Afnám greiðslu þungaskatts á umhverfisvæn ökutæki

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 11:10:26 (4628)

1998-03-12 11:10:26# 122. lþ. 86.5 fundur 407. mál: #A afnám greiðslu þungaskatts á umhverfisvæn ökutæki# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[11:10]

Flm. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Pálssyni fyrir jákvæðar undirtektir við frv. Til að svara því sem hann benti réttilega á að ekki væri getið um aðrar leiðir, þá get ég alveg fallist á þau tilmæli sem hv. þm. lagði fram að hv. efh.- og viðskn. tæki einnig tillit til þessara þátta með metangasið því það er alveg hárrétt ábending hjá hv. þm. að tæknilega er í rauninni lítið því til fyrirstöðu að nýta metangas. Um það hefur verið rætt í þeirri nefnd, sem ég gat um í framsöguræðu minni, um nýtingu innlendra orkugjafa. Við höfum m.a. verið í viðræðum við starfsmenn Sorpu, eins og ég veit að hv. þm. Kristján Pálsson hefur kynnt sér mjög vel, og hafa þeir verið að skoða einmitt þá þætti að nýta t.d. þá bíla sem keyra reglulega sorp á urðunarstað Sorpu og nýta metangas þar sem fyrstu skref.

Ástæða þess að hér eru einungis nefndir vetnisbílar og rafbílar er einmitt sú að fyrstu rafbílarnir eru komnir til landsins. Frá því hefur verið greint í sjónvarpsfréttum að þegar er kominn ,,alvörurafbíll`` til landsins og kaupandi fenginn að honum. Annar er í skipi, bíður þess við hafnargarð að verða skipað á land og sá þriðji er á leiðinni.

Fyrir tilviljun er þetta mál á dagskrá í dag en í gær var samþykkt hjá veitustofnunum Reykjavíkurborgar að veita þeim sem vilja kaupa sér rafbíla ókeypis rafmagn a.m.k. næstu tvö árin. Að auki var ákveðið hjá veitustofnunum Reykjavíkurborgar að byggja upp innviði fyrir nýtingu rafbíla í miðborginni með því að koma upp innstungum þannig að hlaða megi þá meðan fólk er í vinnu.

Þá er flest sem bendir til þess að fyrsti vetnisbíllinn komi sem sýningarbíll eftir einn til einn og hálfan mánuð. Það er einmitt þess vegna sem þessar tvær tegundir eru nefndar sérstaklega. Ég tel að við séum að stíga fyrir alvöru fyrstu skrefin í átt til rafbílavæðingar eins og það dæmi sem ég nefndi áðan sýnir. Með því að þetta frv. yrði að lögum verða rafbílar mjög vel samkeppnisfærir við hinn hefðbundna bensín- eða dísilbíl í innkaupsverði og ekki síður í rekstri, svo ekki sé talað um þegar bætist síðan við jafnmetnaðarfullt plan eins og veitustofnanir Reykjavíkur hafa samþykkt með því að bjóða ókeypis rafmagn a.m.k. til næstu tveggja ára.

Þetta eru skýringarnar á því en ég tek að lokum undir það sem hv. þm. Kristján Pálsson nefndi að æskilegra væri að víkka þetta þar sem tæknin er þekkt með að nýta metangas sem orkugjafa á bíla og er reyndar notuð m.a. í Svíþjóð og á fleiri stöðum.