Sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkur

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 10:42:06 (4622)

1998-03-12 10:42:06# 122. lþ. 86.2 fundur 287. mál: #A sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkur# frv., Frsm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[10:42]

Frsm. félmn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að við erum komin á vissan hátt inn í dálítið nýjan veruleika í þessu máli vegna þess að sveitarfélag er að sameinast yfir kjördæmamörk.

Mér er mjög vel kunnugt um að mjög mörg sveitarfélög eða sveitarstjórnarmenn hafa verið að velta þessu máli mikið fyrir sér. Þessi mál hafa verið m.a. rædd í sveitarfélögum í kjördæmi mínu þar sem ég þekki býsna vel til. Hér var nefndur áðan Bæjarhreppur sem stóð í viðræðum við sveitarfélög í Vestur-Húnavatnssýlu sem hafa öll sameinast um það að taka þátt í sameiningarkollsteypunni.

Hins vegar kom mjög vel fram í máli bæði íbúa Bæjarhrepps sem ég hitti að máli og fulltrúa sveitarstjórnarinnar þar að þeim var það á þeim tíma mjög mikið í mun að þurfa ekki að færa sig til milli kjördæmamarka. Það er ekki bara vegna álits þeirra á þeim hv. þm. sem starfa í Vestfjarðakjördæmi vegna þess að það hafa auðvitað byggst upp alls konar önnur tengsl. Þetta er hluti af Strandasýslu og þar fram eftir götunum.

Nákvæmlega það sama hef ég orðið var við núna upp á síðkastið í sameiningarviðræðum sem eru að fara af stað milli Dalabyggðar, Saurbæjarhrepps og Reykhólasveitar, að þessi mál hafa komið mjög mikið upp og sveitarstjórnarmenn og forustumenn í sveitarfélaginu Reykhólahreppi hafa verið í sambandi við mig til þess að geta fylgst nákvæmlega með því hver yrði niðurstaða félmn. og þá væntanlega Alþingis varðandi þessa sameiningu Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar. Ég gæti því vel ímyndað mér að niðurstaða af þessu tagi sem við erum svona um það bil að fara að innsigla á Alþingi muni verða til þess að menn fari að hugsa dálítið upp á nýtt sameiningarviðræður ýmissa sveitarfélaga. Það hefur staðið í ýmsum að velta fyrir sér sameiningu sveitarfélaga yfir kjördæmamörk vegna þess að menn hafa talið að á því væru alls konar annmarkar en álit af þessu taginu breytir því á vissan hátt.

Hins vegar er rétt að láta það koma fram að það kom fram í máli borgarlögmanns í viðræðum við félmn. að þess mundi verða farið á leit við ríkisstjórnina að fyrir næstu þingkosningar yrði flutt frv. til stjórnskipunarlaga um sameiningu Reykjavíkur og Kjalarneshrepps í eitt kjördæmi, Reykjavíkurkjördæmi. En þessi mál eru eins og við vitum í mikilli deiglu og verið að ræða þau á allt öðrum vettvangi í sérstakri nefnd sem er að skoða skipan kjördæmanna í landinu og þetta getur allt breyst áður en varir án þess að ég ætli að taka upp sérstaka efnislega umræðu um það.

Það leiðir hugann að því að við getum líka farið að sjá aðra hlið á málinu og það er að sú staða gæti komið upp að eitt sveitarfélag væri í fleiri en einu kjördæmi. Menn hafa m.a. verið að ræða um slíkar hugmyndir á höfuðborgarsvæðinu þó ég sé ekki að slá því neitt föstu að það verði niðurstaðan.

[10:45]

Það er eitt af því sem menn hafa rætt. Hv. þm. Svavar Gestsson nefndi eitthvað slíkt á ágætum fundi sem við sátum saman á í Grafarvogi fyrir nokkrum dögum. Þetta er eitt af því sem menn ræða. Staðan gæti verið sú að sveitarfélög, í fyrsta lagi sameinuðust yfir kjördæmamörk og væru þar með í tveimur kjördæmum. Þetta er kannski eitthvað sem við þurfum að venja okkur við og átta okkur á. Þetta er ekki talið óeðlilegt úti í heimi, til að mynda í Bretlandi, í einmenningskjördæmunum þar sem kjördæmamörkin eru sífellt færð til að endurspegla íbúaþróunina. Þar eru sveitarfélög ýmist inni í ákveðnu kjördæmi eða ekki. Þetta er hugsun sem við erum svolítið óvön og við höfum talið heppilegt að byggja upp góð tengsl milli kjördæmanna og sveitarstjórnarstigsins og þetta er þáttur sem við munum auðvitað bregðast við.

En að öðru leyti vil ég segja það að nefndin skoðaði þetta mál talsvert. Hún kallaði ekki aðeins eftir áliti sérfræðinga og ræddi við þá, heldur var málið mikið rætt í nefndinni. Ég tel að þetta sé mjög áhugavert viðfangsefni að velta fyrir sér. Ég held að meira eigi eftir að ræða málið hér á þessari löggjafarsamkomu. Það var gert mjög ítarlega við 1. umr. málsins þar sem menn skiptust á skoðunum um þessi efni. Og ég held að þetta sé umræða sem sé vel þess virði að dvelja dálítið við.