Meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 10:49:54 (4624)

1998-03-12 10:49:54# 122. lþ. 86.4 fundur 544. mál: #A meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða# (heildarlög) frv., sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[10:49]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða. Í frv. eru ekki lagðar til veigamiklar efnisbreytingar frá gildandi lögum. Um er að ræða nauðsynlegar forms- og efnisbreytingar sem gerðar eru af tæknilegum ástæðum fyrst og fremst. Í frv. er leitast við að samræma hugtakanotkun þeirri hugtakanotkun sem útbreidd er og tíðkast víða um heim, m.a. á Evrópska efnahagssvæðinu. Í frv. er því að finna mun fleiri skilgreiningar á hugtökum en í gildandi lögum og er hugtakanotkun í ákvæðum frv. í samræmi við þær.

Reglur Evrópusambandsins fela í sér ítarlegar kröfur til okkar Íslendinga um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða. Því er nauðsynlegt að reglur þær sem settar eru til að framfylgja þessum kröfum byggi á traustum lagagrunni og sá lagagrunnur geri stjórnvöldum kleift að framfylgja þeim samkvæmt þeim samningum sem við höfum gert við Evrópusambandið.

Þá er í frv. gert ráð fyrir lítils háttar efnisbreytingum frá gildandi lögum sem eru nauðsynlegar til að unnt sé að samræma íslenska löggjöf evrópskum reglum. Í þessu sambandi má nefna að við höfum gert óþarflega strangar kröfur til uppboðs- og heildsölumarkaða sem ekki vinna sjávarafla. Samkvæmt reglum Evrópubandalagsins nægir að hafa starfsleyfi. Það gerir ekki sömu kröfur og vinnsluleyfi sem þeim er skylt að hafa samkvæmt núgildandi lögum. Í frv. er lagt til að gerðar verði breytingar á reglum um notkun á neysluvatni úr hreinum sjó til þvotta, þrifa og ísframleiðslu. Hér er um tæknilegt atriði að ræða sem gert er ráð fyrir að útfært verði nánar í reglugerð.

Ólíkt gildandi lögum nær gildissvið frv. ekki til eftirlits með slátrun eldisfisks. Þessi breyting er eðlileg þar sem slíkt eftirlit er á valdsviði yfirdýralæknis og heyrir af þeim sökum undir landbrn. en ekki sjútvrn. Á sama hátt er eðlilegt að upprunareglur, sem nú er að finna í 6. gr. laga 93/1992, verði felldar niður þar sem eftirlit með þeim er ekki á valdsviði sjútvrn.

Í 16. gr. frv. er að finna atriði um skoðunarstofur er skulu skv. 14. gr. gildandi laga fylgjast með hreinlæti, búnaði og innra eftirlit fyrirtækja og skipa, starfa faglega og samræma störf sín. Í frv. er því lagt til að skoðunarstofur þurfi faggildingu og þær séu hlutlaus þriðji aðili. Hlutleysisreglan er til þess fallin að treysta trúverðugleika skoðunarstofanna.

Í þessu frv. eru ekki sérstök ákvæði um málskotsnefnd, eins og í 29. og 30. gr. gildandi laga. Frá því að lögin tóku gildi 1992 hefur raunar aldrei komið til þess að þessi nefnd væri skipuð. Málskotsnefndin var hugsuð sem óháður úrskurðaraðili og ætlað að auka réttaröryggi, skilvirkni og öruggari málsmeðferð framkvæmdarvaldsins, þ.e. Fiskistofu. Frá því að lög 92/1993 tóku gildi hafa verið sett stjórnsýslulög sem ætlað er að tryggja örugga og skilvirka málsmeðferð innan stjórnsýslunnar. Því þykir ekki ástæða til að setja á fót sérstaka málskotsnefnd. Af þeim sökum er horfið frá því í þessu frv.

Varðandi uppbyggingu þessa frv. er rétt að geta þess að lög 93/1992 hafa tekið verulegum breytingum frá því að þau voru lögfest í upphafi. Veigamesta breytingin átti sér stað með lögum 89/1997 sem sett voru í framhaldi af samkomulagi EFTA-ríkjanna og framkvæmdarstjórnar Evrópubandalagsins árið 1996, um að fella inn í EES-samninginn samræmdar heilbrigðisreglur um dýr og dýraafurðir. Að teknu tilliti til hinna miklu breytinga sem orðið hafa á gildandi lögum og þeirra efnisbreytinga sem lagt er til að gerðar verði með þessu frv. þótti sjútvrn. eðlilegt að samið væru frumvarp til nýrra heildarlaga um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða.

Í frv. er gert ráð fyrir því að Fiskistofa geti heimilað öðrum erlendum eftirlitsaðilum en Eftirlitsstofnun EFTA að gera vettvangsskoðanir hjá vinnsluleyfishöfum. Með því væri tryggt að útflutningur sjávarafurða frá Íslandi stöðvist ekki vegna krafna innflutningslands um vettvangsskoðun hjá starfs- eða vinnsluleyfishafa. Hér er sérstaklega verið að gera okkur mögulegt að bjóða eftirlitsaðilum, eins og FTA í Bandaríkjunum, að skoða og kynna sér eftirlitskerfi okkar en það er grundvöllur þess að við getum gert við þá gagnkvæma samninga um viðurkenningu á eftirlitskerfi landanna.

Herra forseti. Ég hef í meginatriðum gert grein fyrir efni frv. og legg til að því verði, að lokinni þessari umræðu, vísað til 2. umr. og til meðferðar hjá hv. sjútvn.