytingar á öðrum lögum.

Með frv. þessu er lagt til að varðhaldsrefsing verði afnumin og ýmsar lagfæringar gerðar á lagaákvæðum um refsingar. Tekur frv. bæði til almennra hegningarlaga og refsiákvæða í öðrum lögum. Frv. þetta er samið á vegum refsiréttarnefndar en í skipunarbréfi til nefndarinnar fól ég henni m.a. að endurskoða V. kafla hegningarlaga með tilliti til afnáms varðhaldsrefsingar.

Samkvæmt 32. gr. hegningarlaga, nr. 19/1940, er refsivist nú tvenns konar, fangelsi og varðhald. Þetta fyrirkomulag refsinga var upphaflega reist á þeim röksemdum að tvær tegundir refsivistar væru nauðsynlegar. Í almennum athugasemdum greinargerðar með frv. til hegningarlaga sagði að gert væri ráð fyrir að til fangelsisvistar yrði dæmt fyrir meiri háttar afbrot og að þeirri refsivist sættu einnig þeir menn sem óheppilegt þótti að umgengjust varðhaldsfanga, t.d. þeir sem hefðu áður setið í fangelsi, þótt síðar framið brot hefði verið smávægilegt. Í varðhald átti hins vegar að dæma fyrir smáfelld brot, en þó með fyrrgreindri undantekningu varðandi þá sem ekki þóttu samboðnir varðhaldsföngum. Þetta var nánar skýrt í athugasemdum greinargerðar við 32. gr. laganna, en þar sagði að aðgreining fanga væri óhjákvæmileg, þannig að þeir menn, sem framið hefðu smávægileg brot eða væru í refsivist til að afplána sektir, væru ekki látnir taka út refsingu í félagsskap með stórglæpamönnum þjóðfélagsins. Samkvæmt þessu voru því þeir sem gerðust sekir um afbrot er varðaði refsivist flokkaðir í annars vegar eiginlega afbrotamenn og hins vegar aðra sem fremur þótti hafa orðið á yfirsjón, sem leiddi til mildari og styttri frjálsræðissviptingar í formi varðhalds, en sú tegund refsingar var talin eins konar heiðvirðra manna gæsla.

Fram til ársins 1988 gerðu hegningarlög ráð fyrir nokkrum mun á inntaki varðhalds og fangelsis. Þannig þurftu varðhaldsfangar ekki að láta sér nægja venjulegt fangaviðurværi og var þeim heimilt að útvega sér sjálfir og taka við fæði, húsmunum, bókum og öðrum persónulegum nauðsynjum að svo miklu leyti sem það færi ekki í bága við öryggi og góða reglu í varðhaldinu. Einnig var sú regla gildandi að varðhaldsfanga átti ekki að hafa með þeim sem dæmdir höfðu verið í fangelsi.

Við setningu hegningarlaga voru aðstæður hér á landi þær að ekki var unnt að fullnusta refsivist í samræmi við þær mismunandi reglur sem giltu um fangelsi og varðhald. Því var beinlínis gert ráð fyrir því í 271. gr. laganna að þessar reglur kæmu til framkvæmda meðan ekki væri til sérstök varðhaldsstofnun. Slík stofnun var ekki reist og því kom aldrei til þess í raun að refsivist væri fullnustuð í samræmi við afdráttarlaus fyrirmæli laga um mismunandi inntak varðhalds og fangelsis. Einnig breyttist meðferð á föngum í fangelsisvist smám saman í það horf sem gilti um varðhaldsfanga lögum samkvæmt. Með gildandi lögum um fangelsi og fangavist var síðan lögfest sama réttarstaða fyrir varðhaldsfanga og þá sem afplána fangelsisrefsingu.

Það sem upphaflega lá til grundvallar tvenns konar refsivist fær ekki staðist þegar litið er til seinni tíma laga og sjónarmiða innan refsiréttar og afbrotafræði. Kemur tæplega til álita að greina afbrot og afbrotamenn í tvennt eftir eðli þeirra og afbrotum, þannig að mismunandi tegund refsivistar eigi við eftir atvikum í hverju tilviki. Virðist sá eðlismunur á afbrotamönnum og högum þeirra ekki styðjast við haldbær rök svo að unnt sé að réttlæta að þeir verði flokkaðir í annars vegar eiginlega afbrotamenn og hins vegar þá sem ekki er jafnalvarlega komið fyrir. Slík greining getur verið tilviljunum háð hverju sinni þannig að hún leiði til mismununar og óréttlætis í viðbrögðum samfélagsins við refsiverðri háttsemi.

Með hliðsjón af því sem ég hef nú rakið er lagt til að varðhald verði afnumið sem viðurlög við refsiverðri háttsemi. Það verður að telja eðlilega afleiðingu þess að lög gera ekki lengur ráð fyrir mismunandi inntaki varðhalds og fangelsis við fullnustu refsingar og á þetta enn fremur við þar sem áskilnaður eldri laga í þeim efnum kom aldrei til framkvæmda. Verði frv. að lögum verða því í raun engar breytingar á því hvernig fullnusta refsidóma fer fram að gildandi lögum.

Með frv. er einnig lagt til að breytt verði ákvæðum laga sem leggja fangelsisrefsingu við broti án þess að takmarka tímalengd fangelsis. Samkvæmt slíkum ákvæðum getur refsing þyngst orðið fangelsi í 16 ár samkvæmt 34. gr. hegningarlaga. Viðhlítandi rök skortir fyrir því að brot á sérrefsilögum geti varðað sömu eða þyngri refsingu en alvarlegustu afbrot samkvæmt almennum hegningarlögum. Því er lagt til að þessum ákvæðum verði breytt þannig að tímalengd fangelsis verði tilgreind. Í flestum tilvikum er lagt til að brot á viðkomandi lögum geti varðað tveggja ára fangelsi.

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir meginatriðum frv. og legg til að því verði vísað að lokinni þessari umræðu til 2. umr. og meðferðar hjá hv. allshn.