Takmörkun á hrossabeit og fjölda hrossa

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 10:47:12 (4623)

1998-03-12 10:47:12# 122. lþ. 86.3 fundur 51. mál: #A takmörkun á hrossabeit og fjölda hrossa# þál., Frsm. MS
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[10:47]

Frsm. landbn. (Magnús Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá landbn. á þskj. 859 um till. til þál. um takmörkun á hrossabeit og fjölda hrossa.

Í stuttu máli hefur nefndin fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Dýrmundsson, landnýtingarráðunaut Bændasamtaka Íslands, og Svein Runólfsson landgræðslustjóra, Andrés Arnalds og Björn Barkarson frá Landgræðslu ríkisins. Umsögn barst um málið frá Landgræðslu ríkisins og um samhljóða tillögu á 121. löggjafarþingi bárust umsagnir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Skógrækt ríkisins, Landgræðslu ríkisins, Búnaðarsambandi Vestfjarða, Landssambandi hestamannafélaga, Bændasamtökum Íslands og umhverfisnefnd Alþingis.

Í tillögugreininni er gert ráð fyrir að landbúnaðarráðherra, að höfðu samráði við umhverfisráðherra, móti tillögur um aðgerðir og nauðsynlegar lagabætur til að takmarka fjölda hrossa og hrossabeit í úthaga með tilliti til jarðvegsverndar og hóflegrar nýtingar gróðurlendis. Þá segir í tillögugreininni að tillögurnar skuli kynntar Alþingi á haustþingi 1998.

Á fundum nefndarinnar var staðfest að mikil fjölgun hrossa á síðustu áratugum hefði á ýmsum stöðum leitt til ofbeitar og skemmda á landi og með frekari fjölgun stefndi í óefni. Nefndin telur að nauðsynlegt sé að bregðast við þessu og móta tillögur til úrbóta. Þá telur nefndin rétt að tillögur landbúnaðarráðherra liggi fyrir á haustþingi 1998. Nefndin mælir með samþykkt tillögunnar með eftirfarandi breytingu:

Í stað orðanna ,,Tillögurnar verði kynntar Alþingi á haustþingi 1998`` í síðari málslið tillögugreinar komi: Tillögurnar liggi fyrir á haustþingi 1998.

Undir þetta nefndarálit skrifa allir nefndarmenn landbn., hv. þm. Guðni Ágústsson, Egill Jónsson, Magnús Stefánsson, Guðjón Guðmundsson, Hjálmar Jónsson, Árni M. Mathiesen, Lúðvík Bergvinsson, Ágúst Einarsson og Sigríður Jóhannesdóttir.