Afnám greiðslu þungaskatts á umhverfisvæn ökutæki

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 11:29:17 (4631)

1998-03-12 11:29:17# 122. lþ. 86.5 fundur 407. mál: #A afnám greiðslu þungaskatts á umhverfisvæn ökutæki# (breyting ýmissa laga) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[11:29]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er enginn misskilningur í því að ég tek undir það meginmarkmið frv. að hvetja til notkunar á þessum bílum og að gera fólki það betur mögulegt. Ég er alls ekki að koma hugleiðingum mínum að af löngun til að flækja málin. Þetta er auðvitað í heildarsamhengi. Ég er almennt þeirrar skoðunar að það sé heppilegra að breyttu breytanda að stuðla að eða hvetja til notkunar á æskilegri tækjum eða búnaði og stýra þannig að mönnum sé gert sem auðveldast eða ódýrast að komast yfir þau.

[11:30]

Þess vegna held ég að það væri mjög skynsamleg aðferð að reyna að stuðla að því að þessir bílar yrðu sem allra ódýrastir í innkaupum þannig að reynt væri að hafa meiri áhrif á samkeppnisstöðuna á þá hliðina að gera þá sem allra ódýrasta í innkaupum vegna þess að það er þrátt fyrir allt mikilvægt að reyna að halda í þá meginreglu að þegar til notkunarinnar kemur þá greiði menn að einhverju leyti í samræmi við kostnað samfélagsins af notkuninni. Auðvitað verður ekki horft fram hjá því að rafbílar og vetnisbílar aka um göturnar og þeir mynda stíflur við umferðaljós á morgnana kl. 8 rétt eins og aðrir bílar sem nemur a.m.k. stærð þeirra. Athugasemd mín lýtur sérstaklega að þessu, að menn verða auðvitað að horfast í augu við að framtíðin mun fela í sér skattlagningu á þessa umferð, a.m.k. á notkunarhliðinni eins og á aðra umferð í einhverjum mæli.

Svo leyfi ég mér einnig að benda á, og það er fullgilt, að það eru auðvitað tvær meginleiðar færar til að ná fram þessum skattalega mun eða hafa áhrif á samkeppnisstöðuna, í einfaldleik sínum annars vegar að létta gjöldum af þeim sem menn vilja ívilna eða að þyngja gjöldin á hinum. Auðvitað mætti ná fram sambærilegum áhrifum að einhverju leyti með því ósköp einfaldlega að skrúfa bara til takkana þannig að munurinn yrði sá sem við viljum stefna að.