Afnám greiðslu þungaskatts á umhverfisvæn ökutæki

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 11:06:23 (4627)

1998-03-12 11:06:23# 122. lþ. 86.5 fundur 407. mál: #A afnám greiðslu þungaskatts á umhverfisvæn ökutæki# (breyting ýmissa laga) frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[11:06]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Það mál sem hér er til umræðu og fjallar um umhverfisvæn ökutæki og afnám greiðslu þungaskatts og virðisaukaskatts á þeim er allra góðra gjalda vert. Ég tek heils hugar undir að þjóðfélagið í heild sinni þarf að taka á þeim umhverfisvanda sem fylgir miklum útblæstri ökutækja með því að laða að umhverfisvænni ökutæki en við höfum notað fram að þessu og til þess þarf að beita skattkerfinu. Viðurkenna þarf að það kostar peninga að leysa umhverfismálin. Á þau þarf að setja verðmiða og þetta er ein leiðin til þess.

Því fagna ég tillögu þeirra félaga, hv. þm. Hjálmars Árnasonar og fleiri, og tek heils hugar undir að þessi leið sé ein af þeim sem við eigum að nýta okkur.

Það er aðeins eitt sem ég hef tekið eftir í umræðunni að talað er um að einungis rafhreyfla- og vetnisbifreiðar verði undanþegnar þessum sköttum en það eru að sjálfsögðu fleiri leiðir til að mæta vandamálinu. Það eru fleiri orkugjafar t.d. metangas sem nota má á annars konar vélar og mengun nánast horfið. Ég mælti fyrir tillögu um að metangasbifreiðar mundu fá sérstaka meðhöndlun í skattkerfinu m.a. með niðurfellingu gjalda, þungaskatts og annarra gjalda sem falla á bifreiðar sem í dag gætu nýtt sér metangas, en þær bifreiðar hafa ekki verið fluttar til landsins einfaldlega vegna þess að ekki hefur verið kostur á því fyrr en bara fyrir nokkrum mánuðum að fá metangas. Það eru reyndar mjög takmarkaðir möguleikar á að nýta það til bifreiða eins og er vegna þess að afgreiðslustöðvar eru ekki til. Metangasbifreiðar sem og aðrar bifreiðar eins og rafmagnsbifreiðar og hugsanlega vetnisbifreiðar eru einfaldlega dýrari en aðrar. Þess vegna þarf að koma til einhver tilslökun eins og fram kemur í þessari tillögu og ég ásamt fleirum hef einnig bent á í öðrum málum.

Ég vil fagna því frumkvæði sem kemur fram í þessu máli frá hv. þm. sem hafa unnið gott og þarft starf á þessu sviði á undanförnum mánuðum. Þetta er eitt af því sem bætir í sarpinn að því leytinu til.

Ég vil einungis fara fram á að þegar þessari umræðu er lokið og málið fer til hv. efh.- og viðskn. að þau mál sem heyra undir þennan lið verði öll tekin saman til sérstakrar skoðunar og metangasbílar sem falla að sjálfsögðu undir þetta mál komi þá til afgreiðslu samtímis.